Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Sendiráðið býður fram aðstoð sína eftir stórbruna í héraðssjúkrahúsinu í Mangochi

Íslenska sendiráðið í Lilongve og skrifstofan í Mangochi héraði hafa boðið fram aðstoð sína og eru í nánu sambandi við starfsmenn héraðsins eftir stórbrunann í héraðssjúkrahúsinu í Mangochi bænum í gærmorgun. Mangochi er samstarfshérað Íslendinga í alþjóðlegri þróunarsamvinnu eins og kunnugt er. Sambyggð fæðinga- og vökudeild og barnaverndardeild sjúkrahússins brann til grunna.

Mikill eldur gaus upp um klukkan hálf ellefu í gær að staðartíma. Ekkert slökkvilið er í Mangochibænum og eldvarnir engar á sjúkrahúsinu en lögreglu og heimamönnum tókst að hefta útbreiðslu eldsins og verja nálægar deildir, meðal annars lyfjadeildina við hliðina á fæðingardeildinni þar sem mikinn eldsmat er að finna.

Að sögn Ágústu Gísladóttur forstöðumanns sendiráðs Íslands í höfuðborginni komust allir sjúklingarnir út heilu og höldnu en nærliggjandi deildir sjúkrahússins voru einnig rýmdar meðan reynt var að ráða niðurlögum eldsins. Rúmliggjandi sjúklingar voru meðal annars fluttir til sjúkrahússins í Apaflóa (Monkey Bay) sem Íslendingar byggðu upp á sínum tíma.  Að minnsta kosti tvær konur fæddu börn utandyra við sjúkrahúsið í gær.

Ágústa segir að öll tæki og tól sem tilheyra viðkomandi deildum séu gjörónýt. Héraðsstjórnin og fulltrúar frá heilbrigðisráðuneytinu hafa setið á neyðarfundum í dag og hafa tekið saman lista um tjónið ásamt neyðaráætlun þar sem greind verða nauðsynleg  skammtíma- og langtímaúrræði.

„Ný fæðingardeild og barnaverndardeild við Mangochi spítalann, sem byggðar var innan Mangochi héraðsþróunarverkefnisins, eru um það bil tilbúnar til notkunar,“ segir Ágústa og bætir við að ráðið hafi verið starfsfólk og ennfremur að allur tækjabúnaðar sé fyrir hendi.  Einungis séu örfá atriði sem verktakinn á eftir að ganga frá og hann hafi tvær vikur til verksins. Að sögn Ágústu getur starfsemi fæðingardeildarinnar þá flust í nýju bygginguna til langframa og starfsemi barnaverndardeildarinnar gæti hafist ennþá fyrr.

Ágústa segir að sendiráðið hafi nú þegar tekið að sér að fjármagna flutninga á bóluefnum og ísskápum fyrir bóluefni frá Lilongwe til Mangochi.

  • $alt
  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum