Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2011 Innviðaráðuneytið

Neysluviðmið fyrir heimili á Íslandi

Velferðarráðherra hefur lagt fram skýrslu sérfræðingahóps um neysluviðmið fyrir heimili á Íslandi. Skýrslan er lögð fram til almennrar kynningar og umræðu og birt á vef ráðuneytisins ásamt reiknivél þar sem einstaklingar geta mátað sig að neysluviðmiðunum í samræmi við eigin aðstæður. Á vefnum er einnig unnt að senda ráðuneytinu athugasemdir og ábendingar varðandi viðmiðin til 7. mars næstkomandi.
 
Reiknivél neysluviðmiðaÞrenns konar neysluviðmið eru kynnt í skýrslu sérfræðinganna. Í fyrsta lagi er dæmigert viðmið sem lýsir hóflegri neyslu, í öðru lagi skammtímaviðmið byggt á sömu forsendum en í því er gert ráð fyrir að fólk geti dregið úr neyslu og frestað útgjaldaliðum tímabundið og í þriðja lagi grunnviðmið sem gefa á vísbendingar um hvað fólk þarf að lágmarki til að framfleyta sér.

Tilgangurinn með smíði neysluviðmiða er að veita heimilum í landinu aðgang að viðmiðum sem þau geta haft til hliðsjónar þegar þau áætla eigin útgjöld, auk þess sem slík viðmið geta nýst við fjármálaráðgjöf fyrir einstaklinga og verið grunnur að ákvörðunum um fjárhæðir sem tengjast framfærslu. Viðmiðin eru hvorki endanlegur mælikvarði á hvað sé hæfileg neysla fjölskyldna né dómur um hvað einstakar fjölskyldur þurfa sér til framfærslu.

Raunveruleg útgjöld fjölskyldna - miðgildi

Við gerð viðmiðanna var stuðst við rannsóknir Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna. Beitt var svonefndri útgjaldaaðferð þar sem byggt er á upplýsingum um raunveruleg útgjöld íslenskra fjölskyldna. Útgjöld eru sundurliðuð í 15 útgjaldaflokka. Í hverjum þeirra er tekið miðgildi útgjaldanna sem felur í sér það mat að útgjöld hljóti að teljast að minnsta kosti hófleg ef helmingur heimila lætur sér nægja jafnhá eða lægri útgjöld í viðkomandi útgjaldaflokki. Flokkarnir eru þessir: 1) Matur, drykkjarvörur og aðrar dagvörur til heimilishalds; 2) föt og skór; 3) heimilisbúnaður; 4) raftæki og viðhald raftækja; 5) lyf, lækningavörur og heilbrigðisþjónusta; 6) sími og fjarskipti; 7) menntun og dagvistun; 8) veitingar; 9) önnur þjónusta fyrir heimili; 10) tómstundir og afþreying; 11) ökutæki og almenningssamgöngur; 12) annar ferðakostnaður; 13) húsaleiga/reiknuð húsaleiga; 14) viðhaldskostnaður húsnæðis og 15) rafmagn og hiti.

Áhersla var lögð á að viðmiðin gæfu sem heildstæðasta mynd af útgjöldum fjölskyldna. Hjá nágrannaþjóðum okkar er algengt að húsnæðisútgjöld séu undanskilin við gerð neysluviðmiða með þeim rökum að sá kostnaður sé of breytilegur til þess að setja megi raunhæf viðmið. Í íslensku neysluviðmiðunum, þ.e. því dæmigerða og skammtímaviðmiðinu, er húsnæðiskostnaður meðtalinn en hafa skal hugfast að viðmið um hann eru aðeins gróf nálgun á því hvað geti talist dæmigerð útgjöld fjölskyldna vegna húsnæðis að undanskildum stofnkostnaði. Húsnæðiskostnaður er undanskilinn í hinu íslenska grunnviðmiði. Greiðslur beinna skatta og opinberra gjalda eru ekki meðtaldar í neysluviðmiðunum.

Dæmigert neysluviðmið

Dæmigert viðmið fyrir útgjöld einstaklings sem býr á höfuðborgarsvæðinu í eigin húsnæði er 291.932 kr. Dæmigert viðmið fyrir útgjöld hjóna með tvö börn sem búa á höfuðborgarsvæðinu í eigin húsnæði er 617.610 kr. Þá er gert ráð fyrir að annað barnið sé á leikskóla en hitt í grunnskóla þar sem keyptar séu skólamáltíðir og frístundavistun.

Skammtímaviðmið

Við útreikning skammtímaviðmiða er byggt á sömu forsendum og í dæmigerðu viðmiðunum en gert ráð fyrir að fólk geti dregið út neyslu og frestað ákveðnum útgjaldaliðum til skemmri tíma, eða í allt að níu mánuði. Miðað við sömu forsendur og í framangreindu dæmi er skammtímaviðmið fyrir einstakling á höfuðborgarsvæðinu 201.132 kr. en fyrir fjögurra manna fjölskylduna er það 447.544 kr.

Grunnviðmið

Grunnviðmið á að gefa vísbendingu um hver geti verið lágmarksútgjöld fólks í ákveðnum útgjaldaflokkum. Við gerð þeirra var horft til útgjaldadreifingar í neyslukönnun Hagstofunnar og grunnviðmið annarra Norðurlandaþjóða höfð til hliðsjónar. Viðmiðið nær aðeins til hluta útgjaldaflokkanna 15 og undanskilja suma flokka á þeirri forsendu að réttara sé að nota raunkostnað þegar viðmiðinu er beitt. Þetta á við um húsnæðiskostnað og kostnað vegna bifreiðar. Samkvæmt þessu er grunnviðmið fyrir útgjöld einstaklings sem býr á höfuðborgarsvæðinu 86.530 kr. Grunnviðmið fyrir útgjöld hjóna með tvö börn sem búa á höfuðborgarsvæðinu er 286.365 kr.

Vinna við gerð neysluviðmiðanna hófst í júní 2010. Félags- og tryggingamálaráðuneytið setti á fót stýrihóp um verkefnið, skipuðum fulltrúum frá ráðuneytinu, Umboðsmanni skuldara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Rannsóknaþjónustu Háskólans í Reykjavík í samstarfi við Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands var falið að vinna þá rannsókn sem skýrslan byggist á og var sú vinna í höndum sérfræðinganna Jóns Þórs Sturlusonar, Háskólanum í Reykjavík, Guðnýjar Bjarkar Eydal, Háskóla Íslands, og Andrésar Júlíusar Ólafssonar verkefnisstjóra.

Opinn kynningarfundur verður í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 12. febrúar kl. 13.00 Þar verða neysluviðmiðin kynnt almenningi nánar og fólki gefinn kostur á að prófa vefreiknivélina.

Á vefsíðu velferðarráðuneytisins (vel.is) gefst færi á að koma athugasemdum og ábendingum á framfæri til 07. mars 2011. Þær verða skoðaðar og metnar við áframhaldandi þróun viðmiðanna.

Velferðarráðuneytinu
7. febrúar 2011

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum