Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2004 Innviðaráðuneytið

Flugmálastjórn tekur að sér stjórnun og ráðgjöf við uppbyggingu Pristinaflugvallar

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Harri Holkeri sérstakur sendifulltrúi Kofi Annans framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, skrifuðu í morgun undir samning bráðabirgðastjórnar Sameinuðu þjóðanna í Kosovo(UNMIK).

Sturla Böðvarsson með Holger Kammeroff
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra með Holger Kammeroff yfirhershöfðingja

Samningurinn felur í sér stjórnun og faglega ráðgjöf Flugmálastjórnar Íslands við uppbyggingu flugvallarins í Pristina, þannig að hann breytist úr að vera hernaðarflugvöllur í borgaralegan flugvöll. Holkeri sagði við það tækifæri að undirskriftin væri söguleg stund og sýndi að smærri þjóðir sem hefðu yfir að ráða sérfræðikunnáttu gætu komið að góðu liði við uppbyggingu sem þessa.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Harri Holkeri sérstakur sendifulltrúi Kofi Annans

Samningurinn milli UNMIK og íslenska stjórnvalda gildir til ársloka 2005 og kostar á bilinu fimm til sex hundruð milljónir króna. Flugmálastjórn er framkvæmdaraðili samgönguráðuneytisins við samninginn og mun sjá um faglega stjórnun og ráðgjöf við rekstur og uppbyggingu flugvallarins hvað varðar flugumferðarstjórn, leiðsögumál og annan nauðsynlegan búnað. Þá mun Flugmálastjórn sjá um flugupplýsingaþjónustu og allar tæknilegar handbækur fyrir flugvöllinn hvað varðar flugöryggismál, samkvæmt reglum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO). Flugöryggissvið stofnunarinnar mun sjá um allar úttektir á starfsemi og búnaði flugvallarins til staðfestingar á því að hann fullnægi alþjóðlegum kröfum. Flugmálastjórn sér einnig um þjálfun heimamanna til starfa sem flugumferðarstjórar en yfirflugumferðarstjórarnir á flugvellinum verða íslenskir. Flugmálastjórn mun gefa út skírteini kosovóskra flugumferðarstjóra og verður það í fyrsta skipti sem stofnunin gefur út slík skírteini fyrir útlendinga. Einnig mun Flugmálastjórn sjá um þjálfun og stjórnun starfliðs vegna slökkviliðs og snjóruðnings á flugvellinum. Um 15 stöðugildi verða til fyrir starfsfólk Flugmálastjórnar í Kosovo til ársloka 2005.

Fyrr í dag fór fram athöfn á flugvellinum í Pristína, þar sem Íslenska friðargæslan-utanríkisráðuneytið, fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins (NATO) afhendir UNMIK flugvöllinn. Þar með lýkur hlutverki Íslensku friðargæslunnar á flugvellinum, en um leið hefst nýr kafli í störfum Íslendinga í Kosovo með gildistöku samningsins sem undirritaður var í morgun. Í morgun var Hallgrímur S. Sigurðsson flugvallarstjóri í Pristína sæmdur orðu frá ungverska ríkinu í þakklæti fyrir störf hans á flugvellinum undanfarin tæp tvö ár.

Hallgrímur S. Sigurðsson sæmdur orðu ungverska ríkisinsÍ gær átti samgönguráðherra fundi með Holger Kammeroff yfirhershöfðingja, sem fer fyrir alþjóðaherliðinu í Kosovo, Barjan Rexhepi forsætisráðherra Kosovo og að lokum með Ibraham Rugova forseta Kosovo. Sturla segir að á fundum sínum með forsætisráðherranum og forsetanum hafi komið fram mikið þakklæti fyrir störf Íslendinga í Kosovo og mikið traust á því fólki sem Íslendingar hafa sent þangað til starfa. Að sögn Sturlu kom fram vilji hjá forsætisráðherranum og forsetanum til enn frekara samstarfs við Íslendinga.

Í sendinefnd samgönguráðherra eru Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneytinu, Þorgeir Pálsson flugmálastjóri, Bergþór Ólason aðstoðarmaður ráðherra og Arnór Sigurjónsson framkvæmdastjóri Íslensku friðargæslunnar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum