Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2012 Utanríkisráðuneytið

Frestur til að sækja um framlag til neyðaraðstoðar eða þróunarsamvinnuverkefna til 15. mars 2012

Malavívatn
Malavívatn

Á fjárlögum 2012 er gert ráð fyrir 174 milljón króna framlagi til neyðar- og mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnuverkefna á vegum frjálsra félagasamtaka sem úthlutað er tvisvar á ári, vor og haust. Helmingur upphæðarinnar verður til úthlutunar í vor og er frestur til að skila inn umsóknum til 15. mars nk. Síðari umsóknarfrestur ársins er til 15. september. Á síðasta ári voru um 104 milljónir til úthlutunar en þá voru neyðar og mannúðarverkefni í forgangi þannig að félagasamtök sem vinna að þróunarverkefnum áttu þess ekki kost að fá styrki. Styrkþegar árið 2011 voru m.a. ABC barnahjálp, Barnaheill, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði Kross Íslands, og SOS barnaþorp. Meginhluti styrkjanna rann til verkefna þessara félagasamtaka á neyðarsvæðum í Afríku.

Sérstakar verklagsreglur utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands kveða á um skilyrði fyrir styrkveitingum og viðmið við mat umsókna. Samkvæmt reglunum skulu félagasamtök sem óska stuðnings uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Vera löglega skráð á Íslandi, ekki rekin í hagnaðarskyni og hafa starfað minnst í tvö ár.
  • Félagsmenn eða styrktaraðilar séu minnst 30 talsins.
  • Hafa sett sér lög, hafa stjórn og stjórnarformann.
  • Hafa lagt fram ársreikninga með undirskrift löggilts endurskoðanda undangengin tvö ár.
  • Hafa reynslu af störfum í þróunarríkjum eða starfa náið með samtökum, alþjóðlegum eða innlendum, sem búa yfir slíkri reynslu.
  • Að félagasamtökin taki tillit til jafnréttissjónarmiða í starfi sínu á vettvangi.

Sækja má um styrk til verkefna sem unnin eru í eigin nafni, verkefna sem vinnast í samstarfi við samtök í móttökulandinu og til verkefna á vegum alþjóðlegra samtaka. Styrkþegi skal ef kostur er taka virkan þátt í verkefninu ef þriðji aðili innir þau af hendi. Slík hlutdeild getur falist í undirbúningi, eftirliti, úttekt eða útsendu starfsliði.

Einungis er tekið við umsóknum sem skilað er inn á þar til gerðum eyðublöðum. Nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð er að finna á vef utanríkisráðuneytisins.

Styrkveitendur áskilja sér rétt til að kalla eftir viðbótargögnum ef þörf krefur.

Nánari upplýsingar veitir Svanhvít Aðalsteinsdóttir í síma 545 7435, netfang: [email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum