Hoppa yfir valmynd
27. mars 2006 Innviðaráðuneytið

Úttektir á flugmálum aðildarlanda ICAO verði birtar

Flugmálastjórar aðildarlanda Alþjóða flugmálastofnunarinnar, samþykktu á fundi sem haldinn var í Montreal í Kanada 20. ? 22. mars, að birta niðurstöður úttekta á stöðu flugmála í aðildarríkjunum á vefsíðu stofnunarinnar.

Ríkin hafa frest til 23. mars 2008 til að hefja birtingu á slíkum upplýsingum en þrátt fyrir þennan frest ákvað Ísland, ásamt 70 öðrum þjóðum að birta niðurstöður strax og næsta úttekt verður gerð.

Úttektir sem þessar eru unnar kerfisbundið og í samræmi við fyrri samþykktir ICAO og eiga að leiða í ljós hugsanlega vankanta í öryggismálum eða ef aðildarlönd fylgja ekki nákvæmlega reglum og stöðlum. Þær ná til atriða eins og lagaumhverfis, verklagsreglna fyrir flugrekendur, hvernig háttað er stjórnsýslu og úttektum viðkomandi aðildarlands, tæknimála og starfsfólks á sviði tæknimála, skírteinamála og fleiri.

Þá ákváðu flugmálastjórarnir að herða á aðgerðum í öryggismálum með því að skiptast á upplýsingum sem tengjast flugöryggismálum, að tryggja úttektir á eigin flugrekendum og erlendum sem fljúga til aðildarlanda. Þá eru stofnunin og flugheimurinn allur hvött til að verja nauðsynlegum fjármunum til að tryggja fyllstu gæði í flugrekstri.

Jafnvel þótt flugrekstur, hvort sem er farþega- eða fraktflug, sé talinn öruggur samgöngumáti telja flugmálastjórar brýnt að fækka flugslysum, ekki síst banaslysum, til að viðhalda trausti almennings á flugi um heim allan. Í því skyni skuli það vera áframhaldandi forgangsverkefni ICAO að hafa forgöngu um víðtæka samvinnu meðal aðildarlanda, flugvélasmiða og flugrekenda. Ljóst þykir að sum aðildarlönd hafi ekki fjárhagslega getu til nauðsynlegra úttekta á stöðu flugreksturs síns og er því beint til ákveðinna svæða heimsins að lönd komi hvert öðru til hjálpar á því sviði.

Í niðurstöðum fundarins segir einnig að gegnsæi og upplýsingagjöf séu meðal hornsteina í flugöryggi. Umbætur í öryggismálum krefjist aukinnar upplýsingamiðlunar milli aðildarríkja og fyrirtækja í flugi. Til að viðhalda gagnkvæmu trausti sé brýnt að miðla upplýsingum og það sé skýrt merki um að aðildarríki viðurkenni hugsanlega vankanta sem önnur ríki gætu aðstoðað við að bæta úr. Einnig var fjallað um svonefnd öryggisstjórnkerfi sem miða að því að safna daglega upplýsingum um einstaka þætti í hverri flugferð. Segir að slík upplýsingasöfnun hafi leitt til þess að atvikum og slysum fækki svo og töfum, að tryggingaiðgjöld geti lækkað, og að afskipta eftirlitsaðila sé síður þörf þar sem flugrekandinn bregst sjálfur strax við hugsanlegum vanda.

Þá var fjallað um svonefndar hentifánaflugvélar og er vísað til útgerðarfyrirtækja sem reki hentifánaskip, það er fái þau skráð í löndum þar sem reglur þykja ekki eins strangar. Þykir slíkt ekki við hæfi í flugrekstri en örlað hefur á að flugrekendur beiti þessum aðferðum einnig. Er ICAO hvatt til að afla upplýsinga um slíkan flugrekstur og leita liðsinnis Alþjóða siglingamálastofnunarinnar til að eiga við slík mál.

Dr. Assad Kotaite, forseti Alþjóða flugmálastofnunarinnar, stýrði fundinum og í lok hans var honum sérstaklega þakkað fyrir framlag hans og störf fyrir ICAO í áratugi en ferill hans nær yfir rúmlega 50 ár. Fram kom í ávarpi fulltrúa Kanada hjá ICAO að yfirvöld þar í landi hafa ákveðið að stofna til sjóðs til að stykja fólk til náms við háskóla í Montreal. Verður sjóðurinn tengdur nafni Kotaite sem viðurkenning fyrir áratuga löng störf hans að flugmálum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum