Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2009 Innviðaráðuneytið

Ríki og sveitarfélög ræða samskiptareglur og efnahagsráðstafanir

Nefnd sem skipuð var til að fylgja eftir samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga hefur fundað stíft að undanförnu og meðal annars fjallað um húsaleigubætur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og aðrar efnahagsráðstafanir og samskiptareglur ríkis og sveitarfélaga.

Samstarfssáttmáli ríkis og sveitarfélaga hefur þann tilgang að auka traust og formfestu í samskiptum aðila, bæta stjórnsýslu hins opinbera og efla gagnkvæman skilning á viðfangsefnum og þörum hvors aðila fyrir sig. Nefndin sem skipuð var á grundvelli samstarfssáttmálans hefur meðal annars fjallað um hvernig unnt er að bæta verkferla og samskipti ríkis og sveitarfélaga en hún er skipuð fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, samgönguráðuneytis og fjármálaráðuneytis.

Heimilt er að vísa til nefndarinnar málum ríkisstjórnarinnar er varða nýja löggjöf eða reglur sem snerta sveitarfélög, verkefni þeirra, tekjustofna og óskir sveitarfélaga um breytingar á lögum og reglum, einnig álitamálum um kostnaðarskiptingu og ábyrgð aðila og um kostnaðaráhrif nýrra laga og reglugerða gagnvart sveitarfélögum.

Í nefndinni sitja Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytis sem jafnframt er formaður hennar, Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi sem eru fulltrúar sambandsins, og Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Þá starfa með nefndinni þeir Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneyti. Á síðasta fund nefndarinnar sátu einnig Elín Pálsdóttir og Jóhannes Finnur Halldórsson frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og Sigurður Snævarr borgarhagfræðingur.



Jónsmessunefnd fundar í samgönguráðuneyti.    
Nefndin hélt fund í samgönguráðuneytinu mánudaginn 6. júlí. Frá vinstri: Hermann Sæmundsson, Ragnhildur Hjaltadóttir, Elín Pálsdóttir, Jóhannes Finnur Halldórsson, Indriði H. Þorláksson, Karl Björnsson, Sigurður Snævarr og Dagur B. Eggertsson.      

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum