Hoppa yfir valmynd
27. september 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 393/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 27. september 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 393/2018

í stjórnsýslumálum nr. KNU18080001 og KNU18080002

 

Kæra […],

[…]

og barna þeirraá ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 31. júlí 2018 kærðu […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir K) og […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 9., 10. og 11. júlí 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kærenda og barna þeirra, […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir A), […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir B) og […], […], ríkisborgari […] (hér eftir C) um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landi.

Kærendur krefjast þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. og 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II.         Málsmeðferð

Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 19. mars 2018. Kærendur M, K og A mættu til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 17. og 18. apríl og 9. maí 2018 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 9., 10. og 11. júlí 2018 að taka ekki umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þau skyldu endursend til Grikklands. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum þann 17. júlí 2018 og kærðu þau ákvarðanirnar þann 31. júlí 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda, ásamt fylgigögnum, barst kærunefnd 15. ágúst 2018. Viðbótargögn bárust kærunefnd 14. og 27. september 2018.

III.           Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum sínum komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í málinu lægju fyrir afrit af grískum vegabréfum og afrit af dvalarleyfiskortum kærenda sem gæfi til kynna að þeim hefði verið veitt alþjóðleg vernd á Grikklandi. Var dvalarleyfiskort M með gildistíma til 26. apríl 2019 og dvalarleyfiskort K, A, B og C með gildistíma til 23. október 2020.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar var komist að þeirri niðurstöðu að 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, kæmi ekki í veg fyrir að kærendur yrðu send aftur til Grikklands. Útlendingastofnun mat aðstæður kærenda slíkar að þau væru ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Það var einnig mat stofnunarinnar að 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ætti ekki við í málum kærenda. Var umsóknum kærenda um alþjóðlega vernd því synjað um efnismeðferð, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með hinum kærðu ákvörðunum var kærendum vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum A, B og C kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að þeim væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til Grikklands.

IV.          Málsástæður og rök kærenda

Í sameiginlegri greinargerð kærenda kemur fram að M hafi farið til Grikklands í nóvember 2015 en K, A, B og C hafi komið síðar og dvalið þar í átta mánuði. Við komuna hafi K og börnin verið handtekin og færð í varðhald í 30 daga við mjög slæmar aðstæður. Þegar þeim hafi verið sleppt hafi K og börnin hitt M og þau farið á hótel en þau hafi einungis átt efni á stuttri dvöl þar. Þau hafi í kjölfarið dvalið á götunni. Þá hafi kærendum verið sagt frá yfirgefnum skóla þar sem þau hafi dvalist um tíma en að þau hafi farið þaðan eftir að sprengju hafi verið hent í átt að skólanum. Kærendur hafi óskað eftir aðstoð frá stjórnvöldum í Grikklandi og frá hjálparsamtökum en þau hafi enga aðstoð fengið vegna þess að þau væru […]. Kærendur kveði að þau hafi ekki átt rétt á heilbrigðisþjónustu, börnin hafi ekki átt rétt á að ganga í skóla og að enga atvinnu hafi verið að fá í Grikklandi. Kærendur kveði að dvöl þeirra í Grikklandi hafi verið mjög erfið. Fordómar hafi verið miklir í garð flóttamanna og þá hafi þau m.a orðið vitni af því þegar manni hafi verið hent niður af þriðju hæð húss af hópi öfgamanna. Þegar kærendur hafi fengið útgefið flóttamannavegabréf í Grikklandi hafi þau farið aftur til heimaríkis. Í heimaríki hafi fjölskyldan dvalið hjá foreldrum M, […]. Þeim hafi í kjölfarið verið hent út úr húsinu og því hafi þau ákveðið að flýja landið að nýju. Kærendur kveði andlega heilsu sína betri eftir komuna hingað til lands en að mjög erfitt hafi reynst að dvelja á götunni í Grikklandi. Þá kemur fram í greinargerð kærenda að K væri þunguð […].

Í greinargerð kærenda kemur fram athugasemd við mat Útlendingastofnunar á því hvort kærendur teljist vera í viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. […]. Þá séu börnin öll á viðkvæmum aldri og ljóst að þau hafi dvalið í varðhaldi í Grikklandi sem hafi haft áhrif á andlega heilsu þeirra. Kærendur gera einnig athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar á þeim réttindum sem þeim hafi staðið til boða í Grikklandi. Bendi kærendur á ýmsar skýrslur til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að aðstæður þeirra í Grikklandi hafi verið mun verri en Útlendingastofnun hafi gefið til kynna í ákvörðunum í málum þeirra. Þá gera kærendur athugasemd við mat Útlendingastofnunar á trúverðugleika þeirra og telja að stofnunin hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar auk reglna um rökstuðning stjórnvaldsákvarðana.

Kærendur telja að kærunefnd hafi, í úrskurðum sínum, kveðið á um að viðkvæm staða skuli hafa aukið vægi við mat á því hvort sérstakar ástæður eigi við í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd og vísa til úrskurðar kærunefndar nr. 199/2018, frá 24. apríl 2018, máli sínu til stuðnings. Þá geri kærendur jafnframt athugasemd við að í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til 32. gr. a reglugerðar nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 í tengslum við 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af úrskurðum kærunefndar sé ljóst að nefndin hafi við túlkun sína á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga gert mun minni kröfur en gerðar séu í umræddri reglugerð og hinum kærðu ákvörðunum við mat á heilsufari og sérstökum ástæðum. Einnig séu skilyrði reglugerðarinnar varðandi sérstakar ástæður mun þrengri en kveðið sé á um í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 80/2016 um útlendinga. Lögin geri það ekki að skilyrði að umsækjendur um alþjóðlega vernd séu haldnir skyndilegum, lífshættulegum sjúkdómi til þess að teljast til sérstaklega viðkvæmra einstaklinga. Það sé því hvergi að finna kröfur um hátt alvarleikastig erfiðleika, alvarlega mismunun, verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á andlega eða líkamlega heilsu eða að meðferð sjúkdóms sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Þessar kröfur í hinum kærðu ákvörðunum Útlendingastofnunar hafi því enga stoð í lögum og gangi gegn lögmætisreglunni. Þá segir í greinargerð að komist kærunefnd, þrátt fyrir framangreint, að þeirri niðurstöðu að reglugerðin eigi við þá séu aðstæður kærenda það einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið, sbr. 3. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá muni þau eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki.

Kærendur vísa til þess að samkvæmt áralangri stjórnsýsluframkvæmd hafi íslensk stjórnvöld ekki sent umsækjendur um alþjóðlega vernd til Grikklands á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin) og beri heimildir með sér að staða einstaklinga með alþjóðlega vernd sé síður en svo skárri en staða umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi. Kærendur byggja kröfu sína í fyrsta lagi á því að uppi séu sérstakar ástæður í málum þeirra, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísi kærendur til lögskýringargagna að baki ákvæðinu og telji að þau sýni vilja löggjafans til að víkka út gildissvið ákvæðisins. Kærendur bendi á að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að núgildandi lögum um útlendinga segi að með sérstökum ástæðum sé vísað til þess að einstaklingar geti verið í viðkvæmri stöðu svo sem vegna þungunar. Í því sambandi vísi kærendur til tiltekinna úrskurða kærunefndar þar sem ákvarðanir Útlendingastofnunar hafi verið felldar úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsóknir kærenda til efnismeðferðar. Kærendur telji að í ljósi almennra aðstæðna og aðbúnaðar flóttafólks á Grikklandi, einstaklingsbundinnar stöðu kærenda, m.a. vegna andlegrar vanheilsu kærenda og þeirra alvarlegu atburða sem þau hafi þurft að þola á lífsleiðinni, að hægt sé að jafna máli þeirra við umrædda úrskurði sem leiði til þess að beita skuli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í máli þessu. Kærendur benda á að mikil hætta sé á því að K muni ekki njóta viðeigandi umönnunar vegna þungunarinnar verði fjölskyldan send aftur til Grikklands og í því sambandi benda kærendur á gögn og skýrslur máli sínu til stuðnings.

Kærendur benda á að íslenskum stjórnvöldum beri að hafa það sem er barni fyrir bestu að leiðarljósi þegar ákvarðanir eru teknar um málefni þess og vísa í því sambandi til ýmissa lagaákvæða og ákvæða alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að auk tilskipana Evrópusambandsins. Telji kærendur að eining fjölskyldunnar sé einungis eitt af þeim sjónarmiðum sem stjórnvöld skuli horfa til við mat á því hvað sé börnunum fyrir bestu auk þess sem þau telji að það sé börnunum fyrir bestu að dveljast hér á landi. Telja kærendur að endursending þeirra til Grikklands hafi þau áhrif að þau muni lenda í ómannúðlegum aðstæðum og búa við öryggisleysi og ótta við framtíðina og að slíkt sé ekki boðlegt fyrir börn á viðkvæmum aldri.

Þá byggja kærendur kröfu sína í öðru lagi á því að 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, standi því í vegi. Telja kærendur að aðstæður einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi gefi til kynna að kærendur megi búast við því að verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í skilningi non-refoulement reglu 42. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

V.            Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins var kærendum veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi og hafa gild dvalarleyfi þar í landi. Dvalarleyfi M er í gildi til 26. apríl 2019 og dvalarleyfi K, A, B og C til 23. október 2020. Eru því skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæðu getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við mat á því hvort senda eigi einstakling sem nýtur alþjóðlegrar verndar aftur til ríkisins sem hefur veitt honum slíka vernd, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður í viðtökuríki brjóti í bága við 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Verður kærunefnd því að leggja mat á hvort aðstæður í viðtökuríki brjóti í bága við ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar. Þá þarf að líta til stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Meta verði fyrirsjáanlegar afleiðingar af því að vísa einstaklingi til móttökuríkis í ljósi almennra aðstæðna í ríkinu og persónulegra aðstæðna viðkomandi einstaklings.

Réttarstaða barna

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skal það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Í gögnum málsins, þ. á m. viðtölum við M og K, kemur fram að almennt séu A, B og C við góða heilsu og að fjölskyldutengsl þeirra við foreldra sína séu sterk. Það er því mat nefndarinnar að allt bendi til þess að hagsmunum A, B og C sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða A, B og C verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að A, B og C eru í fylgd foreldra sinna og haldast úrskurðir þeirra því í hendur.

Greining á hvort kærendur séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Kærendur eru hjón með þrjú börn, […]. Samkvæmt gögnum málsins eru kærendur M og K almennt við góða líkamlega heilsu. Af gögnum málsins má sjá að kærendur telja að andleg heilsa þeirra hafi ekki verið góð þegar þau dvöldu í Grikklandi en að eftir komuna hingað til lands hafi hún batnað. Í bréfi sálfræðings, dags. 26. september 2018, kemur m.a. fram að […]. Þá kemur fram í gögnum málsins að A, B og C séu almennt heilbrigð og hraustleg en að samkvæmt frásögn M og K er andleg heilsa B sveiflukennd, henni líði stundum vel en stundum illa. Þá kemur fram í gögnum málsins að K sé þunguð og eigi von á sínu fjórða barni.

Í 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga eru taldir upp í dæmaskyni nokkrir hópar einstaklinga sem teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu, þ.m.t. þungaðar konur. Samkvæmt framansögðu er kærandi K þunguð og er það mat kærunefndar, m.a. í því ljósi og með vísan til aldurs barnanna og stöðu fjölskyldunnar að öðru leyti, að fjölskyldan í heild sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu er varðar málsmeðferð þeirra hér á landi.

Aðstæður og málsmeðferð í Grikklandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Grikklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Asylum Information Database, National Country Report: Greece (European Council on Refugees and Exiles, mars 2018);
  • 2017 – Country Reports on Human Rights Practices – Greece (United States Department of State, 20. apríl 2018);
  • Freedom in the World 2018 – Greece (Freedom House, 1. ágúst 2018);Migration Flows and Refugee Protection – Administrative challenges and human rights issues (The Greek Ombudsman, apríl 2017);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Greece (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • World Report 2018 – European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);
  • UNHCR observations on the current asylum system in Greece (UNHCR, desember 2014);
  • ECRI Report on Greece (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 24. febrúar 2015);Greece as a Country of Asylum – UNHCR‘s Recommendations (UNHCR, 6. apríl 2015);
  • Petition to the European Parliament – Regarding degrading reception conditions and EU funding in Greece (Solidarity Now, mars 2017);
  • EU/Greece: Pressure to Minimize Number of Migrants Identified as ´vulnerable´ (Human Rights Watch, 1. júní 2017);
  • Reports of the Special Rapporteur on the human rights of migrants on his mission to Greece, (United Nations, General Assembly, 24. apríl 2017);
  • State of the World‘s Minorities and Indigenous Peoples 2016 – Greece (Minority Rights Group International, 12. júlí 2016);
  • Upplýsingar af vefsíðu samtakanna Safe Motherhood Week (https://www.safemotherhoodweek.org) og
  • Upplýsingar af vefsíðu Doctors of the World (http://mdmgreece.gr).

Af framangreindum gögnum má sjá að grísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur m.a. bent á þau neikvæðu áhrif sem efnahagur Grikklands hefur haft á aðstæður einstaklinga sem hafa hlotið alþjóðlega vernd þar í landi og möguleika þeirra á að aðlagast grísku samfélagi. Að mati kærunefndar er ljóst af framangreindum gögnum að þeir einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi lifa oft á jaðri samfélagsins og búa í sumum tilvikum við félagslega einangrun. Einstaklingar með alþjóðlega vernd eiga hins vegar sama rétt til félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar og í dvalarleyfi þeirra felst nú jafnframt aðgangur að vinnumarkaði. Jafnframt eru til staðar frjáls félagasamtök sem aðstoða þá sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi við að kynna sér réttindi sín.

Þá eiga einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Grikklandi hefur bág fjárhagsstaða gríska ríkisins haft mikil áhrif á heilbrigðiskerfi landsins. Þannig geti verið vandkvæðum bundið að sækja sér heilbrigðisþjónustu í Grikklandi og þá sérstaklega sérhæfða heilbrigðisþjónustu, m.a. vegna skorts á fjármagni og starfsfólki. Á þetta jafnt við um gríska ríkisborgara og aðra sem hafa rétt til dvalar í landinu. Í nýjustu ársskýrslu gagnagrunns Evrópuráðsins um flóttamenn og landflótta einstaklinga, Asylum Information Database, kemur fram að einstaklingar með alþjóðlega vernd í Grikklandi hafi fundið fyrir erfiðleikum með að fá viðunandi heilbrigðisþjónustu og á það einkum við um einstaklinga sem tilheyra sérstaklega viðkvæmum hópum. Þá segir á vefsvæði alþjóðasamtakanna Doctors of the World að konur á flótta í Grikklandi hafi átt erfitt með að fá aðgang að fullnægjandi mæðravernd þar í landi.Kemur fram að árið 2016 hafi samtökin hrint af stað herferð með það að markmiði að bæta mæðravernd til flóttakvenna í Grikklandi. Einnig kemur fram að þrátt fyrir að margt hafi áunnist í þeim efnum eigi þungaðar konur enn á hættu að fá ekki fullnægjandi mæðravernd og ungbarnavernd þar í landi.

Þá má sjá í framangreindum gögnum að einstaklingar með alþjóðlega vernd í Grikklandi eigi rétt á aðgengi að húsnæði. Fá gistiskýli eru þó í boði fyrir heimilislausa í Grikklandi auk þess sem ekkert húsnæði er til staðar sem einungis er ætlað einstaklingum með alþjóðlega vernd. Erfitt geti reynst fyrir heimilislausa í Grikklandi að fá pláss í gistiskýlum þar sem aðsóknin sé mikil og eru dæmi um að einstaklingar með alþjóðlega vernd hafist við í yfirgefnum húsum við mjög bágar aðstæður. Á þetta einnig við um einstaklinga sem sendir hafa verið til baka frá öðrum Evrópuríkjum. Í janúar 2018 fengu um 3000 einstaklingar með alþjóðlega vernd húsnæði og um 6000 einstaklingar fjárhagsaðstoð.

Í framangreindum gögnum kemur fram að grísk yfirvöld veiti einstaklingum með alþjóðlega vernd sem búa undir fátæktarmörkum fjárhagsaðstoð í formi mánaðarlegrar greiðslu. Einstaklingar sem hyggjast nýta sér úrræðið þurfa að uppfylla ýmis skilyrði og má sem dæmi nefna að þeir þurfa að hafa kennitölu, skattnúmer, gilt dvalarleyfi og bankareikning. Þá þurfa þeir m.a. að framvísa leigusamningi í þeim tilvikum þegar þeir búa í leiguhúsnæði og í tilviki heimilislausra einstaklinga þurfa þeir að framvísa vottorði um heimilisleysi frá gistiskýlinu eða sveitarfélaginu þar sem þeir búa. Þá kemur fram í fyrrnefndum gögnum að engin sérúrræði eru til staðar varðandi félagsþjónustu fyrir fólk í viðkvæmri stöðu, t.d. fyrir einstaklinga sem eru þolendur pyndinga.

Samkvæmt framangreindum gögnum fá einstaklingar með alþjóðlega vernd í Grikklandi útgefið dvalarleyfi til þriggja ára. Handhafar dvalarleyfis skulu sækja um endurnýjun að minnsta kosti mánuði áður en það rennur út en venjulega tekur um tvo til sex mánuði að fá endurnýjun. Þrátt fyrir að umsókn um endurnýjun dvalarleyfis berist of seint bera framangreindar skýrslur ekki með sér að slíkt eitt og sér hafi í för með sér að umsókninni verði synjað. Við endurnýjun dvalarleyfis fer fram skoðun á sakaskrá einstaklingsins auk þess sem lagt er mat á hvort breyting hafi orðið á stöðu hans. Ef dvalarleyfi rennur út á meðan einstaklingur bíður eftir endurnýjun á hann rétt á að fá útgefið vottorð sem gefur til kynna að hann hafi sótt um endurnýjun. Vottorðið veitir einstaklingnum sama rétt og gilt dvalarleyfi veitir en þess eru þó dæmi að handhafar slíks vottorðs hafi átt í erfiðleikum með að nálgast tiltekin félagsleg réttindi eins og fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera.

Í framangreindum gögnum kemur fram að börn með alþjóðlega vernd í Grikklandi eigi sama rétt til þess að ganga í skóla þar í landi og önnur grísk börn fram að 15 ára aldri. Þrátt fyrir það þá kemur fram að einungis rúmlega helmingur barna á flótta sæki skóla í Grikklandi. Er ástæðan fyrir þessu m.a. rakin til tungumálahindrana og þess að námið henti ekki endilega börnum á flótta í Grikklandi.

Samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er bann við meðferð sem fer gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu fortakslaust en meðferð verður þó að fullnægja lágmarkskröfu um alvarleika til að teljast brot gegn 3. gr. sáttmálans. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lagt til grundvallar að þó svo að efnahagsstaða einstaklings versni við frávísun eða brottvísun frá aðildarríki sáttmálans sé slíkt eitt og sér ekki fullnægjandi til að uppfylla grundvallarkröfu um þann alvarleika sem 3. gr. sáttmálans geri kröfu um, þ.e. þar sem ekki sé um að ræða sérstaklega sannfærandi mannúðaraðstæður sem mæli gegn flutningi einstaklings, sbr. ákvörðun í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013.

Einstaklingsbundnar aðstæður kærenda

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kærenda. Frásagnir kærenda koma að mestu leyti heim og saman við heimildir um aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi sem kærunefnd hefur kynnt sér, þ.e. hvað varðar erfitt aðgengi að vinnumarkaðnum, félagslegu húsnæði, menntun fyrir börn og framfærslu frá yfirvöldum. Kærendur hafa jafnframt borið fyrir sig að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í málinu þar sem kærandi K er þunguð. Þá hefur þeirri afstöðu verið lýst f.h. barna kæranda að þau vilji dvelja hér á landi.

Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga er fjallað um mat á því hvort taka eigi umsókn til efnislegrar meðferðar hér á landi vegna sérstakra ástæðna og eru ákveðin viðmið þar nefnd í dæmaskyni. Er þar m.a. átt við þau tilvik þegar umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, s.s. ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki. Þá er jafnframt vísað til þess þegar umsækjanda, vegna þungunar, stendur ekki til boða fullnægjandi fæðingaraðstoð í viðtökuríki.

Eins og að framan greinir eiga einstaklingar sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi rétt á endurgjaldslausri heilbrigðisþjónustu þótt fyrir liggi að það kunni að vera vandkvæðum bundið að sækja slíka þjónustu. Að mati kærunefndar benda gögn málsins þó ekki til annars en að kæranda standi til boða fullnægjandi fæðingaraðstoð í Grikklandi en meðal þeirrar heilbrigðisþjónustu sem hindranir kunna að vera á aðgengi að er mæðravernd og ungbarnavernd. Að því er varðar sérstaklega aðgengi barnanna að menntun tekur kærunefnd fram að þótt skýrslur bendi til þess að kærendur M og K þurfi að yfirstíga ákveðnar stjórnsýsluhindranir til að skrá börn sín í skóla er að mati kærunefndar ljóst að A, B og C eiga lagalegan rétt á menntun í Grikklandi. Þó benda gögn málsins til þess að réttur til menntunar sé ekki í öllum tilvikum virkur.

Aftur á móti telur kærunefnd að líta verði til þess að kærendur mynda stóra fjölskyldu og að kærandi K er barnshafandi. Þá benda gögn málsins til þess að þau eigi í andlegum erfiðleikum. Að mati nefndarinnar er viðkvæm staða fjölskyldunnar slík að líklegt sé að vandkvæðum verði bundið að sækja rétt hjá grískum yfirvöldum sem þau eiga lagalegt tilkall til. Þegar litið er til aðstæðna kærenda, einkum þungunar kæranda K, er það niðurstaða kærunefndar að þær aðstæður sem bíða þeirra í Grikklandi séu verulega síðri en staða almennings í Grikklandi, sbr. til hliðsjónar 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Í því sambandi hefur kærunefnd jafnframt litið sérstaklega til hagsmuna barnanna A, B og C, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar, eins og hér stendur á, að fella úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra og leggja fyrir stofnunina að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar á grundvelli 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að taka beri mál kærenda og barna þeirra til efnismeðferðar hér á landi.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda og barna þeirra til efnismeðferðar.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s and their children‘s applications for international protection in Iceland.

Anna Tryggvadóttir

Árni Helgason                                                                                    Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum