Hoppa yfir valmynd
20. október 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 20. október 2023

Heil og sæl, 

Þegar litið er út um gluggann mætti segja að þessi föstudagur væri grár. Sú er þó ekki raunin í utanríkisráðuneytinu og reyndar mjög víða í okkar góða samfélagi sem akkúrat núna sýnir stuðning og samstöðu með baráttunni gegn krabbameini hjá konum á bleikum degi.



Í upphafi vikunnar urðu tímamót í utanríkisþjónustunni þegar Bjarni Benediktsson tók við af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem utanríkisráðherra. Hún tók í sömu mund við embætti fjármálaráðherra. 

„Þetta hafa verið viðburðaríkir tímar, þar sem ég hef lagt áherslu á að Ísland tali skýrt og nýti tækifærin sem gefast til að leggja sitt af mörkum. Ég kveð vinnustaðinn með ólýsanlegu þakklæti fyrir að hafa fengið tækifæri til að leiða þetta framúrskarandi lið sem er íslenska utanríkisþjónustan í tæplega tvö ár,” sagði Þórdís Kolbrún að leiðarlokum. 

Starfsfólk utanríkisþjónustunnar kveður framúrskarandi og vinsælan ráðherra eins og sést á kveðjunum sem kollegar hennar víða um heim hafa sent henni á samfélagsmiðlinum X (@thordiskolbrun). Á sama tíma tökum við á móti nýjum ráðherra með tilhlökkun fyrir samstarfi sem fer strax af stað af fullum krafti. 

Fyrsta formlega verk Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra í embætti var símtal við utanríkisráðherra Úkraínu, Dmytro Kuleba, þar sem Bjarni kom því skýrt á framfæri að þeim mikla stuðningi sem íslensk stjórnvöld hefðu sýnt Úkraínu í verki undanfarin misseri yrði framhaldið af honum í krafti embættis utanríkisráðherra. 

Næsta mál á dagskrá ráðherra var Arctic Circle sem hófst í gær og stendur fram á þriðjudag í næstu viku. Á dagskrá ráðherra eru fjöldamargir tvíhliða fundir og fleiri viðburðir og ekki annað hægt að segja en að í þessu starfi verði fólk að lenda hlaupandi. 

Þá skrifaði ráðherra undir samning milli Íslands og Bretlands um vísindasamstarf á norðurslóðum. 

Versnandi ástand fyrir botni Miðjarðarhafs hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum. Eitt af síðustu verkum Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í embætti utanríkisráðherra var að veita 70 milljón króna viðbótarstuðning frá íslenskum stjórnvöldum til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA). Framlagið var svar við kalli Sameinuðu þjóðanna um framlög til neyðaraðstoðar í Palestínu vegna gagnárásar Ísraelsmanna í landinu. 

Lífið á sendiskrifstofunum er ekki alltaf dans á rósum. Þrisvar þurftu sendiráð og utanríkisþjónustan að biðja íslenska borgara á sínum svæðum að fara varlega og fylgja fyrirmælum yfirvalda á svæðinu. Í einu tilfelli var það vegna skotárásar í Brussel. 

Í öðru tilfelli vegna morða á tveimur erlendum ferðamönnum og úgandískum leiðsögumanni þeirra í Queen Elizabeth-þjóðgarðinum í Úganda. 

Og svo minnti borgaraþjónustan íslenska ríkisborgara í Ísrael á að láta aðstandendur vita af sér í kjölfar árásar Hamas samtakanna í landinu síðastliðinn laugardag. 

Vikan innibar líka góðar fréttir, sem betur fer. 

Forseti Malaví, ásamt ráðherrum og starfsfólki sendiráðs Íslands í Lilongwe, tók í vikunni fyrstu skóflustunguna að nýrri fæðingardeild sem mun rísa á afskekktu svæði Mangochi-héraðs. Verkefnið er fjármagnað af íslenskum stjórnvöldum. Athöfnin var gleðileg þar sem miklum og góðum árangri af heilbrigðisverkefnum þróunarsamvinnu Íslands í Malaví til áratuga var fagnað

Í París lauk framkvæmdastjórnarfundi UNESCO á miðvikudag síðastliðinn. Þar leiddi fastanefnd Íslands vinnu 52 ríkja vegna ályktunar um stöðu kvenna og stúlkna í Afganistan og var hún samþykkt!

María Mjöll Jónsdóttir skrifstofustjóri á skrifstofu alþjóðapólitískra málefna var í Washington DC í vikunni og tók þátt í svokölluðu EPINE samráði Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna við Bandaríkin um alþjóðapólitík og öryggismál.

Sendiherra Íslands í Berlín, María Erla Marelsdóttir, opnaði 107. Kiel Economic Talks sem að þessu sinni var haldið í samvinnu við önnur norræn sendiráð með veglegum stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar. 

Menningin var auðvitað líka í fyrirrúmi hjá sendiráðinu í Berlín en bókamessan í Frankfurt fór fram í vikunni. Íslensku bókaforlögin voru saman á svæði með öðrum norrænum bókaforlögum. 

Nefndarstarf er nú í fullum gangi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ísland sinnir þar málsvarastarfi í samræmi við utanríkisstefnu Íslands og slær starfsfólk fastanefndarinnar ekki slöku við. 

Sendiherra Íslands í Ottawa, Hlynur Guðjónsson, tekur þátt í Hringborði norðurslóða - Arctic Circle og fagnar þátttöku hins kanadíska ráðherra málefna norðurslóða í hringborðinu. 

Harald Aspelund sendiherra í Helsinki heimsótti Litáen í vikunni og sótti hádegisfund með sendiherrum Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna ásamt utanríkisráðherra Litáen, Gabrielius Landsbergis. 

Farandsýningin OUTSIDE LOOKING IN, INSIDE LOOKING OUT, er mætt til Helsinki. 

Sendiherrahjónin Harald Aspelund og Ásthildur Jónsdóttir buðu þátttakendum 33. evrópsku Alzheimer ráðstefnunnar í Helsinki heim til sín. Í heimsókninni gáfust góð tækifæri til að sýna íslenska list sem er til sýnis í sendiherrabústaðnum og kynna störf sendiráðsins fyrir gestum. 

Hildigunnur Engilbertsdóttir forstöðumaður sendiráðs Íslands í Úganda átti góðan fund með landsfulltrúa Matvælastofnunnar Sameinuðu þjóðanna. 

Sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Árni Þór Sigurðsson heimsótti skrifstofur Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn og ræddi samstarfið við Kristina Háfoss, framkvæmdastýru ráðsins. 

Þá ræddi Árni við Karen Elemann, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, um framgang formennskuáætlunar Íslands og samstarf sendiráðsins við nefndina á fundi sem fór fram í Norðurlandahúsinu í Kaupmannahöfn, en Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár. 

Íslenskir listamenn kynntu verk sín í Varnasi (Banares), helgustu borg Indlands. Sendiráð Íslands í Nýju-Delhí stóð fyrir kynningunni í samvinnu við gestgjafa listamannanna, Navneet Ramen og Petru Manafeld, forstöðufólk Benares Culture Foundation og Kriti Galleri, sem einnig standa fyrir listamannasetri í borginni. Guðni Bragason sendiherra flutti ávarp í upphafi.  

Sendiráð Íslands í Osló tók þátt í menningardagskránni "Ísdögum" í Osló. 

Á menningardögunum voru Ísland og íslensk menning í hávegum höfð. Meðal annars hélt hinn margrómaði Ískór kvöldvöku í Sagene Festivitetshus þar sem tónlist og sögur fléttuðust saman. 

Kynning á verkum listafólksins Huldu Rósar Guðnadóttur og Joseph Marzolla “Experiencing the world Arctic-ly” var haldin í embættisbústaðnum í París síðastliðinn mánudag.  

Nemendur í verk- og tæknifræðinámi í Svíþjóð og útskrifaðir verk- og tæknifræðingar heimsóttu embættisbústað sendiherra Íslands í Stokkhólmi í boði Bryndísar Kjartansdóttur sendiherra. Verkfræðistofan Verkís kynnti starfsemi fyrirtækisins og helstu verkefni. 

Sendiráð Íslands í Tókýó tilkynnti með stolti að Norðurlöndin fimm sameinast í norrænum skála á heimsýningunni sem haldin verður í Osaka frá apríl fram í október árið 2025. 

Og Musterisriddarar frá Íslandi heimsóttu aðalræðisskrifstofu Íslands í Færeyjum. 

Við ljúkum þessum föstudagspósti í Póllandi. Sendiráð Íslands í Varsjá birtir reglulega lagalista þar sem tekin eru saman lög undir ákveðnu Íslands-þema. Listinn að þessu sinni inniheldur íslenska kvikmyndatónlist. Við biðjum ykkur vel að njóta og óskum ykkur góðrar helgar!

Með kveðju,
upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum