Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins betra en áætlað var

Uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2021 liggur fyrir. Uppgjörið í heild sinni er aðgengilegt á vef Fjársýslu ríkisins.

Helstu niðurstöður uppgjörsins eru:

  • Afkoma ríkissjóðs á fyrstu níu mánuðum ársins er neikvæð um 138 ma.kr. sem er þó 51 ma.kr. betri en áætlanir í upphafi árs gerðu ráð fyrir. Bætt afkoma skýrist af sterkari tekjuvexti en gert var ráð fyrir, sú þróun hafði þegar komið fram á fyrri helmingi ársins og er afkoman því í samræmi við væntingar.
  • Tekjur nema 621 ma.kr. en áætlanir gerðu ráð fyrir 565 ma.kr. og er það megin skýring á fráviki frá áætlaðri afkomu tímabilsins. Tekjur hækka um 16% frá sama tímabili fyrra árs.
  • Innheimta skatta og tryggingagjalda á fyrstu níu mánuðum ársins eykst um 14% frá sama tímabili í fyrra. Hluti aukningarinnar er þó tilkomin vegna áhrifa Covid-19 tengdra frestana á innheimtu ríkissjóðs. Ef leiðrétt er fyrir áhrifum þeirra er vöxturinn 6% frá fyrra ári.
  • Gjöld fyrir fjármagnsliði nema 733 ma.kr. sem er lítillega lægra en áætlað var, en gjöld aukast um 10% milli ára. Mesta aukningin á milli ára er í málaflokkunum sérhæfð sjúkrahúsþjónusta 6,8 ma.kr. eða 11%, vinnumál og atvinnuleysi 4,6 ma.kr eða 7% og háskólar og rannsóknarstarfsemi 4,3 ma.kr. eða 22%.
  • Afkoma fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 112 ma.kr. sem er 61 ma.kr. betri afkoma en áætlanir gerðu ráð fyrir.
  • Fjármagnsjöfnuður tímabilsins var neikvæður um 47 ma.kr. sem er 11 ma.kr. neikvæð breyting frá 2020. Fjármagnstekjur voru 7,5 ma.kr. og lækka um 38 ma.kr milli ára. Fjármagnsgjöld voru 55 ma.kr. og lækkuðu um 28 ma.kr.
  • Rekstrarafkoma án afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 159 ma.kr. sem er áþekkur halli og á sama tíma í fyrra en þá var rekstrarafkoman neikvæð um 168 ma.kr.
  • Eignir ríkissjóðs námu í lok september samtals 2.627 ma.kr, skuldir samtals námu 2.490 ma.kr. og eigið fé nam 137 ma.kr.
  • Handbært fé í lok september var 406 ma.kr., sem er hækkun um 39 ma.kr. Rekstrarhreyfingar voru neikvæðar um 145 ma.kr., fjárfestingarhreyfingar voru jákvæðar um 13 ma.kr og fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 171 ma.kr.
  • Langtímaskuldir voru samtals 1.222 ma.kr. í lok september og jukust um 138 ma.kr. frá árslokum 2020. Breytingin skýrist að mestu af útgáfu innlendra ríkisbréfa sem gefin voru út til þess að fjármagna rekstur ríkissjóðs.
  • Fjárfestingar tímabilsins námu 40 ma.kr. samanborið við 30 ma.kr. árið áður. Fjárfestingar milli ára aukast um 35% á milli ára og má það rekja til fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar til að bregðast við áhrifum heimsfaraldurs COVID-19. Mestar fjárfestingar eru í málaflokkunum samgöngur 24 ma.kr. og sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu 7,5 ma.kr.

Sundurliðun á tekjum ríkis og gjöldum niður á málefnasvið, málaflokka og ríkisaðila kemur fram í mánaðaruppgjöri sem Fjársýsla ríkisins birtir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum