Hoppa yfir valmynd
6. júní 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Framúrskarandi kennarar verðlaunaðir

Framúrskarandi kennarar verðlaunaðir - myndHÍ / Kristinn Ingvarsson
Yfir 1000 tilnefningar bárust menntavísindasviði Háskóla Íslands sem á dögunum leitaði eftir ábendingum um framúrskarandi kennara á Íslandi. Fjórir þeirra voru síðan verðlaunaðir við hátíðlega athöfn í dag, auk þess sem sérstök hvatningarverðlaun voru veitt.

Markmiðið með þessu framtaki menntavísindasviðs er að vekja athygli þjóðarinnar á kennarastarfinu; hversu áhugavert og skemmtilegt það er og hversu mikil áhrif kennarar geta haft bæði á einstaklinga og samfélagið í heild. Einkar ánægjulegt var hversu margar ábendingar bárust en valnefnd, skipuð fulltrúum HÍ, KÍ og kennaranema, fór yfir tilnefningar samkvæmt ákveðnum viðmiðum.

Við athöfnina afhenti mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, fjórum framúrskarandi kennurum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi viðurkenningu fyrir framlag sitt til kennslu: Gísla Hólmari Jóhannessyni kennara hjá Keili, Söru Diljá Hjálmarsdóttur í Höfðaskóla, Sigríði Ásu Bjarnadóttur sem starfar á leikskólanum Teigaseli og Valdimari Helgasyni kennara í Réttarholtsskóla. Hvatningarverðlaunin í ár hlaut Ingvi Hrannar Ómarsson, kennari við Árskóla, fyrir framsækin störf í þágu menntamála sem hafa vakið athygli á alþjóðavettvangi.

„Starf kennara byggir á sjálfstæði þeirra og fagmennsku, næmni fyrir einstaklingnum og þeim ólíku leiðum sem henta nemendum til að byggja upp hæfni sína. Kennarar eru mikilvægir áhrifavaldar í lífi sinna nemenda – þeir eru fyrirmyndir og eitt mikilvægasta hreyfiafl okkar til góðra verka og framfara í íslensku menntakerfi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra af þessu tilefni. „Ég óska þessum frábæru og framúrskarandi kennurum hjartanlega til hamingju með þessa útnefningu og færi þeim þakkir fyrir sín mikilvægu störf.“


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum