Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2007 Innviðaráðuneytið

Flugstoðir ohf. undirbúi samgöngumiðstöð í Reykjavík sem einkaframkvæmd

Samgönguráðherra og formaður stjórnar Flugstoða ohf. hafa skrifað undir viljayfirlýsingu þar sem Flugstoðum er falinn undirbúningur að byggingu og rekstri samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri í Reykjavík samkvæmt gildandi skipulagi. Nánari tilhögun undirbúnings og framkvæmdarinnar verður ákveðin síðar.

Skrifað undir viljayfirlýsingu um samgöngumiðstöð í Reykjavík.
Skrifað undir viljayfirlýsingu um samgöngumiðstöð í Reykjavík.

Tilefni viljayfirlýsingarinnar eru áætlanir um byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni sem muni þjóna flugi, Strætó bs., flugrútu og langferðabifreiðum, með tengingu við almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins, eins og fram kemur í minnisblaði samgönguráðherra og borgarstjóra frá 11. febrúar 2005, skýrslu undirbúningshóps frá 24. febrúar 2005, greinargerð vinnuhóps samráðsnefndar um samgöngumiðstöð dags. 20. nóvember 2006 og gildandi samgönguáætlun.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir það löngu brýnt að reisa samgöngmiðstöð við Reykjavíkurflugvöll. Með því sé sköpuð viðunandi aðstaða fyrir alla flugrekendur í innanlandsflugi og þjónusta við farþega bætt til muna bæði með nýju húsi og með góðri tengingu við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, rútuferðir og leigubíla og svo framvegis. Næstu skref lúti að því að ganga frá lóðamálum, leggja fram hugmyndir um stærð og nánari starfsemi miðstöðvarinnar og í framhaldi af því áætla fjármögnun og verktíma. Gert er ráð fyrir að verkið verði boðið út í einkaframkvæmd.

Í viljayfirlýsingunni kemur einnig fram að lagt sé til að norðaustur-suðvestur flugbrautin á Keflavíkurflugvelli verði tekin í notkun á ný. Um leið er Flugstoðum ohf. falið að leggja af samsvarandi braut á Reykjavíkurflugvelli.

Samgönguráðherra segir að með viljayfirlýsingunni sé stigið fyrsta skrefið til hefja þessa nauðsynlegu framkvæmd. Kveðst hann vona að bjóða megi út verkið á næsta sumri og að byggingartíminn verði sem skemmstur.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum