Hoppa yfir valmynd
23. júní 1998 Utanríkisráðuneytið

Nr. 63, 23. júní 1998: Heimsókn James D. Wolfensohn forseta Alþjóðabankans.

Föstudaginn 26. júní nk. munu ráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna er fara með málefni Alþjóðabankans eiga fund með forseta bankans, James D. Wolfensohn. Að þessu sinni fer fundurinn fram í Reykjavík undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra.

Utanríkisráðherra mun einnig eiga fund með forsetanum þar sem samskipti og samvinna Íslands og Alþjóðabankans verða til umræðu.

James D. Wolfensohn mun síðar sama dag flytja fyrirlestur um starfsemi Alþjóðabankans og hlutverk hans í efnahagslegri uppbyggingu í heiminum. Fyrirlesturinn hefst kl. 16:00 í stofu 101 í Odda, húsi félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra mun ávarpa fundinn, en fundarstjóri verður Steingrímur Hermannsson seðlabankastjóri.

Fundur þessi er kjörið tækifæri fyrir áhugafólk um efnahags- og þróunarmál að fá innsýn í hið margþætta starf Alþjóðabankans. Bankinn er stærsta einstaka þróunarstofnun heims og gegnir lykilhlutverki í efnahags- og félagslegri uppbyggingu þróunarlanda, bæði með lánveitingum og tækniaðstoð. Auk þess veitir bankinn löndum Austur Evrópu fyrirgreiðslu og er virkur þátttakandi í uppbyggingarstarfi í fyrrum stríðshrjáðum löndum. Fyrirspurnir og almennar umræður verða að loknu framsöguerindi.

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og James D. Wolfensohn munu halda sameiginlegan blaðamannafund á Hotel Holti kl. 15:00.

Hjálagt fylgir dagskrá heimsóknar James D. Wolfensohn auk stuttrar frásagnar af starfsemi Alþjóðabankans.


Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 23. júní 1998.




U T A N R Í K I S R Á Ð U N E Y T I Ð
4. júní 1998


    Íslenskt þróunarstarf á vettvangi Alþjóðabankans

    Tveir þriðju hlutar framlags Íslands til þróunarsamvinnu fer til ýmissa alþjóðastofnana og annarrar starfsemi á sviði marghliða þróunarstarfs. Af einstökum framlögum rennur mest til Alþjóðabankans, sem er stærsta einstaka þróunarstofnun heims.
    Ísland ásamt 28 öðrum ríkjum gerðist stofnaðili að Alþjóðabanka til endurbyggingar og nýbyggingar (International Bank for Reconstruction and Development - IBRD) þann 27. desember 1945. Bankinn hafði það að markmiði að stuðla að efnahagslegri endurreisn eftir hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar. Þegar því uppbyggingarstarfi lauk breyttust áherslurnar og veitir IBRD nú lán með niðurgreiddum markaðsvöxtum og þá til þróunarríkja sem ekki eru á meðal hinna fátækustu.
    Árið 1960 var Alþjóðaframfarastofnuninni komið á fót (International Development Association - IDA). Markmið hennar er að stuðla að bættum lífskjörum í fátækustu þróunarlöndunum með hagstæðum lánum, sem eru vaxtalaus, án afborgana fyrstu 10 árin og endurgreiðast á 35-40 árum.
    Í daglegu tali er rætt um Alþjóðabankann sem ofangreindar tvær stofnanir, IBRD og IDA, enda er starfsemi þeirra samtvinnuð með sömu stjórnendum og sameiginlegt starfslið, en aðskildan fjárhag til útlánastarfsemi. Þessu til viðbótar á bankinn þrjár systurstofnanir sem lúta sömu stjórn og forseta. Þessar stofnanir eru:

    - Alþjóðalánastofnunin (International Finance Corporation - IFC) sem var sett á stofn árið 1955. Hlutverk hennar er að örva einkaframtak og stuðla að vexti einkafyrirtækja í þriðja heiminum með því að eiga hlut að framkvæmdum þar sem ekki er tiltækt nægilegt einkafjármagn.

    - Alþjóðlega stofnunin til lausnar fjárfestingardeilum (The International Center for Settlement of Investment Disputes - ICSID) sem var stofnuð árið 1965. Tilgangur hennar er að veita þjónustu til lausnar fjárfestingardeilum milli aðildarríkja Alþjóðabankans og þegna annarra aðildarríkja.

    - Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (Multilateral Investment Guarantee Agency - MIGA) sem var komið á laggirnar árið 1988. Stofnunin veitir ábyrgðir til fjárfesta sem verða fyrir áföllum sem ekki eru viðskiptalegs eðlis, t.d. vegna ófriðar, eignaupptöku, eða gjaldeyristakmarkana. Með þessu auðveldar stofnunin þróunarríkjum fjáröflun til fjárfestinga.

    Ísland er aðili að öllum ofangreindum stofnunum, að Fjölþjóðlegu fjárfestingarábyrgðarstofnuninni undanskilinni. Alþingi hefur nýverið samþykkt aðild Íslands að stofnuninni og verður formlega gengið frá aðild á komandi vikum.

    Umfang starfseminnar og skipting verkefna
    Starfsemi Alþjóðabankans er umfangsmikil og margþætt. Hjá bankanum starfa rúmlega tíuþúsund manns. Höfuðstöðvarnar eru í Washington D.C., en auk þess eru rekin útibú í 86 löndum. Samkvæmt nýjustu tölum á bankinn nú aðild að hátt í 1800 verkefnum í 100 löndum. Heildarupphæð útlána vegna þessara verkefna er 141 milljarðar bandaríkjadala, eða sem nemur u.þ.b. sjötugföldum fjárlögum íslenska ríkisins. Á síðasta fjárhagsári lánaði bankinn til 241 verkefnis að heildarupphæð tæplega 20 milljarða bandaríkjadala. 182 lönd eiga aðild að Alþjóðabankanum, 142 teljast vera þróunarlönd sem þar af leiðandi eiga rétt á lántökum hjá bankanum, og þar af eru 80 lönd í hópi fátækustu landanna sem eiga rétt á lánum hjá Alþjóðaframfarastofnuninni.
    Vegna stærðar sinnar og áhrifa hefur Alþjóðabankinn gjarnan verið tilvalið skotmark gagnrýni og neikvæðrar umræðu. Þrátt fyrir ýmsa annmarka er þjónusta og fyrirgreiðsla bankans hinsvegar gríðarlega mikilvæg fyrir uppbyggingu í löndum þriðja heimsins.
    Áherslur í útlánum og verkefnavali hefur ávallt verið helsta hitamálið í starfsemi bankans. Markmið hans er skýrt og óumdeilt, að útrýma fátækt í heiminum. Á hinn bóginn eru deildar meiningar um það með hvaða hætti því markmiði verði náð. Fyrstu tuttugu ár í starfsemi bankans voru lán á sviði samgöngu- og orkumála mjög áberandi. Forsenda útlána var að verkefni hefðu jákvæð áhrif á hagvöxt og stuðluðu að efnahagslegum bata. Um 1970 jukust útlán bankans verulega og áherslubreyting átti sér stað. Til viðbótar fyrrnefndum verkefnum varð barátta við fátækt mjög áberandi og lán til ýmiskonar verkefna á sviði landbúnaðar urðu fyrirferðarmikil. Á níunda áratugnum varð enn á ný töluverð áherslubreyting þegar bankinn fór að gera auknar kröfur um bætt viðskiptaumhverfi lántökulanda. Slíkar kröfur fólust m.a. í auknu frjálsræði í efnahagsmálum, niðurfellingu inn- og útflutningshafta, og einföldun gjaldeyrisviðskipta. Með þessu vildi bankinn styrkja atvinnuuppbyggingu með því að auðvelda einkaframtak, og stuðla að aukinni fjárfestingu innlendra og erlendra aðila í þróunarlöndum. Á síðustu árum hefur bankinn á nýjan leik beint sjónum að baráttunni gegn fátækt í heiminum. Aukin áhersla er nú lögð á menntun og uppbyggingu mannauðs, auk þess sem verkefni á sviði heilbrigðisþjónustu skipa veigameiri sess en oft áður.
    Eins og fram kemur hér að framan er Alþjóðabankinn ekki venjuleg lánastofnun. Lán sem veitt eru á vegum bankans eiga að stuðla að efnahagslegum vexti, félagslegri uppbyggingu og almennt að bæta lífskjör íbúa lántökulanda. Umfangsmikill hluti af starfi bankans er því að veita tækniaðstoð til þeirra verkefna sem lánað er til. Þessu til viðbótar veitir bankinn ráðgjöf á sviði efnahagsmála og félagslegrar uppbyggingar til ríkisstjórna sem þess óska.
    Þá er vert að nefna umfangsmikla rannsóknastarfsemi bankans á sviði þróunarmála. Jafnframt rekur bankinn sérstaka stofnun, Economic Development Institute (EDI), sem stuðlar að yfirfærslu þekkingar milli iðnríkja og þriðja heimsins. Gerist það með ýmsum hætti, þ.á.m. með námskeiða- og ráðstefnuhaldi, þróun kennsluefnis, og náinni samvinnu við mennta- og rannsóknastofnanir í þróunarlöndum sem og iðnríkjum.

    Skipulag Alþjóðabankans
    Aðild að Alþjóðabankanum byggist á hlutabréfaeign og ákvarðast fjöldi hlutabréfa af stærð hagkerfis viðkomandi aðildarlands. Hvert aðildarland skipar einn fulltrúa í bankaráð bankans og er núverandi fulltrúi Íslands Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra. Fer hann með atkvæðisrétt fyrir hönd Íslands, en fjöldi atkvæða er í réttu hlutfalli við fjölda hlutabréfa. Bankaráðið hittist árlega á aðalfundi bankans. Ráðið kýs um allar meiriháttar ákvarðanir í starfsemi bankans og fer slík atkvæðagreiðsla yfirleitt fram bréflega.
    Dagleg ábyrgð á rekstri bankans er í höndum forseta hans, en 24 manna stjórn starfar árið um kring og tekur ákvarðanir um lánveitingar og einstök verkefni, og tryggir að bankinn starfi innan þess ramma sem honum hefur verið settur í stofnsamningi. Stærstu aðildarlöndin skipa eigin fulltrúa í stjórn bankans, en aðrir fulltrúar í stjórninni sitja fyrir hóp aðildarlanda. Er það samkomulagsatriði viðkomandi aðildarlanda hvernig sá fulltrúi er valinn.
    Yfirleitt eru haldnir tveir formlegir stjórnarfundir vikulega, auk þess sem fjöldi óformlegra upplýsinga- og vinnufunda eru haldnir í viku hverri. Mörgum kann að þykja þetta mikil yfirbygging sem hljóti að vera þung í vöfum. Á það ber hinsvegar að líta að með þessu er tryggt að stöðug umræða á sér stað um starfsemi bankans og rödd allra aðildarlanda getur heyrst í stjórninni. Dæmi um slíkt er sameiginlegur málflutningur Norðurlandanna sem nánar verður vikið að síðar.

    Uppstokkun á innra starfi bankans
    Töluverð uppstokkun hefur átt sér stað á innra starfi Alþjóðabankans frá því nýr forseti, James D. Wolfensohn, tók við því embætti árið 1995. Á síðasta ári hófst sérstakt átak innan bankans sem á að gera starfsemi hans skilvirkari og auka árangur þróunarstarfsins í heild. Þetta verkefni (Strategic Compact) byggist að hluta á skipulagsbreytingum innan bankans þar sem draga á úr kostnaði vegna stjórnunar og auka á ábyrgð stofnana hans. Jafnframt verða þarfir móttakenda höfð að leiðarljósi, dregið verður úr miðstýringu og mun aukinn hluti undirbúningsvinnu og ákvarðanatöku færast til skrifstofa bankans í viðkomandi löndum. Með þessu er vonast eftir betri þróunarverkefnum sem m.a. byggja á aukinni samvinnu við heimamenn, auk þess sem breytingarnar munu gera bankanum kleift að bregðast skjótar við þörfum þeirra landa er njóta þjónustu hans.
    Óháð ofannefndu verkefni mun bankinn leggja aukna áherslu á málefni minnihlutahópa s.s. fámennra ættflokka og einstæðra mæðra á sviði félagslegrar þróunar. Þá mun sjálfbær þróun verða áfram höfuðmarkmið í starfsemi bankans, með sérstaka áherslu á aðstoð við fátækustu íbúana í dreifðum byggðum þróunarríkjanna. Stuðningi við einkageirann verður haldið áfram, auk þess sem afleiðing fjármálakreppunnar í Asíu kallar á aukna þjónustu á fjármálasviðum.
    Þá má nefna að með nýrri upplýsingatækni verður sífellt auðveldara að sækja fróðleik í smiðju bankans og nú er í undirbúningi að byggja upp nokkurs konar þekkingarbanka sem mun byggja á meira en hálfrar aldar reynslu bankans af þróunarstarfi, auk þess að byggja á umfangsmiklu rannsóknastarfi sem stundað er á vegum bankans. (Vefsíða bankans er: www.worldbank.org)

    Þróunarnefnd Alþjóðabankans
    Utanríkisráðuneytið tók við málefnum Alþjóðabankans af viðskiptaráðuneytinu á árinu 1996 og má nú segja að ábyrgð á marghliða þróunarsamvinnu sé að mestu leyti á hendi utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðherra tók sæti Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í þróunarnefnd Alþjóðabankans á síðasta ári. Í nefndinni, sem fundar tvívegis á ári, eiga sæti 24 ráðherrar fyrir hönd þeirra 182 landa sam aðild eiga að Alþjóðabankanum. Þróunarnefndin mótar meginstefnu bankans í þróunarmálum og er ráðgefandi aðili fyrir ársfund bankans hvað varðar framkvæmd og framvindu stefnumiða hans.
    Fjölmörg málefni hafa verið rædd á síðustu fundum þróunarnefndarinnar og má nefna þrjú þeirra hér. Í fyrsta lagi mun bankinn í framtíðinni leggja aukna áherslu á bætt stjórnarfar og baráttu gegn spillingu í samskiptum sínum við stjórnvöld lántökulanda. Spilling dafnar þar sem stjórnarfar er veikt og oftast verða hinir fátæku verst fyrir barðinu á spilltum stjórnunaröflum. Þróunarnefndin leggur áherslu á að ábyrgð í baráttunni gegn spillingu sé á hendi yfirvalda í hverju landi, en þróunarstofnanir geti lagt sitt af mörkum, m.a. þannig að þróunarfé styrki aldrei spillingaröfl en sé notað til að auka ábyrgð og gæði í stjórnsýslu.
    Í öðru lagi, má nefna átak bankans til aðstoðar skuldugustu þróunarríkjunum (Heavily Indebted Poor Countries Initiative -HIPC). Þetta átak byggist á niðurfellingu skulda og er markmiðið að minnka skuldastöðu landanna þannig að afborganir af lánum hamli ekki efnahags- og félagslegri þróun. Alþjóðabankinn hefur forystu í þessu átaki, en að því koma allar helstu þróunarlánastofnanir og þróunarsjóðir heims, auk parísarklúbbsins og annarra lánardrottna sem veitt hafa tvíhliða lán. Nú þegar hafa samningar náðst um niðurfellingu skulda sex landa (Uganda, Bólivíu, Guyana, Burkina Faso, Cote d'Ivoire og Mozambique)) og fleiri samningar munu fylgja í kjölfarið.
    Í þriðja lagi hefur fjármálakreppan í Asíu sett mark sitt á umræður í þróunarnefndinni. Alþjóðabankinn hefur veitt fyrirgreiðslu til þeirra landa er hafa orðið fyrir skakkaföllum vegna kreppunnar og hefur náið samstarf verið milli bankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Aðstoð hefur m.a. beinst að endurskipulagningu fjármálamarkaða, umbótum á sviði efnahagsstjórnunar og aðgerðum sem stuðla að bættu viðskiptaumhverfi. Þróunarnefndin styður fyrrgreindar aðgerðir bankans en leggur jafnframt áherslu á þær aðgerðir sem beinast að ýmsum félagslegum þáttum og gagnist fátækustu íbúunum. Þróunarnefndin leggur á það áherslu að Alþjóðabankinn í auknum mæli aðstoði þróunarlönd við endurbætur á starfsemi opinberra stofnana og stuðli að bættri stefnumörkun á sviði efnahagsmála.

    Norrænt samstarf í málefnum Alþjóðabankans
    Norðurlönd og Eystrasaltsríkin eiga sameiginlegan fulltrúa í stjórn Alþjóðabankans og skiptast Norðurlönd á um að skipa í þá stöðu. Samstarf Norðurlanda í málefnum bankans er mjög náið, en Eystrasaltsríkin eru ennþá tiltölulega óvirk. Allur málflutningur Norðurlanda í stjórn bankans er samræmdur fyrirfram sem oft leiðir til þess að vægi landanna í ákvarðanatökum innan bankans er mun meira en sameiginlegt atkvæðamagn þeirra gefur tilefni til.
    Ísland hefur ávallt staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Alþjóðabankanum, og hefur líkt og hin Norðurlöndin lagt sérstaka áherslu á stuðning við Alþjóðaframfarastofnunina.
    Það er mikilvægt fyrir Ísland að taka þátt í þessu samstarfi. Ekki einungis vegna þess sem áður er nefnt, heldur einnig vegna þeirrar þekkingar og reynslu sem hin Norðurlöndin geta miðlað til okkar með svo náinni samvinnu. Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur átt gott samstarf við systurstofnanir sínar á Norðurlöndum og með aukinni þátttöku í starfi sömu landa á sviði marghliða þróunarsamvinnu getur Ísland lagt ennþá meira af mörkum til þróunarstarfs í heiminum. Í því samhengi má nefna að þegar næst kemur að Íslandi að tilnefna fulltrúa í stjórn Alþjóðabankans, árið 2003, mun sá fulltrúi verða málpípa átta landa sem samtals veita u.þ.b. 400 milljörðum íslenskra króna til þróunarsamvinnu árlega.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum