Hoppa yfir valmynd
3. desember 2013 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Niðurstöður úr PISA rannsókn fyrir 2012 liggja fyrir

  Árangur íslenskra skólabarna lakari en í rannsókn árið 2009

 Í PISA rannsókninni árið 2012 var í annað sinn lögð áhersla á stærðfræðilæsi og voru tveir þriðju hlutar prófsins á því sviði en fyrra sinnið var árið 2003.  Fyrstu niðurstöður benda til þess að frammistöðu íslenskra nemenda hafi hrakað á þessum áratug og gildir það raunar einnig um frammistöðu í lesskilningi og náttúrufræði.

 Prófið var haldið í 65 löndum um allan heim.  Einnig var prófað í lesskilningi og náttúrufræðilæsi. Námsgagnastofnun sá um framkvæmd PISA rannsóknarinnar, sem er eina alþjóðlega samanburðarmælingin á frammistöðu menntakerfisins sem fram fer hér á landi og sem gefur áreiðanlegar og sambærilegar upplýsingar um þróun yfir tíma. PISA rannsóknin er framkvæmd á þriggja ára fresti og gefur vísbendingar um breytingar á frammistöðu nemenda yfir tíma ásamt því að meta stöðu þeirra við lok skyldunáms. Þetta er í fimmta sinn sem niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar.

Helstu niðurstöður fyrir Ísland úr PISA 2012:

  • Frammistaða íslenskra nemenda versnar verulega frá 2009 og sé horft til allra PISA mælinga frá upphafi, þá hefur nemendum hrakað sem nemur um hálfu skólaári á síðasta áratug.
  • Ísland ásamt Svíþjóð er með lökustu frammistöðu allra Norðurlandanna.
  • Verulegur munur er á höfuðborgarsvæði og landsbyggð í öllum greinum og hefur afturförin orðið mest á landsbyggðinni þó svo höfuðborgarsvæðið hafi einnig látið undan síga.
  • Kynjamunur er ekki meiri en áður hefur mælst.
  • Piltum hefur farið verulega aftur í lesskilningi og stærðfræðilæsi, og eru nú um 30% þeirra á tveimur neðstu þrepum lesskilnings og um 20% á neðstu þrepum stærðfræðilæsis.
  • Frammistaða íslenskra nemenda í náttúrufræðilæsi er sú lakasta af öllum Norðurlöndunum.
  • Mikill munur er á frammistöðu innfæddra og innflytjenda í öllum greinum.
  • Ennþá er mikill jöfnuður á Íslandi, munur á milli skóla er hvergi minni en hér á landi.
  • Skólabragur og viðhorf nemenda til náms hafa batnað verulega frá því sem áður var.

Frammistaða íslenskra nemenda frá 2000 til 2012.

Nánari upplýsingar eru á vef Námsmatsstofnunar og íslenska skýrslu PISA 2012 má nálgast HÉR

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum