Hoppa yfir valmynd
2. júní 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Réttur sjúklinga til að sækja heilbrigðisþjónustu yfir landamæri

Evrópukort - Evrópska efnahagssvæðið
Evrópukort - Evrópska efnahagssvæðið

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð um rétt sjúklinga til að sækja sér heilbrigðisþjónustu til annarra aðildarríkja EES-samningsins og fá endurgreiddan útlagðan kostnað sem svarar því að samsvarandi þjónusta hefði verið veitt hér á landi. Byggt er á tilskipun Evrópusambandsins nr. 2011/24/ESB.

Reglugerðin á stoð í nýju ákvæði laga um sjúkratryggingar sem samþykkt var á Alþingi 1. mars. sl. vegna innleiðingar Evróuptilskipunarinnar um rétt sjúklinga til heilbrigðisþjónustu yfir landamæri.

Reglugerðin hefur þegar tekið gildi. Þar með er sjúkratryggðum gert kleift að sækja heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins gegn endurgreiðslu kostnaðar frá sjúkratryggingum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Helstu skilyrði

Með reglugerðinni er sett sú meginregla að sjúklingur þurfi ekki að sækja um samþykki fyrir að sækja sér heilbrigðisþjónustu erlendis áður en þjónustan er veitt. Frá þessu eru þó undantekningar líkt og kveðið er á um í 9. gr. Þetta á t.d. við ef meðferð krefst innlagnar á sjúkrahús í eina nótt eða lengur, ef meðferð er sérstaklega áhættusöm eða ef ástæða er til að efast um gæði þjónustunnar.

Endurgreiðsla sjúkratrygginga á kostnaði sjúklings vegna heilbrigðisþjónustu í öðru landi nemur að hámarki þeirri fjárhæð sem samsvarandi þjónusta hefði kostað í íslenska heilbrigðiskerfinu. Áskilið er að um sé að ræða þjónustu sem einnig er veitt hér á landi.

Heimilt er að synja sjúklingi um endurgreiðslu kostnaðar við ákveðnar aðstæður. Þetta á t.d. við ef hægt er að veita þjónustuna hér á landi innan tímamarka sem talin eru réttlætanleg þegar tekið er mið af heilsufarsástandi sjúklings og líklegri framvindu sjúkdóms, ef öryggi sjúklingsins er talið stefnt í hættu eða ef ástæða er talin til að efast um þjónustan standist lágmarkskröfur um öryggi og gæði. Nánar er kveðið á um forsendur synjunar í 11. gr. reglugerðarinnar.

Sjúkratryggður sem staddur er í aðildarríki EES-samningsins getur leitað sér heilbrigðisþjónustu þar á grundvelli reglugerðarinnar. Endurgreiðsla sjúkratrygginga vegna útlagðs kostnaðar sjúklings fer eftir ákvæðum reglugerðarinnar og gildir þá einu hvernig þjónustan er skipulögð, veitt eða fjármögnuð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum