Hoppa yfir valmynd
20. júní 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Stórbætt aðgengi að upplýsingum um rannsóknir á Íslandi með IRIS

Merkilegur áfangi náðist í háskóla- og vísindasamfélaginu á Íslandi í liðinni viku er opnun Rannsóknasafnsins IRIS átti sér stað eftir margra ára undirbúning. Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni hefur verið falin yfirumsjón kerfisins.

IRIS stendur fyrir The Icelandic Research Information System. Upplýsingakerfið sýnir rannsóknarvirkni íslenskra háskóla og stofnana sem eiga aðild að því. Með opnun kerfisins eykst sýnileiki, yfirsýn og aðgengi að upplýsingum um rannsóknir á Íslandi með tilheyrandi ábata fyrir rannsóknarsamfélagið hér á landi en einnig hafa atvinnulífið, sprotafyrirtæki, fjölmiðlar og almenningur beinan hag af slíku kerfi.

Rannsóknasafnið IRIS gefur kost á að skoða rannsóknarvirkni og samfélagslega dreifingu þekkingar þeirrar sem til verður við rannsóknir á Íslandi. Kerfið gerir notendum kleift að skoða rannsóknarframlag einstakra stofnana, fræða-, lista- og vísindafólks sem og þátttöku þeirra í alþjóðlegu samstarfi.

Nú þegar eru allir háskólar landsins aðilar að IRIS kerfinu auk Landspítalans, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Þá er stefnt að því að innan fárra ára verði allar rannsóknastofnanir á Íslandi aðilar að kerfinu.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, hélt ávarp við opnunina og fagnaði þessu mikilvæga skrefi í átt að opnu aðgengi að rannsóknarniðurstöðum og vísindum. „Það er mikil samkeppni milli ríkja heims og velgengni Íslands byggir á því að okkur takist vel til og við séum samkeppnishæf,“ sagði ráðherra. „Opinn aðgangur gagna, m.a. að grunnvísindum, er forsenda þess.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira