Hoppa yfir valmynd
11. október 2012 Forsætisráðuneytið

Tíu milljónum króna varið til fullgildingar mannréttindasáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Á annað hundrað manns sitja nú málþing í Reykjavík um innleiðingu og eftirlit með mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir fatlað fólk. Ísland hefur skrifað undir sáttmálann og vinnur ríkisstjórnin nú að fullgildingu hans. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í ávarpi sínu við upphaf málþingsins að ríkisstjórnin hefði ákveðið síðastliðinn þriðjudag að verja 10 milljónum króna til að ljúka megi fullgildingu sáttmálans.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flytur ávarp á málþingi um mannréttindasáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flytur ávarp á málþingi um mannréttindasáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Málþingið er haldið á vegum Öryrkjabandalagsins, innanríkisráðuneytis, velferðarráðuneytis, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. Auk Ögmundar Jónassonar flytur Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ávarp. Málþingið er haldið í Hörpu og stendur fram eftir degi.

Fyrirlesarar eru bæði innlendir og erlendir sérfræðingar um málefni fatlaðra, m.a. Stig Langvad, formaður danska öryrkjabandalagsins sem ræddi um þátttöku fatlaðs fólks við innleiðingu sáttmála SÞ, Javier Güemes, aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópusamtaka fatlaðra, sem fjallaði um reynslu ESB af innleiðingu sáttmálans, Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands sem fjallaði um aðkomu fatlaðs fólks að innleiðingu og eftirliti með sáttmálanum, Rún Knútsdóttir, lögfræðingur í velverðarráðuneytinu, ræðir endurskoðun réttindagæslu fyrir fatlað fólk og María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu, flytur erindi um stöðu Íslands í alþjóðlegu ljósi með hliðsjón af innleiðeingu sáttmálans. Á síðasta hluta málþingsins munu fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum veita viðbrögð við efni málþingsins og í lokin verða umræður.

Frá málþingi um mannréttindasáttmála SÞ 11. október.

Taka þarf skuldbindingar alvarlega

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði að íslensk stjórnvöld hafi með undirritun sinni á sáttmálanum tekið fyrsta skrefið að fullgildingu, undirritunin væri fyrsta skrefið, næsta væri fullgildingin. Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld taki alvarlega skuldbindingar sínar á grundgvelli alþjóðlegra samninga. Raunveruleg réttarbót á grundvelli slíkra samninga væri að ráðast í breytingar á landslögum og að viðhorf og framkvæmdin heima fyrir breyttist. Hann sagði stjórnvöld ekki eiga að undirgangast neinar skuldbindingar nema að hugur fylgdi máli og sagði samtök á borð við Öryrkjabandalag Íslands gegna mikilvægu hlutverki. Þakkaði hann samstarf við Guðmund Magnússon, formann ÖBÍ. Sagði hann samstarfið hafa verið gott og hefði verið fólgið í jákvæði og uppbyggilegu aðhaldi og eftirrekstri.

Innanríkisráðherra greindi frá nokkrum úrbótum á sviði lagabreytinga sem orðið hefðu á síðasta ári, svo sem með nýjum lögum um réttindagæslu fatlaðs fólks, með viðurkenningu íslenska táknmálsins með lögum og að árið 2010 hefðu verið sett lög um mannvirki og ný byggingarreglugerð sem tækju mið af ákvæðum sáttmálans um aðgengi fatlaðs fólks. Þá sagði hann aðgengi að opinberum vefjum hafa verið stórbætt og að nú lægi fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á kosningalögum þar sem gert væri ráð fyrir að einstaklingur sem ekki geti hjálparlaust greitt atkvæði í kosningum ráði því sjálfur á hvern hátt honum er veitt aðstoð.

Ráðherra greindi frá því að á fundi sínum síðastliðinn þriðjudag hefði ríkisstjórnin ákveðið að veita 10 milljónum króna til að ljúka þeim verkum sem útaf stæðu svo að fullgilda megi sáttmálann um réttindi fatlaðs fólks. Skipuð yrði samstarfsnefnd ráðuneyta til að undirbúa fullgildinguna og að öll ráðuneyti myndu yfirfara löggjöf á sínu málefnasviði og leggja til breytingar til samræmis við sáttmálann. ,,Öll ráðuneyti koma að vinnunni, enda varða hagsmunir fatlaðs fólks alla þætti samfélagsins,” sagði ráðherra meðal annars.

Frá málþingi um mannréttindasáttmála SÞ 11. október.

Undir lok ræðunnar sagði innanríkisráðherra: ,,Við erum nú að skoða þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir staðráðin í því að verða við þeim og þannig að markmiðin sem að er stefnt náist. Þar er að ýmsu að hyggja. Smátt samfélag kann að leita annarra lausna en stórt. Við þurfum að hyggja að samlegðaráhrifum og því hvernig fjármunir nýtist sem best. Í mínum huga er stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar ekki spurning um hvort heldur hvenær hún verður að veruleika því eitt er víst að við verðum og viljum axla skyldur okkar á grundvelli 33. gr. sáttmálans um eftirlit. Á markvissan og ígrundaðan hátt þurfum við að komast að niðurstöðu. Að því er nú stefnt. Erindi og umræður hér í dag verða mikilvægt innlegg í þá vinnu.”

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum