Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tillögur um úrræði fyrir börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnar í gær tillögur nefndar á vegum velferðarráðuneytisins um úrræði fyrir börn sem stríða við alvarlegar þroska- og geðraskanir. Meginefni tillagnanna snýr að því að fella þjónustu við hlutaðeigandi börn undir þjónustukerfi fatlaðra.

Í nefndinni áttu sæti fulltrúar Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar, Barna- og unglingageðdeildar (BUGL), Geðdeildar Landspítala, Barnaverndarstofu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og velferðarráðuneytis. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir tillögur nefndarinnar snúast um mikilvægar úrbætur á þjónustu við börn í þessari stöðu og fjölskyldur þeirra. Nú sé nauðsynlegt að finna tillögunum farveg þannig að unnt verði að hrinda þeim í framkvæmd.

Nefndin var sett á fót í kjölfar þess að nokkur sveitarfélög höfðu vakið athygli velferðarráðuneytisins á vanda barna og fjölskyldna þeirra sem eru í mikilli þörf fyrir öflug og samhæfð úrræði vegna alvarlegra geð- og þroskaraskana. Þetta eru að jafnaði á bilinu átta til tólf börn á hverjum tíma. Sum þeirra hafa árum saman þurft að fara á milli tímabundinna úrræða innan barnaverndarkerfisins og aðstæður þeirra reyna mjög á fjölskyldur þeirra og systkini. Vandi barnanna er slíkur að þau geta ekki búið hjá foreldrunum og hafa sveitarfélögin útbúið sérstakar lausnir, meðal annars íbúðir fyrir einstök börn með mikilli og kostnaðarsamri þjónustu.

Hlutverk nefndar velferðarráðuneytisins var að finna málum barnanna farveg í velferðarkerfinu og huga að búsetu sem gæti varað fram fyrir 18 ára aldur. Í starfi sínu skoðaði nefndin tengsl og mörk barnaverndar sem í eðli sínu er tímabundin þjónusta og þjónustu á sviði málefna fatlaðra. Niðurstaða nefndarinnar er að þjónusta við þau börn sem um ræðir eigi í meginatriðum heima innan þjónustukerfis fatlaðs fólks þar sem til staðar er þekking og reynsla af mismunandi fötlunum og aðgengi að mikilvægri nærþjónustu sveitarfélaga og undirstrikar að börnin þurfa varanlega þjónustu. Lögð er áhersla á aðgengi að sérfræðiþekkingu og þjónustu á sviði geðraskana og að ekki verði sérstök skil í þjónustu við börnin við 18 ára aldur. Með því að fella þjónustu við börnin undir málefni fatlaðs fólks er þeim tryggð samfelld þjónusta eftir að þau verða fullorðin í samræmi við um málefni fatlaðs fólks. Jafnframt er bent á vanda sem kann að skapast þegar viðkomandi nær lögræðisaldri 18 ára og brýnt að þær aðstæður verði athugaðar í samræmi við lög um réttindagæslu fatlaðs fólks.

Tillögur nefndarinnar sem félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti ríkisstjórn eru eftirfarandi:

1. Búseta: Sveitarfélögin tryggi langtímabúsetu þar sem komið er til móts við þarfir barns, eftir atvikum, í sérútbúnu úrræði í grennd við heimili foreldra. Miða skal við að búsetan geti varað eftir 18 ára aldur.

2. Samhæfð þjónusta: Þjónusta sveitarfélags felur í sér umsjón með þjónustuþörf og veitingu þjónustu á vegum sveitarfélags, gerð þjónustusamninga milli sveitarfélags og BUGL og að nauðsynleg þjónusta ríkisstofnana sé tryggð.

3. Snemmtæk íhlutun: Áhersla er lögð á að bæði heilsugæslan og sveitarfélögin gefi börnum með alvaralegan atferlisvanda sérstakan gaum og sérfræðingar á sviði fötlunar séu kallaðir til tímalega þegar einkenna verður vart svo að koma megi í veg fyrir varanlegan alvarlegan vanda barns þegar það vex úr grasi.

4. Fjármál: Forsenda þess að sveitarfélögin geti tekið að sér þjónustu við börnin og fjölskyldur þeirra er að við mat á kostnaði sveitarfélaganna við þjónustu við fatlað fólk verði þjónustuþarfir þessara fáu barna metnar sérstaklega. Þetta verði tekið til sérstakrar umfjöllunar og mats við endurskoðun á yfirfærslu málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaga. Lagt verði mat á fjárhagsleg áhrif framkvæmdar tilagnanna, matinu hraðað svo sem kostur er og sérstakt samkomulag gert vegna kostnaðarins enda er hér um hóp barna að ræða sem ekki var tekinn með í reikninginn þegar málaflokkurinn var fluttur til sveitarfélaganna á sínum tíma.

5. Stofnun ráðgefandi teymis: Teymið verði tilraunaverkefni, sem veiti sveitarfélögum ráðgjöf. Hlutverk teymisins yrði annars vegar ráðgjöf og leiðbeiningar um þjónustu og annan stuðning svo að koma megi í veg fyrir að barn flytjist að heiman í sérútbúið úrræði og hins vegar mat á því hvort barn þurfi að flytjast að heiman í sérútbúið úrræði, og þarf matið að liggja fyrir áður en ákvörðun í máli barns er tekin.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum