Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vegna sölu ríkisins á jörðinni Vífilsstöðum

Ríkissjóður gerði á dögunum samning við Garðabæ um sölu á jörðinni Vífilsstöðum fyrir 560 m.kr. auk þess sem ríkissjóður á rétt á 60% hlutdeild í ábata af sölu byggingarréttar á svæðinu, sem fer umfram það sem gert var ráð fyrir við verðmat á landinu. Samningurinn um ábataskipti gildir til 40 ára.

Garðabær hefur um langt skeið átt í viðræðum við ráðuneytið um kaup á u.þ.b. 200 ha. lands sem eftir standa af jörðinni. Viðræður um kaupin voru endurnýjaðar á síðasta ári.

Oft hefur reynst erfitt að ákvarða verðmæti slíkra landssvæða því almennt hafa þessi svæði ríkisins annað hvort ekki verið skipulögð undir sérstök not, eru skipulögð sem útivistarsvæði eða eru skilgreind sem stofnanasvæði. Þegar viðræður um landið fóru fram lágu fyrir aðalskipulagsdrög af hálfu sveitarfélagsins sem gerðu ráð fyrir tiltekinni og afmarkaðri nýtingu á landinu. 

Það var samkomulag ríkis og sveitarfélags að fá tvo óháða og sérhæfða matsmenn til að vinna verðmat á landinu út frá umræddum aðalskipulagsdrögum. Matsmennirnir voru Stefán Gunnar Thors, sviðsstjóri Umhverfis og skipulags hjá VSÓ Ráðgjöf sem var tilnefndur af ríkinu og Jón Guðmundsson, löggiltur fasteignasali hjá Fasteignamarkaðnum ehf., tilnefndur af Garðabæ.Matsmennirnir náðu samkomulagi um sameiginlegt verðmat og var það lagt óbreytt til grundvallar við sölu landsins. 

Við matið var gengið út frá því að auk grunnverðs jarðarinnar yrði gert ráð fyrir ábataskiptingu seljanda og kaupanda verði nýting svæðanna aukin umfram fyrirliggjandi tillögu að aðalskipulagi. Sú aðferðarfræði byggist á því að búa til sameiginlega hvata þannig að bæði ríki og hlutaðeigandi sveitarfélög hafi hagsmuni af því að uppbygging og skipulag seldra svæða sé hagkvæm og nýting góð.

Verði byggingarmagn aukið á gildistíma samnings fær ríkið í sinn hlut 60% af söluverði byggingarréttar umfram hefðbundin gatnagerðargjöld, en sveitarfélagið 40%. Hlutur sveitarfélagsins þarf hins vegar að standa undir allri vinnu við aðal- og deiliskipulags landsins, kostnað við sölu og úthlutun lóða og öllum öðrum kostnaði við að koma landinu í not.

Ljóst er að ef skipulagi verður breytt á næstu áratugum og byggingarmagn aukið eða nýtingu svæðanna breytt fær ríkissjóður verulegan hlut af verðmæti byggingarréttar á svæðinu umfram metið grunnkaupverð. Gæti hlutur ríkisins í söluverði byggingarréttar orðið margfalt hærri en grunnkaupverð landsins, verði skipulagi breytt verulega. Slíkar ákvarðanir eru hins vegar á forræðis sveitarfélagsins sem hefur með höndum skipulagsvald innan marka þess.

Kaupsamningur ríkissjóðs við Garðabæ vegna Vífilsstaða

Verðmat á landi Vífilsstaða

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum