Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2012 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 10/2012

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

Samtök meðlagsgreiðenda fyrir hönd

A

gegn

sýslumanninum á Akureyri og innanríkisráðuneytinu

Kærufrestur. Mismunun.

Kærandi taldi að úrskurður sýslumanns, sem staðfestur var af dóms- og kirkjamálaráðuneytinu 22. febrúar 2006, sem kveðinn var upp á grundvelli 57. gr. barnalaga nr. 76/2003, um að honum beri að greiða meðlag umfram einfalt meðlag með barni sínu bryti í bága við lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar sem það er ekki á valdsviði kærunefndar jafnréttismála að endurskoða úrskurði kveðna upp á grundvelli barnalaga var málinu vísað frá.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 2. nóvember 2012 er tekið fyrir mál nr. 10/2012 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Samtök meðlagsgreiðenda fyrir hönd A, lögðu fram kæru til kærunefndar jafnréttismála, dagsetta 27. september 2012. Kærður er úrskurður sýslumannsins á Ólafsfirði, kveðinn upp 19. apríl 2005, sem kveður á um að kærandi greiði barnsmóður sinni meðlag umfram lágmarksmeðlag vegna barns þeirra. Embætti sýslumannsins á Ólafsfirði hefur nú verið sameinað sýslumannsembættinu á Akureyri. Einnig er kærður úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins (nú innanríkisráðuneyti) frá 22. febrúar 2006 sem staðfesti úrskurð sýslumanns.

    MÁLAVEXTIR

  3. Barnsmóðir kæranda lagði fram beiðni þann 23. febrúar 2005 hjá sýslumanninum á Ólafsfirði þess efnis að kærandi greiddi henni aukið meðlag með barni þeirra umfram einfalt meðlag sem hann greiðir á grundvelli staðfests samkomulags þeirra frá árinu 2004. Sýslumaður úrskurðaði þann 19. apríl 2005, á grundvelli 2. mgr. 57. gr. barnalaga nr. 76/2003, að kærandi skyldi greiða barnsmóður sinni aukið meðlag til viðbótar því lágmarksmeðlagi sem hann greiddi samkvæmt hinum staðfesta samningi. Samkvæmt þeirri lagaheimild er kveðið á um að meðlag skuli ákveða með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra. Fyrir lá að mikill tekjumunur var á milli kæranda og barnsmóður hans. Kærandi kærði úrskurðinn til dóms- og kirkjumálaráðuneytis þann 16. júní 2005, en kæruheimild er í 78. gr. sömu laga. Ráðuneytið staðfesti úrskurð sýslumanns þann 22. febrúar 2006. Kærandi lagði fram beiðni þann 8. apríl 2009 til sýslumannsins á Akureyri þar sem hann óskaði eftir niðurfellingu aukameðlagsins. Með úrskurði þann 31. júlí 2009 hafnaði sýslumaður kröfu kæranda.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  4. Kærandi vill fá úr því skorið hjá kærunefnd jafnréttismála hvort sýslumaðurinn á Ólafsfirði hafi brotið á sér á grundvelli óbeinnar mismununar þegar hann úrskurðaði um aukið meðlag á grundvelli aðstöðu- og tekjumunar foreldra. Hann telur ljóst að hann sé látinn gjalda fyrir félagslega stöðu barnsmóðurinnar, sem ekki sé á hans ábyrgð, né sé á valdi hans að breyta.
  5. Kærandi rekur að þegar hann hafi skilið við barnsmóður sína hafi hann hætt að bera ábyrgð á félagslegri og fjárhagslegri stöðu hennar. Eftir skilnaðinn hafi verið á brattann að sækja hjá barnsmóðurinni og hafi hún sótt um aukið meðlag á grundvelli félagslegrar stöðu og hafi fengið hagfelldan úrskurð sýslumanns. Að mati kæranda sé félagsleg staða barnsmóður ekki á hans ábyrgð heldur stjórnvalda, en þau hafi skyldur til að koma í veg fyrir örbirgð hennar jafnt sem annarra íslenskra borgara, sbr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.
  6. Kærandi sjái ekki hvernig sé hægt að gera hann ábyrgan fyrir ákvörðunum og félagslegum horfum barnsmóður. Kærandi vilji af þessum sökum fá úr því skorið hjá kærunefnd jafnréttismála hvort sýslumaðurinn á Ólafsfirði hafi brotið gegn sér á grundvelli óbeinnar mismununar þegar hann úrskurðaði aukin meðlög á grundvelli aðstöðu- og tekjumunar foreldra.

    NIÐURSTAÐA

  7. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
  8. Kveðið er á um það í 57. gr. barnalaga nr. 76/2003 að það sé á verksviði sýslumanna og dómstóla að kveða á um meðlagsgreiðslur til að fullnægt sé framfærsluskyldu foreldra með börnum sínum. Í þeim tilvikum sem sýslumenn úrskurða um meðlagsgreiðslur samkvæmt ákvæði þessu er það í valdi ráðherra sem æðra stjórnvalds að leysa úr kærum, uni aðili ekki við úrskurð sýslumanns sbr. 78. gr. laganna. Um meðferð slíks kærumáls fer samkvæmt stjórnsýslulögum, sbr. VII. kafla laga nr. 37/1993.
  9. Samkvæmt framansögðu sæta úrskurðir sýslumanna sem kveðnir eru upp um rétt barna til meðlags til framfærslu frá foreldrum endurskoðun ráðherra sem æðra stjórnvalds. Sá sem ekki vill una úrskurði æðra stjórnvalds getur leitað fulltingis dómstóla til að fá þeim úrskurði hnekkt. Kærunefnd jafnréttismála er ekki til þess bær að lögum að endurskoða úrskurði sýslumanna eða ráðherra í þessum efnum. Ber því að vísa máli þessu frá nefndinni.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum