Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2023 Utanríkisráðuneytið

Samhljómur um aukinn varnarviðbúnað og stuðning við Úkraínu

Utanríkisráðherrar bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins - myndAtlantshafsbandalagið

Stríðsrekstur Rússlands gegn Úkraínu, undirbúningur leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Washington í júlí á næsta ári, staðan á Vestur-Balkanskaga og átökin fyrir botni Miðjarðarhafs voru efst á baugi á tveggja daga utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins sem lauk í Brussel í dag. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra tók þátt í fundinum.

Mikill samhljómur er um mikilvægi þess að ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar um styrkingu á varnarviðbúnaði bandalagsins verði framfylgt og að öll bandalagsríki standi við skuldbindingar sínar um sameiginlegar varnir. Þá lögðu ráðherrar ríka áherslu á áframhaldandi stuðning við varnarbaráttu Úkraínu og vegferð landsins í átt að NATO-aðild, fjölbreyttar áskoranir af hálfu Kína, og mikilvægi samvinnu við samstarfsríki á Indó-Kyrrahafssvæðinu og við suðurjaðar bandalagsins.

„Ég fagna þeirri miklu einingu sem fram kom meðal bandalagsríkja enda stöndum við frammi fyrir afar krefjandi áskorunum í Evrópu og víðar á alþjóðavettvangi. Í ljósi þess hefur mikilvægi Atlantshafsbandalagsins sjaldan eða aldrei verið meira. Það er staðfastur vilji bandalagsríkja að styðja Úkraínu með ráðum og dáð. Fundurinn undirstrikar með skýrum hætti að öryggi Úkraínu er órjúfanlegur hluti þess að tryggja öryggi og frið í Evrópu. Ég ítrekaði áframhaldandi aðstoð Íslands til Úkraínu,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. 

Utanríkisráðherrarnir funduðu í fyrsta skipti á vettvangi NATO-Úkraínuráðsins með utanríkisráðherra Úkraínu, Dmytro Kuleba. Stofnun ráðsins sem samþykkt var á leiðtogafundinum í Vilníus fyrr á þessu ári endurspeglar kaflaskil í samskiptum NATO og Úkraínu. Á fundinum fór Kuleba yfir stöðuna í stríðinu, umbótavinnu og helstu mál fram að leiðtogafundinum í Washington. Þá var rætt um langvarandi stuðning við Úkraínu, meðal annars með framlögum í stuðningssjóð Atlantshafsbandalagsins og áherslur á að styðja við samhæfni liðsafla og uppbyggingu stofnana á sviði varnarmála.

Utanríkisráðherrar bandalagsins, með þátttöku utanríkismálastjóra ESB, ræddu einnig stöðuna á Vestur-Balkanskaga, meðal annars í ljósi nýlegra ofbeldisverka og spennu í Norður-Kósovó og tilrauna til að ýta undir sundrungu í Bosníu og Hersegóvínu. Ráðherrarnir undirstrikuðu mikilvægt hlutverk friðargæsluverkefnis bandalagsins (KFOR) í að styðja við öryggi í Kósovó, og stjórnvöld í Serbíu og Kósovó voru hvött til að hefja samningaviðræður á ný um lausn ágreiningsmála sín á milli. 

Utanríkisráðherra tók einnig þátt í fundi utanríkisráðherra Norðurlanda með annars vegar utanríkisráðherrum Benelúx-ríkjanna, Belgíu, Hollands og Lúxemborgar, og hins vegar með Kanada, auk samráðsfundar með ráðherrum Eystrasaltsríkjanna. Þá fundaði utanríkisráðherra  jafnframt tvíhliða með utanríkisráðherrum Eistlands og Tékklands þar sem tvíhliða samstarf ríkjanna og stuðningur við Úkraínu voru meðal annars til umræðu. 

 
  • Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum