Hoppa yfir valmynd
22. september 2009 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 6/2009

Mál nr. 6/2009:

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

A

gegn

Fornleifavernd ríkisins

 

Ráðning í starf. Hæfnismat.

 

Fornleifavernd ríkisins auglýsti í mars 2009 laust starf minjavarðar Suðurlands. Fornleifavernd ríkisins fól ráðningarfyrirtæki að fara yfir umsóknir og tók fyrirtækið í framhaldi af því viðtöl við tiltekna umsækjendur. Kærandi, sem er kona, taldi að hún væri umtalsvert hæfari en karlmaður sá sem ráðinn var, bæði hvað varðaði menntun og reynslu. Fornleifavernd ríkisins taldi karlinn vera hæfasta umsækjandann og taldi að kærandi hafi ekki uppfyllt kröfur sem gerðar voru varðandi hæfni í mannlegum samskiptum. Kærunefnd jafnréttismála taldi að kærandi hefði haft meiri menntun en sá sem ráðinn var og að starfsreynsla kæranda væri lengri. Kærunefnd féllst hins vegar á að Fornleifavernd ríkisins hefði mátt, með tilliti til starfslýsingar, leggja sérstaka áherslu á hæfni umsækjenda í mannlegum samskiptum. Með vísan til skriflegra athugasemda málsaðila til nefndarinnar og með tilliti til gagna málsins féllst kærunefnd á sjónarmið Fornleifaverndar ríkisins varðandi hæfni kæranda að þessu leyti og var talið nægilega sýnt fram á að kynferði kæranda hafi ekki haft þýðingu við ákvörðun um ráðningu í starfið. Var því ekki talið að um brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hefði verið að ræða.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 22. september 2009 er kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru dagsettri 20. febrúar 2009, móttekinni 21. apríl 2009, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort Fornleifavernd ríkisins hefði brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er stofnunin réð karlmann í starf minjavarðar Suðurlands frá 15. maí 2009.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Fornleifavernd ríkisins með bréfi dagsettu 7. maí 2009. Með bréfi, dagsettu 18. maí 2009, óskaði Fornleifavernd ríkisins eftir viðbótarfresti til að senda umsögn sína og með bréfi nefndarinnar til kæranda, dagsettu 18. maí 2009, var hún upplýst um veittan frest til 29. maí 2009. Hinn 2. júní 2009 barst umsögn Fornleifaverndar ríkisins með bréfi dagsettu 27. júlí 2009 (sic) og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri með bréfi dagsettu 3. júní 2009.

Hinn 9. júní 2009 bárust athugasemdir kæranda, dagsettar 7. júní 2009, og voru sendar Fornleifavernd ríkisins með bréfi nefndarinnar, dagsettu 9. júní 2009.

Hinn 23. júní 2009 barst bréf Fornleifaverndar ríkisins, dagsett 22. júní 2009, þar sem athugasemdum var komið á framfæri og voru þær sendar kæranda með bréfi til umsagnar, dagsettu 23. júní 2009.

Hinn 8. júlí 2009 barst bréf kæranda, dagsett 7. júlí 2009, þar sem viðbótarathugasemdum var komið á framfæri og voru þær sendar Fornleifavernd ríkisins með bréfi til kynningar, dagsettu 10. júlí 2009.

Hinn 16. júlí 2009 barst bréf Fornleifaverndar ríkisins dagsett sama dag með frekari athugasemdum og var sent kæranda með bréfi kærunefndar til kynningar, dagsettu 16. júlí 2009. Athugasemdir kæranda við bréf Fornleifaverndar ríkisins bárust kærunefnd með bréfi dagsettu 10. ágúst 2009.

Kærunefnd jafnréttismála bárust athugasemdir kæranda í tölvupósti dagsettum 12. ágúst 2009.

Kærunefnd jafnréttismála sendi Fornleifavernd ríkisins bréf, dagsett 27. ágúst 2009, þar sem óskað var frekari gagna og bárust þau með bréfi stofnunarinnar, dagsettu 3. september 2009. Gögnin voru send kæranda með bréfi nefndarinnar dagsettu 16. september 2009.

Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Í kæru sinni til kærunefndar byggir kærandi á því að þegar Fornleifavernd ríkisins hafi auglýst starf minjavarðar Suðurlands laust til umsóknar í mars 2009 hafi komið fram að krafist væri framhaldsmenntunar á háskólastigi í fornleifafræði eða minjafræði. Í auglýsingunni hafi einnig verið vísað til nánari upplýsinga um starfið á heimasíðu Fornleifaverndar ríkisins, þ.e starfslýsingar í 26 liðum. Sú umfangsmikla starfslýsing hafi kallað á umtalsverða menntun og starfs- og stjórnunarreynslu á sviði fornleifafræði og fleiri minjafræða, einkum hvað varði lögboðna vernd fornleifa skv. 1., 2., 6., 8. og 10.–19. þjóðminjalaga, nr. 107/2001. Auk þess sé kveðið á um þá hæfniskröfu minjavarða í 2. mgr. í 8. gr. laganna að þeir skuli vera menntaðir fornleifafræðingar eða hafa menntun í menningarsögu. Sá sem ráðinn var í starfið hafi ekki haft að baki slíka menntun. Samkvæmt upplýsingum um menntun og starfsreynslu hans á vef Fornleifastofnunar Íslands ses. sem hann hafi starfað tímabundið hjá, sé hann með B.A.-gráðu í bókmenntafræði og hafi þá unnið að M.A.-ritgerð í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Þá hafi hann verið í hlutastarfi hjá Fornleifastofnun Íslands ses. síðan árið 2002. Samkvæmt þessum upplýsingum sé hann ekki með grunnám (B.A.) í fornleifafræði heldur stundi hann viðbótarnám í faginu ofan á B.A.-gráðu í bókmenntafræði, sem ekki teljist til minjafræða. Því uppfylli sá sem ráðinn var hvorki menntunarkröfur í auglýsingunni varðandi framhaldsmenntun í fornleifafræði sem heildstæðri háskólagrein né í minjafræði, þ.e. öðrum minjafræðum en fornleifafræði.

Kærandi hafi aftur á móti að baki heildstæða menntun og vísindaþjálfun í fornleifafræði til doktorsprófs auk menntunar í þjóðháttafræði/þjóðsagnafræði, listfræði og safnfræði og umtalsverða stjórnunarreynslu sem margþætt starfslýsing minjavarðar Suðurlands hafi kallað á.

Kærandi telur rökstuðning fyrir ráðningunni ekki vera fyrir hendi. Í tilkynningu Fornleifaverndar ríkisins, dagsettri 7. apríl 2009, sé vísað til þess að karl, sem ákveðið hafi verið að veita starf minjavarðar Suðurlands, hafi M.A.-gráðu án þess að tilgreina í hvaða háskólafagi hún sé. Kæranda hafi hvorki borist umbeðnar upplýsingar frá Fornleifavernd ríkisins um menntun þess sem ráðinn var né hafi borist rökstuðningur fyrir því hann teldist hæfari en kærandi til að gegna umræddu starfi, þrátt fyrir að sá rökstuðningur hefði átt að liggja fyrir þegar tilkynnt var um ráðninguna.

Kærandi telur að Fornleifavernd ríkisins hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en þar segi að stjórnvald skuli sjá til þess að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um ráðningu sé tekin í því, en Fornleifavernd ríkisins hafi sent umsókn kæranda og fylgigögn til fyrirtækisins Capacent Ráðninga að henni forspurðri, en ekkert hafi verið að finna um það í auglýsingu um starfið að því fyrirtæki yrði falið að koma að ráðningunni. Kærandi hafi fyrst vitað af þessu þegar umrætt fyrirtæki hafi boðað kæranda í óvænt viðtal. Kærandi bendir hins vegar á að umrætt fyrirtæki kunni engin skil á lögboðinni fornleifavernd, hvað þá heldur fornleifafræði og fleiri minjafræðum sem umfangsmiklar starfsskyldur minjavarðarstarfsins kalli á.

Fram kemur í erindi kæranda til kærunefndar að kærandi hafi sent erindi til menntamálaráðherra vegna ákvörðunar um ráðningu í starf minjavarðar Suðurlands, sbr. bréf dagsett 11. apríl 2009. Af hálfu menntamálaráðuneytisins hafi hins vegar komið fram að ákvörðun um ráðninguna væri á ábyrgð forstöðumanns Fornleifaverndar ríkisins.

Af svari menntamálaráðuneytis frá 14. apríl 2009 megi einnig ráða að það telji sér ekki skylt að svara spurningu kæranda til ráðherra frá 11. apríl 2009 um það hvort forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins hafi brotið á rannsóknareglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi menntamálaráðuneytið ekki talið ástæðu til að verða við ítrekun kæranda þess efnis.

Bendir kærandi á að fyrir þá sem ekki til þekkja sé illmögulegt að átta sig á þeim langvarandi djúpstæða vanda sem einkennt hafi lögboðna fornleifavernd á Íslandi, á kostnað minjanna og skattfjárins, sem um sé að tefla. Sé ráðning sem kæra þessi snúist um lýsandi fyrir það ástand. Hvað valdi sé rakið í opnu bréfi kæranda til alþingismanna frá 5. mars 2009 sem hafi ekki verið svarað.

Kærandi bendir á 3. mgr. 15. gr. þjóðminjalaga, nr. 107/2001, þar sem segir: „Þegar Fornleifavernd ríkisins veitir leyfi til stað- og tímabundinna fornleifarannsókna, sbr. 2. mgr. 6. gr., skal þess gætt að stjórnandi þeirra hafi tilskilda menntun í fornleifafræði.“ Þrátt fyrir þetta ákvæði sé engar skýringar að finna um hvað teljist tilskilin menntun í fornleifafræði í reglum Fornleifaverndar um veitingu leyfa í fornleifarannsóknum, nr. 292/2002, eða í gildandi leyfisveitingareglum frá 12. maí 2006. Ekki sé heldur að finna skýringar á þeim menntunarkröfum í reglugerð við gildandi þjóðminjalög því hún sé ekki til, þrátt fyrir að skýrt sé kveðið á um það í 29. gr. gildandi þjóðminjalaga að menntamálaráðherra beri að setja reglugerð á grundvelli þeirra laga. Einungis sé tilgreint í gildandi leyfisveitingareglum Fornleifaverndar ríkisins í 4. mgr. 4. gr.: „Fornleifavernd ríkisins áskilur sér rétt til að líta til þekkingar og reynslu við veitingu leyfa.“ Því hafi rannsóknarleyfin hjá Fornleifavernd ríkisins verið geðþóttaákvörðunum háð og svo hafi tíðum verið í berhögg við ákvæði löggjafarvaldsins um tilskilda menntun í fornleifafræði.

Þrátt fyrir formlega beiðni kæranda í tölvupósti 8. apríl 2009 um rökstuðning fyrir ráðningunni auk skýringa á M.A.-gráðu karlsins sem hafi verið ráðinn þá hafi kæranda ekki borist svar, en tiltekið hafi verið í greinargerð Fornleifaverndar ríkisins að tölvupóstur stofnunarinnar hafi ekki verið móttekinn af kæranda, en við það kannast kærandi ekki.

Þá telur kærandi að ekki hafi verið staðið faglega að meðferð málsins. Í greinargerð Fornleifaverndar ríkisins hafi verið tilgreint að ellefu umsóknir hafi borist um starf minjavarðar Suðurlands. Tilvitnun forstöðumannsins í stjórnsýslulög um faglega meðferð umsókna standist ekki því starfsmaður Capacent Ráðninga, sem stóð fyrir mati á umsækjendum, hafi engin skil kunnað á framhaldsmenntun í fornleifafræði og tengdri stjórnunarreynslu sem tilgreind hafi verið í auglýsingu um starfið. Kærandi hafi í umsókn sinni gert skilmerkilega grein fyrir því hvernig háskólamenntun sín og umfangsmikil stjórnunarreynsla hennar á sviði forsögulegrar fornleifafræði og miðaldafornleifafræði auk menntunar í þjóðháttafræði, listfræði og safnafræði félli að starfsskyldum minjavarðar, sem vísað hafi verið til í auglýsingunni. Aftur á móti hafi það verið gert að aðalatriði, gegn kæranda, að hún hafi gert réttmætar athugasemdir við það að umsókn hennar hafi verið send að henni forspurðri til fyrirtækis úti í bæ.

Ljóst sé af greinargerð Fornleifaverndar ríkisins að litið sé svo á að fornleifarannsóknir snúist um magn í tíma eða rúmi en ekki gæði, en gæði í fornleifarannsóknum ráðist af fræðilega unnum birtum rannsóknaniðurstöðum fyrir fræðaheiminn þeim til staðfestingar að viðbættum fyrirlestrum sem og annarri kynningu og miðlun. Hvað kæranda snerti sé að finna yfirlit um fjölda birtinga, þar af í leiðandi erlendum vísindatímaritum, og fyrirlestra við helstu háskóla í frændríkjunum og í Þýskalandi, sem og aðra kynningu og miðlun á rannsóknaniðurstöðum kæranda í ferilskrá.

Kærandi bendir á að hún hafi stundað framhaldsnám í fornleifafræði 1974–1976 og doktorsnám 1978–1980 við Háskólann í Lundi og Gautaborgarháskóla frá og með árinu 1982. Kærandi hafi alfarið borið ábyrgð á þeim umfangsmiklu þverfaglegu fornleifarannsóknum sem doktorsritgerð hennar snúist um og henni boðið að halda gestafyrirlestra til að kynna þær rannsóknir, meðal annars við helstu háskóla í frændríkjunum, Þýskalandi og hjá Society for American Archaeology Society. Þær rannsóknir standi enn fyrir sínu og tíðum sé vitnað í þær hjá fræðasamfélaginu þegar fjallað er um upphaf byggðar norrænna manna í eylöndum Norður-Atlantshafs, þó ætla megi annað af hálfu Fornleifaverndar ríkisins. Lítið hafi verið gert úr rannsóknaferli kæranda og því haldið fram að kærandi hafi staðið fyrir lítilli rannsókn að Gásum. Sú rannsókn hafi verið hluti af rannsóknaverkefni sem hafi náð til á sjötta tug fornleifastaða á Norðausturlandi. Auk skýrslna um þær rannsóknir hafi þær verið kynntar á erlendum ráðstefnum, í gestafyrirlestrum heima fyrir og erlendis og birtar í erlendum fagtímaritum. Þetta eigi Fornleifavernd ríkisins að vita því kærandi hafi orðið við beiðni stofnunarinnar um að nýta kolefnisaldursgreiningar frá fornleifastöðum sem fengist hafi verið við í þeim rannsóknum.

Við megi bæta umfangsmiklu norrænu þverfaglegu vísindasamstarfsverkefni um aldur byggðar á Íslandi og í Færeyjum sem kærandi hafi átt frumkvæði að og stjórnað, og niðurstöður þess verkefnis verið birtar í leiðandi alþjóðlegum vísindaritum, en Íslandshlutinn hafi náð til á fimmta tug fornleifastaða. Rekstur verkefnisins hafi verið fjármagnaður með tugum milljónum króna úr samnorrænum vísindasjóði auk framlaga frá háskóla- og rannsóknastofnunum í frændríkjunum sem samstarfsmenn kæranda hafi starfað við.

Fornleifavernd ríkisins virðist líta svo á að stjórnunarreynsla og mannaforráð á sviði fornleifafræði snúist um það að hafa unnið hjá Þjóðminjasafninu eða Fornleifavernd ríkisins eins og þau umfangsmiklu rannsóknaverkefni sem kærandi hafi fengist við hafi hvorki kallað á stjórnunarhæfni né mannaforráð. Það sé hins vegar rétt að kærandi hafi ekki sóst eftir því að sinna fornleifaskráningu hér í landi því leiðbeiningar Fornleifaverndar ríkisins í þeim efnum eigi lítt skylt við þá samræmdu fornleifaskráningarstaðla sem frændríkin hafi nú þegar innleitt hjá sér. Samræmd fornleifaskráning teljist grundvallaratriði í ríkjum sem búa við faglega rekna og virka fornleifavernd með tilliti til nauðsynlegrar forgangsröðunar á aðkallandi verkefnum og fjárveitingum til að sinna þeim á hverjum tíma, enda hafi rík akademísk hefð og siðareglur löngum verið fyrir hendi í fornleifarannsóknum og fornleifavernd í frændríkjunum, en ekki á Íslandi enn sem komið er. Aftur á móti hafi starf minjavarðar Suðurlands gefið kjörið tækifæri til að bæta úr því.

Kærandi gerir athugasemd við það mat ráðgjafa Capacent Ráðninga eftir viðtöl við umsækjendur, að þrír umsækjendur hafi þótt öðrum fremur hafa þá menntun, starfsreynslu og faglegan bakgrunn sem krafist hefði verið til að gegna starfinu, þótt enginn teldist hafa mikla stjórnunarreynslu.

Í greinargerð Capacent Ráðninga hafi komið fram að kærandi hafi einnig þótt uppfylla vel hin hlutlægu skilyrði sem tilgreind hafi verið í auglýsingu. Neikvætt viðmót í símtali við viðtalsboðun til Capacent Ráðninga hafi þótt gefa tilefni til efasemda um hæfni kæranda í mannlegum samskiptum sem mikil áhersla sé lögð á í starfi minjavarðar. Ómarkviss svörun og einbeitingarskortur í viðtali hjá Capacent Ráðningum hafi orðið til þess að kærandi hafi ekki verið beðin um að taka persónuleikapróf, sem aðrir hafi tekið. Umræddur ráðgjafi Capacent Ráðninga sem hafi ritað greinargerð vegna ráðningarinnar hafi talið sig í rétti til að gera kæranda upp neikvæðni í símtali um viðtalsboðun sem ráðgjafinn hafi ekki komið að sjálfur. Fyrir það eitt að hafa brugðist við því að hún hefði ekki haft hugmynd um það að umsókn hennar hefði verið send til fyrirtækisins, hafi kærandi ekki komið til álita í starfið.

Kærandi kannist ekki við það að hún hafi verið ómarkviss eða skort hafi á einbeitingu í viðtali hjá Capacent Ráðningum. Í viðtalinu hafi kærandi bent ráðgjafanum á að hjá Capacent Ráðningum væri að finna meðmæli um starfshæfni kæranda og stjórnunarreynslu vegna starfsumsóknar 2008, meðal annars frá leiðandi prófessor í fornleifafræði Norðurlanda og gestaprófessor við Cambridgeháskóla. Aftur á móti hafi sérstaklega verið tiltekið í greinargerð Fornleifaverndar ríkisins að engin meðmæli hafi verið fyrir hendi um kæranda.

Þá gerir kærandi athugasemd við það að staðfesting á menntun karlsins sem ráðinn var hafi ekki verið fyrir hendi. Það sé hreint ekki tilgreint í ferilskrá þess sem ráðinn var hversu margar einingar liggi að baki M.A.-gráðu hans í fornleifafræði. Það geri Fornleifavernd ríkisins heldur ekki í greinargerð sinni. Þessi tregða bendi enn frekar til þess að skort hafi tilfinnanlega á faglega meðhöndlun og jafnræðisreglu við mat á hæfi umsækjenda samanborið við menntun og áunna reynslu sem starf minjavarðar Suðurlands kalli á.

Af hálfu kæranda kemur fram að hún muni ekki eltast við rangfærslur Fornleifaverndar ríkisins um tilgreind rannsókna- og samstarfsverkefni kæranda, þ.e. fornleifarannsóknir að Gásum og víðar á Norðurlandi eystra eða umfangsmiklu norrænu vísindasamstarfsverkefni, Byggð og tímatal í Norður-Atlantshafi, heldur vísar kærandi til ferilskrár sinnar þar sem gerð sé grein fyrir þeim rannsóknaverkefnum, skýrslum, birtingum og fyrirlestrum með meiru þeim tengt.

Hvað varði ábendingar kæranda um aukin vanskil á stærri sem smærri óafturkræfum fornleifauppgröftum hér í landi minjanna vegna sem um sé að tefla, þá sé ekki um dylgjur af hálfu kæranda að ræða eins og segi af hálfu Fornleifaverndar ríkisins, sbr. bréf kæranda til alþingismanna frá 5. mars 2009. Makalaust einelti gagnvart ungum kvenfornleifafræðingi að hálfu stofnenda fyrirtækisins Fornleifaverndar ríkisins tengt útboði á stóruppgrefti á Alþingisreit hafi leitt til þess að núverandi menntamálaráðherra fól Samkeppniseftirlitinu í maí 2009 að rannsaka það útboðsmál, enda til þess stofnað með samþykki Fornleifaverndar ríkisins án þess að niðurstöður úr fyrri uppgröftum einkafyrirtækisins Fornleifastofnunar Íslands ses. á Alþingisreit lægju fyrir. Því sé um augljós vanskil og brot á lögboðinni fornleifavernd að ræða.

 

III.

Sjónarmið Fornleifaverndar ríkisins

Fornleifavernd ríkisins greinir frá því að starfið sem um ræði, starf minjavarðar Suðurlands, hafi verið auglýst á Starfatorgi ríkisins og hafi auglýsingin birst 3. mars 2009. Í henni hafi komið fram eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur:


  • Framhaldsmenntun á háskólastigi í fornleifafræði eða minjafræði.
  • Stjórnunarreynsla og hæfni í mannlegum samskiptum.
  • Frumkvæði og sjálfstæði í starfi og öguð vinnubrögð.
  • Færni í íslensku, ensku og helst einu Norðurlandamáli, jafnt töluðu sem rituðu máli.

Alls hafi borist ellefu umsóknir um starfið. Umsækjendur hafi margir hverjir virst vera nokkuð jafnir og hafi því verið ákveðið að leita til Capacent Ráðninga um aðstoð við að meta umsækjendur. Ákvörðunin um aðstoð Capacent Ráðninga hafi verið tekin áður en umsókn frá kæranda barst. Umsókn hennar hafi borist eftir lokun hinn 23. mars 2009 og beðið forstöðumanns Fornleifaverndar ríkisins að morgni 24. mars. Starfsfólk Capacent Ráðninga sé þaulvant mati á umsækjendum og hafi Fornleifavernd ríkisins talið að með því að fá aðstoð fyrirtækisins væri ekki unnt að efast um að allir fengju sömu meðhöndlun.

Eina athugasemdin sem hafi borist vegna aðstoðar Capacent Ráðninga hafi verið frá kæranda sem hafði óskað eftir að ræða við forstöðumann Fornleifaverndar ríkisins beint. Forstöðumaðurinn hafi bent kæranda á að allir ættu að sitja við sama borð og yrðu að ganga í gegnum sama ferilinn varðandi starfsumsóknina. Þannig væri gætt að jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þegar hafi komið að því að velja starfsmann hafi valið staðið milli tveggja kvenna og eins karlmanns sem öll hafi uppfyllt þær kröfur sem settar voru til starfsins að mati Fornleifaverndar ríkisins. Um hafi verið að ræða tvær konur og karlinn sem ráðinn var. Að mati Fornleifaverndar ríkisins hafi kærandi ekki uppfyllt kröfur um hæfni í mannlegum samskiptum og vísar því meðal annars til stuðnings í greinargerð Capacent Ráðninga sem hafi metið kæranda slæma á því sviði. Þar af leiðandi hafi kærandi ekki uppfyllt hæfniskröfurnar. Af þeim þremur sem hafi verið metin hæf reyndist önnur kvennanna ekki eiga möguleika á að flytja á Suðurland og hin hafði minni stjórnunar- og starfsreynslu en karlmaðurinn.

Kærandi hafi haldið því fram að karlmaðurinn sem ráðinn var standist ekki menntunarkröfur Fornleifaverndar ríkisins samkvæmt auglýsingunni, og vísi þar í heimasíðu Fornleifastofnunar Íslands ses. Heimasíðan virðist hafa verið síðast uppfærð um mitt árið 2008, án þess þó að upplýsingar um starfsmenn væru uppfærðar. Sá sem ráðinn var í starfið hafi lokið M.A.-prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands árið 2007 og uppfylli því umrædda kröfu. Fullyrðing kæranda um menntunarskort karlmannsins sé því röng. Hann uppfylli jafnframt kröfu í auglýsingunni um stjórnunarreynslu og hæfni í mannlegum samskiptum. Hann hafi fram að þessum tíma stjórnað þremur fornleifauppgröftum, verið með verkstjórn í fimm fornleifauppgröftum og tekið þátt í uppgreftri á átta öðrum stöðum. Hann hafi unnið heilan vetur hjá Cambridge Archaeological Unit í Englandi og fengist við ýmis verkefni á þeirra vegum að auki. Hann hafi unnið að fornleifaskráningu á tíu stöðum hérlendis og stýrt ýmsum þeim verkefnum. Hann hafi því mun umfangsmeiri stjórnunarreynslu en kærandi. Þá hafi karlmaðurinn sýnt frumkvæði og sjálfstæði í starfi og öguð vinnubrögð eftir að hann hóf störf hjá Fornleifavernd ríkisins og séu umsagnir annarra um hann og mat Capacent Ráðninga á þá vegu. Þá hafi hann uppfyllt kröfur um tungumálakunnáttu svo sem krafist hafði verið. Að mati forstöðumanns hafi umræddur karlmaður því verið hæfastur umsækjenda til að gegna starfi minjavarðar Suðurlands.

Til samanburðar vekur Fornleifavernd ríkisins athygli á að kærandi hafi grunnmenntun í fornleifafræði og hafi lokið doktorsprófi í fornleifafræði árið 1989 við háskólann í Umeå. Kærandi hafi stundað doktorsnámið fram að þeim tíma við ýmsa háskóla í Skandinavíu. Á 38 ára tímabili hafi kærandi stjórnað þremur fornleifauppgröftum, tveimur smáum og einum umfangsmiklum. Kærandi hafi stjórnað fornleifauppgreftri í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum með hléum, á árunum 1971–1983, og það sé eini umfangsmikli uppgröfturinn sem hún hafi stjórnað. Kærandi hafi hafið uppgraftarstjórnina í Vestmannaeyjum meðan hún hafi enn verið í grunnnámi í fornleifafræði í Svíþjóð. Árið 1986 hafi kærandi staðið fyrir lítilli rannsókn að Gásum og árið 2004 hafi kærandi stjórnað umfangslítilli rannsókn að Bygggarðsvör á Seltjarnarnesi. Aðrir uppgreftir sem kærandi hafi gefið upp séu einungis þrír og hafi verið unnir undir stjórn annarra, en það hafi verið rannsóknir á námsárunum í Svíþjóð, í Noregi og á tíunda áratug síðustu aldar í Jórdaníu. Kærandi hafi því ekki umfangsmikla reynslu við fornleifauppgröft á þessu tæplega 40 ára tímabili. Samkvæmt ferilskrá kæranda hafi hún enga reynslu í fornleifaskráningu á vettvangi, en hafi þó fengist við greiningu minja af loftmyndum og tekið þátt í verkefni með Háskóla Íslands sem hafi beinst að því að nýta fjarkönnunartækni við að nema fornleifar í jörðu. Mörgum verkefnum sem kærandi hafi hafið og nefnd séu í ferilskránni hafi aldrei verið lokið, meðal annars vegna skorts á hæfni í mannlegum samskiptum. Ekki fáist séð af ferilskrá kæranda að hún hafi farið í neina endurmenntun eftir að hún lauk doktorsprófi árið 1989. Þá hafi hún enga reynslu innan stjórnsýslunnar. Kærandi hafi tímabundið verið í rannsóknarstöðu við Háskóla Íslands og í rannsóknarstöðu Kristjáns Eldjárns við Þjóðminjasafn Íslands um tíma. Stjórnunarreynsla kæranda sé takmörkuð og langt síðan hún hafi haft nokkur mannaforráð. Í umsókn kæranda hafi ekki verið vísað á neina meðmælendur en við ráðninguna hafi forstöðumaður leitað umsagna samstarfsmanna kæranda sem allir hafi verið sammála um að erfitt eða ómögulegt væri að vinna með henni.

Þá hafi kærandi nefnt að hún hafi óskað eftir rökstuðningi forstöðumanns Fornleifaverndar ríkisins fyrir vali á starfsmanni í minjavarðarstöðuna, en ekki fengið umbeðinn rökstuðning. Kærandi hafi vísað til þess að beiðnin hafi verið send í tölvupósti þann 8. apríl 2009, en því hafi verið haldið fram af hálfu Fornleifaverndar ríkisins að tölvupósturinn hafi aldrei borist. Eftir að stofnunin hafði leitað til netveitu stofnunarinnar hafi tölvubréfið hins vegar fundist fast í netvörn þjónustuaðila. Beðist sé því velvirðingar á því að póstinum hafi af þessum sökum ekki verið svarað á sínum tíma. Þó er bent á að rökstuðningsskyldu hafi nú verið fullnægt þar sem rökstuðningur fyrir ráðningunni hafi birst í framlagðri greinargerð.

Jafnframt hafi kærandi haldið því fram að forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins hafi brotið á 10. gr. laga nr. 37/1993 þar sem forstöðumaðurinn hafi sent umsóknir til ráðningarfyrirtækis án þess að láta kæranda vita. Eins og bent var á hér að framan hafi markmiðið með því að leita til Capacent Ráðninga verið að meðhöndla umsóknirnar eins faglega og unnt væri svo sem kveðið sé á um í umræddri grein stjórnsýslulaganna. Eftir að Capacent Ráðningar hafði tekið umsækjendur í viðtal og látið nokkra þeirra ganga undir próf, þá hafi nokkrir umsækjendur verið boðaðir í viðtal til Fornleifaverndar ríkisins þar sem forstöðumaður Fornleifaverndar og fornleifafræðingur hjá stofnuninni hafi rætt við umsækjendur. Að því loknu hafi forstöðumaðurinn tekið ákvörðun um ráðningu minjavarðarins á grundvelli umsókna og ferilskrár umsækjenda, viðtals hjá Fornleifavernd ríkisins og ráðgjafar Capacent Ráðninga. Vandað hafi verið til verka eins og unnt var, málið fyrst kannað rækilega og síðan tekin ákvörðun, svo sem kveðið sé á um í 10. gr. laga nr. 37/1993.

Í ljósi heildstæðs mat á öllum umsækjendum hafi forstöðumaður talið að tiltekinn karlmaður væri hæfasti umsækjandinn og því hafi hann verið ráðinn.

Þá hafi kærandi ítrekað að umsóknirnar hafi ekki fengið faglega meðhöndlun. Sem mótrök vísar forstöðumaður enn til greinargerðar sinnar. Þar hafi komið fram að það hafi bæði verið starfsmenn Capacent Ráðninga og forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins og deildarstjóri hjá stofnuninni sem hafi metið umsóknir umsækjanda. Deildarstjórinn hafi sinnt hluta þeirra verkefna sem minjavörður Suðurlands hafi nú tekið yfir, allt frá árinu 2001.

Svo sem fram hafi komið í auglýsingu um starf minjavarðar og vísað sé til í greinargerð forstöðumanns frá 27. maí 2009, þá hafi verið lögð mikil áhersla á að aðilinn sem yrði ráðinn í starf minjavarðar Suðurlands byggi yfir færni í mannlegum samskiptum. Kærandi hafi vænt forstöðumann um ærumeiðingar, meðal annars vegna tilvísana til þess að kæranda hafi ekki gengið vel í samstarfi við aðra aðila. Um það vitna ógrynni bréfa og greinargerða, meðal annars hjá Þjóðminjasafni Íslands, menntamálaráðuneytinu, NOS-H í Kaupmannahöfn/Osló og Fornminnissavni Færeyja, svo nokkur dæmi séu tekin. Kærandi hafi vísað í norrænt þverfaglegt samstarfsverkefni um aldur byggðar á Íslandi og í Færeyjum. Svo sem fram komi í fylgiskjölum hafi samstarfið lognast út af vegna samstarfs- og samskiptaerfiðleika. Það sama hafi átt við um rannsóknir í Eyjafirði sem meðal annars hafi tengst Gásum. Eins hafi komið upp ósamkomulag og kærumál vegna DNA-rannsókna á fornum mannabeinum.

Kærandi hafi talið forstöðumanninn gera lítið úr rannsóknum sínum. Í greinargerð hafi verið vísað til fárra fornleifauppgraftra kæranda á löngum starfsferli. Kærandi hafi vísað til tæplega 60 staða sem tengist norræna aldursákvörðunarverkefninu og að forstöðumanni ætti að vera fullkunnugt um þær rannsóknir þar sem hún hafi fengið að nota aldursákvarðanir kæranda úr þeim rannsóknum. Þetta sé að hluta rétt, þ.e. kærandi hafi látið gera aldursákvarðanir á viðarkolum sem kærandi, dr. Arne Espelund, norskur málmfræðingur og forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins hafi safnað á yfirborði á gjallhaugum á nokkrum stöðum norðan- og austanlands með leyfi frá Fornleifanefnd. Um hafi verið að ræða nokkurra daga sameiginlega ferð á járnvinnslustaði í Fnjóskadal og á Fljótsdalshéraði. Ekki hafi verið um uppgröft eða ítarlegar yfirborðsrannsóknir að ræða. Forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, sem hafi þá unnið að doktorsritgerð sinni í fornleifafræði um járnrannsóknir, hafi ekki vitað að hann væri að safna efni í norrænt verkefni sem kærandi hafi stýrt og hafi tengst tæplega 60 minjastöðum. Kærandi hafi boðist til að láta aldursgreina sýnin sem safnað hafi verið í ferðinni og síðan hafi forstöðumaður orðið að fá leyfi kæranda til að vísa til aldursákvarðananna. Vakin er athygli á því að ekki hafi verið um fornleifauppgröft að ræða á járnvinnslustöðunum.

Staðhæfing kæranda um að vanskil hafi aukist úr stóruppgröftum sem Fornleifavernd ríkisins hafi veitt leyfi til hafi ekki við nein rök að styðjast og sé dæmi um dylgjur af hálfu kæranda.

Hvað varði sérþekkingu eða persónuleikapróf hafi kærandi vísað til símtals síns og forstöðumanns Fornleifaverndar ríkisins þar sem fram hafi komið að kærandi hefði talið það brot á lögum að Capacent Ráðningar tæki umsækjendur í viðtal án þess að það kæmi fram í auglýsingu. Kærandi hafi óskað eftir að fá að koma einungis í viðtal til forstöðumanns Fornleifaverndar ríkisins. Forstöðumaður standi við það að hafa sagt að það væri ekki hægt þar sem allir umsækjendur yrðu að fara í gegnum sama ferilinn og að hann hefði verið ákveðinn áður en umsókn kæranda hafi borist.

Fornleifavernd ríkisins ítrekar það að hæfni í mannlegum samskiptum skipti miklu máli í starfi minjavarða. Fornleifavernd ríkisins hafi lagt sig fram um að mat á umsóknum yrði að öllu leyti eins faglegt og unnt væri. Forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins hafi átt fund með starfsmanni Capacent Ráðninga áður en fyrirtækið hafi kallað á umsækjendur í viðtal og farið þar yfir hvaða kröfur yrðu gerðar til minjavarðar Suðurlands. Eftir að Capacent Ráðningar hafi lokið viðtölum og mati á umsækjendum hafi Fornleifavernd ríkisins kallað á hluta umsækjenda í viðtal svo sem áður hefur komið fram.

Fornleifavernd ríkisins leggur mikla áherslu á hæfni starfsmanna sinna í mannlegum samskiptum og hafi Fornleifavernd talið, að loknu heildarmati á umsækjendum þar sem byggt hafi verið á þeim menntunar- og hæfniskröfum sem fram komi í auglýsingu um starfið, að karlmaðurinn hafi verið hæfastur umsækjenda til að gegna starfi minjavarðar Suðurlands.

 

IV.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 4. mgr. 26. gr. hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.

Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

Í kæru sinni til nefndarinnar fer kærandi, sem er kona, þess á leit við nefndina að hún fjalli um og taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þegar gengið var fram hjá kæranda við ráðningu í starf minjavarðar Suðurlands og karlmaður ráðinn í starfið. Kærandi telur sig hafa verið hæfari en karl sá sem ráðinn var.

Samkvæmt starfslýsingu Fornleifaverndar ríkisins fyrir minjaverði er hlutverk minjavarða alhliða fornleifavarsla á minjasvæðinu. Þar segir að minjavörður beri ábyrgð gagnvart forstöðumanni Fornleifaverndar ríkisins. Minjavörður fari með daglega stjórn skrifstofu minjavarðar og móti stefnu um starfsemi hennar í samráði við forstöðumann Fornleifaverndar ríkisins. Minjaverði beri að stuðla að markvissri starfsemi á sínu svæði og sjá um gerð verkáætlana í samræmi við stefnu Fornleifaverndar ríkisins og gerð ársskýrslu fyrir minjasvæðið. Hann beri ábyrgð á að erindum er berast til skrifstofu minjavarðar sé svarað hratt og vel. Minjavörður skuli leitast við að mynda tengsl og samstarf við aðrar stofnanir, fyrirtæki og aðra þá er kann að varða um málefni minjavörslunnar á svæðinu. Hann beri ábyrgð á því að starfsemi og stefna skrifstofunnar samrýmist stefnumörkun Fornleifaverndar ríkisins þannig að tryggt sé eftir föngum að starfsemin beri árangur og að hún fari fram í samræmi við lög og reglur um Fornleifavernd ríkisins. Minjavörður skal vera ábyrgur fyrir því að starfsemin sé í samræmi við gildandi árangursstjórnunar-samning og samþykkta árangursmælikvarða. Minjavörður ábyrgist jafnframt að rekstur skrifstofunnar sé í samræmi við þann fjárhagsramma sem settur hefur verið í markmiðs- og starfsáætlun Fornleifaverndar ríkisins.

Þá kemur fram í starfslýsingu hver eru helstu verkefni minjavarðar, en þau eru meðal annars að vinna að og byggja upp miðstöð minjavörslu á svæðinu, kynna starfsemi Fornleifaverndar ríkisins, hafa umsjón með menningarminjum, þ.m.t. skráningu, kynningu og eftirliti, gæta að verndun þeirra, kynna almenningi, sveitarstjórnum o.fl. helstu reglur sem gilda um minjavernd og hafa samband við ferðamálayfirvöld varðandi umgengni við fornleifar og menningarminjar. Þá er minjavörður formaður minjaráðs svæðisins, hefur eftirlit með fornleifarannsóknum á svæðinu og veitir ráðgjöf um varðveislu, skráningu og rannsóknir sem undir stofnunina falla. Þá er gert ráð fyrir að minjavörður stuðli að kynningu og fræðslu fyrir almenning og stofnanir á minjasvæðinu.

Í auglýsingu um laust starf minjavarðar Suðurlands kemur fram að áskilið sé að umsækjendur hafi framhaldsmenntun á háskólastigi í fornleifafræði eða minjafræði. Sá sem ráðinn var lauk B.A.-prófi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands árið 2002 og M.A.-prófi í fornleifafræði frá sama skóla árið 2007. Kærandi lauk fil.kand. prófi frá Uppsalaháskóla 1972 og stundaði framhaldsnám við Háskólann í Lundi í miðaldafornleifafræði auk þjóðháttafræði Norðurlanda. Kærandi lauk árið 1989 doktorsprófi í fornleifafræði við Háskólann í Umeå. Í umsókn kæranda kemur fram að hún hafi þannig stundað grunnnám í fornleifafræði, svo og hafi hún numið þjóðhátta- og þjóðsagnafræði, listfræði, safnfræði og að auki hafi hún sótt ýmis hagnýt námskeið sem tengist framkvæmd ýmissa sviða sem falli undir starfslýsingu minjavarðar. Af framangreindu leiðir að kærandi telst hafa staðið þeim sem ráðinn var mun framar að því er menntun varðar. Á hinn bóginn verður að líta svo á að sá sem ráðinn var hafi uppfyllt þær formlegu menntunarkröfur sem gerðar voru til starfsins í auglýsingu, þ.e. að hafa framhaldsmenntun á háskólastigi í fornleifafræði.

Þá var tiltekið í auglýsingu að gerð væri krafa um stjórnunarreynslu, frumkvæði og sjálfstæði í starfi og öguð vinnubrögð. Fyrir liggja ítarlegar upplýsingar í málinu varðandi verkefni sem kærandi og sá sem ráðinn var hafa komið að. Ljóst er að starfsreynsla kæranda á sviði fornleifarannsókna tekur yfir mun lengra tímabil en þess sem ráðinn var. Hefur kærandi komið að margvíslegum rannsóknum á löngum starfsferli, bæði hér á landi og erlendis. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur sá sem ráðinn var einungis starfað við fornleifarannsóknir um nokkurra ára skeið. Þrátt fyrir framangreindan mun á starfstíma í faginu og ágreining um stjórnunarreynslu sem kærandi og sá sem ráðinn var teljast hafa á þessu sviði er það mat kærunefndar jafnréttismála, að teknu tilliti til starfslýsingar minjavarðar, að bæði teljist hafa uppfyllt þá kröfu auglýsingar að hafa viðeigandi stjórnunarreynslu á þessu sviði.

Í auglýsingunni var samhliða gerð krafa um hæfni í mannlegum samskiptum. Í starfslýsingu vegna starfs minjavarðar kemur fram að talsverður hluti starfsins felst í samskiptum við Fornleifavernd ríkisins við framkvæmd stefnu stofnunarinnar á hverjum tíma og að auki er gert ráð fyrir miklum samskiptum við ýmsa hagsmunaaðila á svæðinu í tengslum við umsjón, eftirlit og kynningu á verkefnum sem undir starfið falla.

Fyrir liggur í máli þessu að Fornleifavernd ríkisins leitaði til fyrirtækisins Capacent Ráðninga til að fara yfir umsóknir sem bárust og gera umsögn um umsækjendur. Af hálfu kærunefndar verður ekki tekin sérstök afstaða til þess í máli þessu hvort sú ráðstöfun hafi verið í samræmi við stjórnsýslulegar skyldur stofnunarinnar. Þó er upplýst að eftir að Capacent Ráðningar höfðu tekið viðtöl við umsækjendur hafi forstöðumaður Fornleifaverndar og starfsmaður stofnunarinnar rætt við nokkra umsækjendur. Skýrsla Capacent Ráðninga liggur fyrir í málinu og kærandi hefur átt þess kost að tjá sig um tildrög að gerð hennar svo og efni.

Í rökstuðningi Fornleifaverndar ríkisins til kærunefndar kemur fram, eins og áður er getið, að kærandi hafi að mati stofnunarinnar ekki uppfyllt kröfur um hæfni í mannlegum samskiptum og var vísað í því sambandi meðal annars til skýrslu Capacent Ráðninga sem stofnunin telur að hafi metið kæranda slæma á því sviði. Af þessum ástæðum hafi kærandi ekki uppfyllt hæfniskröfur sem gerðar hafi verið við ráðninguna. Fram kemur í tilvísaðri skýrslu Capacent Ráðninga að ráðgjafi fyrirtækisins hafi farið yfir allar umsóknir, kynnt sér menntun, feril og störf umsækjenda með tilliti til þeirra krafna sem gerðar hafi verið í auglýsingu. Þá hafi ítarleg viðtöl verið tekin við þá umsækjendur sem taldir voru uppfylla hlutlægar kröfur í auglýsingunni og að viðkomandi umsækjendur hafi að beiðni Capacent Ráðninga tekið sérstakt persónuleikapróf. Upplýst er í skýrslu Capacent Ráðninga að kærandi hafi einnig verið talin hafa uppfyllt hin hlutlægu skilyrði, en viðmót kæranda í símtali við ráðgjafa Capacent Ráðninga við boðun í viðtal hafi þótt gefa tilefni til efasemda um hæfni kæranda í mannlegum samskiptum. Þá kemur fram í skýrslunni að í viðtali sem tekið hafi verið hafi ómarkviss svörun og einbeitingarskortur orðið til þess að kærandi hafi ekki verið beðin um að taka umrætt persónuleikapróf.

Í greinargerð Fornleifaverndar ríkisins til kærunefndar kemur jafnframt fram að kærandi hafi ekki vísað á neina meðmælendur í umsókn sinni, en forstöðumaður stofnunarinnar hafi leitað eftir umsögnum samstarfsmanna kæranda, „sem allir [hafi verið] sammála um að erfitt eða ómögulegt væri að vinna með [kæranda]“. Sem nánari skýringu að því er framangreint varðar vísaði forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins til „ógrynni bréfa og greinargerða m.a. hjá Þjóðminjasafni Íslands, menntamálaráðuneytinu“, svo sem nánar er rakið í umsögn til kærunefndarinnar. Telur forstöðumaðurinn að umræddar tilvísanir styðji þá fullyrðingu að samstarfs- og samskiptaörðugleikar, svo og ósamkomulag, hafi orðið til þess að tiltekin verkefni sem kærandi hafi komið að hafi lagst af. Voru kærunefndinni send ýmis gögn hér að lútandi, en þau eru mörg hver margra ára gömul. Kærandi hefur í skriflegum athugasemdum andmælt framangreindum sjónarmiðum og fellst ekki á að umrædd gögn, sem séu allt frá árinu 1986, styðji umræddar fullyrðingar.

Svo sem að framan er rakið verður að líta svo á að kærandi hafi haft meiri menntun á sviði fornleifafræði en karlmaður sá sem ráðinn var og þá er ljóst að reynsla kæranda af ýmsum störfum og verkefnum á umræddu sviði tekur yfir langt árabil, mun lengra en reynsla þess sem ráðinn var. Fyrir liggur hins vegar að umtalsverður þáttur í starfi minjavarðar er samstarf við Fornleifavernd ríkisins í tengslum við framkvæmd stefnu hennar og myndun tengsla við hagsmunaaðila og ýmsa aðra aðila á minjasvæðinu. Að mati kærunefndar var því ekki ómálefnalegt af hálfu Fornleifaverndar ríkisins að leggja sérstaka áherslu á hæfni í mannlegum samskiptum við val á umsækjendum. Ljóst er hins vegar af því sem fram er komið í málinu að talsverður ágreiningur var milli stofnunarinnar og kæranda um hæfni kæranda að þessu leyti, svo sem að framan er rakið.

Þrátt fyrir þann ágreining telur kærunefnd jafnréttismála nægilega í ljós leitt af skriflegum athugasemdum til nefndarinnar og af gögnum þeim sem aðilar málsins hafa lagt fram að ástæða þess að kærandi var ekki talin koma til álita við ráðninguna hafi verið framangreindar efasemdir um að kærandi uppfyllti þær kröfur sem gerðar voru að þessu leyti.

Er það því mat kærunefndar að ekki sé í ljós leitt að kynferði kæranda hafi haft sérstaka þýðingu við þá ákvörðun Fornleifaverndar ríkisins að ráða karlmann í starf minjavarðar Suðurlands, en ekki kæranda. Fornleifavernd ríkisins telst því ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf minjavarðar Suðurlands.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun í málinu og sumarleyfa.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Fornleifavernd ríkisins telst ekki hafa brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ráðningu í starf minjavarðar Suðurlands.

 

Andri Árnason

Ingibjörg Rafnar

Þórey S. ÞórðardóttirEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira