Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2023 Matvælaráðuneytið

Samningar undirritaðir við Grænland um loðnu og gullkarfa

Skip á loðnuveiðum. - myndGolli

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra lagði í morgun fyrir ríkisstjórn minnisblöð um undirritun samninga milli Íslands og Grænlands um skiptingu loðnu og gullkarfa.

Samkvæmt samningni um loðnu eykst hlutdeild Íslands um 1% úr 80% í 81%, Grænlands úr 15% í 18% og hlutdeild Noregs fer úr 5% í 1%, kjósi Noregur að gerast aðili að samkomulaginu. Aðgangur Grænlands er óbreyttur frá fyrri samningi en Ísland fær aðgang að grænlenskri lögsögu með svæðatakmörkunum.

Kjósi Noregur að standa utan samningsins verða engu að síður sett til hliðar 1% fyrir Noreg. Nái Noregur ekki að veiða 1% í lögsögu Jan Mayen, þá mun prósentustigið skiptast milli Íslands og Grænlands í hlutföllunum 81 á móti 18 frá og með 1. janúar á hverju veiðitímabili.

Samið var um að Grænlendingar fengju aðgang til veiða á allt að 10.000 tonnum af eigin kvóta af makríl í íslenskri lögsögu. Heimildin er háð því að einungis tvö skip geti stundað veiðar og er skilyrði að íslenskur eftirlitsmaður sé um borð til þess að fylgjast með mögulegum meðafla. Íslensk skip fá svipaðar heimildir í grænlenskri lögsögu.
 
Í samningi um gullkarfa var samið við Grænlendinga um að setja inn sektarákvæði vegna umframveiði og mun allur kvóti umfram leyfilega 5% umframveiði vera fluttur frá því ríki sem veiðir of mikið yfir til hins samningsríkisins.

Samningurinn felur í sér að hlutdeild Íslands verður 89% (var 90%) og Grænlands 11% (var 10%). Þá eru sett til hliðar 300 tonn (voru 350 tonn) fyrir Færeyjar og eru þau dregin af heildaraflamarki áður en úthlutun milli Íslands og Grænlands er skipt.

Ísland mun fá ítarlegri upplýsingar um afdrif kvóta gullkarfa sem Grænland selur til annarra ríkja. Munu eftirlitsstofnanir ríkjanna útbúa kerfi til þess sem tekur gildi eftir 12 mánuði.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum