Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2023

Mál nr. 96/2023 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 96/2023

Fimmtudaginn 13. apríl 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. febrúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. febrúar 2023, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 1. desember 2021 og var umsóknin samþykkt 4. janúar 2022. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 14. desember 2022, var kæranda tilkynnt að stofnuninni hefðu borist þær upplýsingar að hún hefði verið erlendis samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta og án þess að hafa tilkynnt stofnuninni um dvölina. Óskað var eftir skýringum frá kæranda vegna þessa, auk flugfarseðla. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs og flugfarseðlar bárust 19. desember 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. febrúar 2023, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar yrði felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímbilsins sem hún var erlendis, að fjárhæð 281.342 kr., sem yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 2. mars 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 22. mars 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. mars 2023. Athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að hún sé ósammála ákvörðun Vinnumálastofnunar sem hún vilji halda áfram að áfrýja og fara með fyrir dómstóla ef þörf krefji. Í fyrsta lagi, til að skýra dvöl hennar á landinu, hafi kærandi þann 11. janúar 2022 farið í aðgerð í sínu heimalandi (B). Í maí sama ár hafi kærandi farið í endurkomutíma sem sé að hluta til dvöl hennar í heimalandinu. Einnig hafi hún farið í frí með fjölskyldunni, sérstaklega vegna aldraðs föður kæranda. Á þessum tíma hafi kærandi ekki fengið nein skilaboð, enga tölvupósta, engin símtöl eða boð um fundi frá Vinnumálastofnun. Í september 2022 hafi Vinnumálastofnun byrjað að senda kæranda tölvupóst vegna hópfundar og annan vegna atvinnuleitar. Allar fjarvistir kæranda hafi verið afsakaðar með læknisvottorði þar sem hún hafi verið frekar veik. Þær fjarvistir hafi verið réttlætanlegar.

Kærandi vísar til þess að henni hafi ekki verið kunnugt um að það þyrfti að tilkynna Vinnumálastofnun um orlof erlendis. Kærandi viti um marga sem hafi ferðast til útlanda án þess að tilkynna Vinnumálastofnun, bæði útlendinga og Íslendinga. Kærandi eigi rétt á atvinnuleysisbótum þar sem hún hafi verið að vinna. Kærandi sé ekki sú eina sem hafi farið til útlanda, án tilkynningar til Vinnumálastofnunar. Að mati kæranda eigi lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar ekki við um hana þar sem hún hafi ekki búið utan Íslands. Kærandi hafi verið með sama heimilisfang, hafi haldið áfram að borga húsaleigu, eiginmaður hennar hafi haldið áfram í vinnu sinni og allt hafi verið eins og áður. Kærandi hafi einungis farið í endurkomu vegna aðgerðar og til að vera með fjölskyldu sinni. Ákvæði c-liðar 13. gr. laganna eigi við um hennar aðstæður þar sem hún sé búsett og eigi lögheimili á Íslandi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta til Vinnumálastofnunar með umsókn, dags. 1. desember 2021. Með erindi, dags. 4. janúar 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Upphaf máls þessa megi rekja til þess að í nóvember 2022 hafi vaknað sá grunur að kærandi væri erlendis samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun. Kærandi hafði verið boðuð til viðtals á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar en hafi ekki mætt. Með erindi, dags. 10. nóvember 2022, hafi þess verið óskað að kærandi veitti stofnuninni skýringar á ástæðum þess að hún hafi ekki mætt til boðaðs viðtals, auk flugfarseðla hefði hún verið erlendis. Stofnuninni hafi borist læknisvottorð frá kæranda vegna fjarveru hennar í umræddu viðtali en engin gögn hafi borist vegna ferða hennar erlendis.

Með erindi, dags. 21. nóvember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að bótaréttur hennar hefði verið felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sú ákvörðun hafi síðar verið staðfest með erindi, dags. 28. nóvember 2022. Ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 28. nóvember 2022. Um nánari málsatvik í máli kæranda vísi Vinnumálastofnun til þeirra gagna og greinargerðar sem hafi borist úrskurðarnefndinni vegna umrædds máls.

Í kæru, sem hafi borist úrskurðarnefndinni þann 28. nóvember 2022, hafi kærandi meðal annars skýrt frá því að hún hefði verið erlendis. Þær skýringar hafi gefið Vinnumálastofnun tilefni til að óska frekari upplýsinga frá kæranda, enda hafi kærandi ekki áður skýrt stofnuninni frá dvöl sinni erlendis. Með erindi, dags. 14. desember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að stofnuninni hefðu borist þær upplýsingar að hún hefði verið erlendis samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysisbóta og án þess að hafa tilkynnt stofnuninni um dvöl sína erlendis. Þess hafi verið óskað að kærandi afhenti stofnuninni flugfarseðla, auk skýringa á ástæðum þess að hún hafi ekki tilkynnti stofnuninni fyrir fram um ferð sína erlendis.

Þann 14. desember 2022 hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda. Kærandi hafi greint frá því hún hefði ferðast til B í apríl og snúið aftur til Íslands í lok maí. Hún hafi ekki vitað að henni bæri að tilkynna stofnuninni um ferðir sínar erlendis. Hún hafi ferðast til B til að leita læknisaðstoðar og til þess að hitta aldraðan föður sinn en hann væri alvarlega veikur. Þann 19. desember 2022 hafi Vinnumálastofnun borist flugfarseðlar frá kæranda. Samkvæmt þeim gögnum hafi kærandi ferðast til útlanda þann 27. apríl 2022 og til baka til Íslands þann 28. maí 2022. Í kjölfar skýringanna hafi það verið mat Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna ótilkynntrar dvalar erlendis. Við meðferð máls kæranda hjá Vinnumálastofnun hafi ákvörðun stofnunarinnar, dags. 21. nóvember 2022, um niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verið afturkölluð fyrir mistök með erindi, dags. 27. desember 2022. Ákvörðun stofnunarinnar, dags. 21. nóvember 2022, hafi þá hins vegar enn verið til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála í máli nr. 554/2022. Úrskurðarnefndin hafi síðar birt úrskurð sinn í umræddu máli þann 12. janúar 2023 þar sem ákvörðun Vinnumálastofnunar um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið staðfest. Eins og áður segi hafi Vinnumálastofnun þá þegar afturkallað umrædda ákvörðun. Vinnumálastofnun biðjist velvirðingar á þessum mistökum.

Með erindi, dags. 15. febrúar 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að bótaréttur hennar hefði verið felldur niður í tvo mánuði þar sem hún hafi látið hjá líða að tilkynna stofnuninni fyrir fram um dvöl sína erlendis. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi jafnframt verið tilkynnt að í ljósi þess að hún hefði ekki uppfyllt skilyrði til greiðslu atvinnuleysisbóta þann tíma sem hún hafi verið erlendis bæri henni að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 27. apríl til 28. maí 2022, samtals að fjárhæð 281.342 kr. Ofgreiddar atvinnuleysisbætur yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda vegna ótilkynntrar dvalar erlendis og þá ákvörðun stofnunarinnar að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem kærandi hafi fengið greiddar á tímabilinu 27. apríl til 28. maí 2022.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virki atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. Í c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum.

Í 3. mgr. 9. gr. er mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar. Þar segi:

„Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.“

Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna.“ Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu atvinnuleitanda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti.

Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög við brotum á þessari upplýsingaskyldu hins tryggða, en þar segi orðrétt:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur vísvitandi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Fyrir liggi að kærandi hafi dvalið erlendis frá 27. apríl til 28. maí 2022. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjanda um greiðslur atvinnuleysistrygginga að vera í virkri atvinnuleit. Það sé jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um þessa utanlandsferð sína, líkt og henni hafi borið samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi því verið beitt viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna.

Í skýringum sínum til Vinnumálastofnunar og í kæru til úrskurðarnefndarinnar greini kærandi frá því að henni hafi ekki verið kunnugt um að henni bæri að tilkynna stofnuninni um ferðir sínar erlendis. Kærandi vísi jafnframt til þess að hún viti um fjölda fólks sem ferðist til útlanda, án þess að láta stofnunina vita. Í þessu samhengi vísi Vinnumálastofnun til þess að við móttöku umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur hafi kæranda verið greint frá því að ítarlegar upplýsingar um réttindi hennar og skyldur væri að finna á heimasíðu stofnunarinnar. Þá hafi kæranda jafnframt verið bent á að tilkynna þyrfti Vinnumálastofnun fyrir fram um allar ferðir til útlanda. Kæranda hljóti því að hafa verið ljóst að henni bæri að tilkynna stofnuninni um ferð sína til útlanda. Með vísan til framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda séu ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að hún hafi ekki uppfyllt upplýsinga- og trúnaðarskyldu sína gagnvart stofnuninni, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sú skylda atvinnuleitanda sem þiggi atvinnuleysisbætur að tilkynna fyrir fram um utanlandsferðir sínar sé fortakslaus, enda sé um að ræða upplýsingar um atvik sem hafi bein áhrif á rétt atvinnuleitanda til greiðslu atvinnuleysisbóta. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í ljósi þess að kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um ferð sína til útlanda hafi hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 27. apríl til 28. maí [2022], samtals að fjárhæð 281.342 kr. Ofgreiddar atvinnuleysisbætur beri að innheimta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar segi orðrétt:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Ljóst sé að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði til greiðslu atvinnuleysisbóta á þeim tíma er hún hafi verið erlendis, sbr. c-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Henni beri því að endurgreiða þá fjárhæð sem hún hafi fengið greidda á umræddu tímabili. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sem nemi að hámarki 25% af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum. Kæranda hafi verið tilkynnt með erindi, dags. 15. febrúar 2023, að ofgreiddar atvinnuleysisbætur til hennar yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt sé það niðurstaða stofnunarinnar að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 281.342 kr., í samræmi við 2. mgr. 39. gr. sömu laga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 þar sem fram kemur að launamaður sé tryggður samkvæmt lögunum sé hann búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi stödd erlendis á tímabilinu 27. apríl til 28. maí 2022 en tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrir fram um ferð sína. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi ekki haft vitneskju um að hún þyrfti að tilkynna Vinnumálastofnun fyrir fram um ferð sína.

Þann 6. desember 2021 var kæranda tilkynnt á ensku að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Kæranda var meðal annars greint frá því að tilkynna þyrfti Vinnumálastofnun fyrir fram um ferðir erlendis á „Mínum síðum“. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér upplýsinga um tilkynningarskyldu vegna ferða erlendis.

 

Í ljósi framangreindrar upplýsingaskyldu verður fallist á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum er hún tilkynnti ekki fyrir fram um ferð sína erlendis. Í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er skýrt kveðið á um viðurlög við slíku broti.

Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur vegna tímabilsins sem kærandi var erlendis. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Þegar kærandi var erlendis á tímabilinu 27. apríl til 28. maí 2022 uppfyllti hún ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um að vera stödd hér á landi. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Líkt og áður greinir tilkynnti kærandi ekki Vinnumálastofnun fyrir fram um ferð sína til útlanda og er því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. febrúar 2023, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

_________________________________

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum