Hoppa yfir valmynd
29. mars 1999 Dómsmálaráðuneytið

Leiðbeiningar um utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra o.fl., nr. 120 20. mars 1991

I. Um atkvæðagreiðslu á stofnunum.
1. gr.

Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. laga um kosningar til Alþingis er utankjörfundarkjörstjóra innan lands heimilt að láta kosningu fara fram á sjúkrahúsi, dvalarheimili aldraðra eða stofnun fyrir fatlaða, enda sé kjósandi til meðferðar á hlutaðeigandi stofnun eða vistmaður þar. Með sama hætti fer um fangelsi og vistmenn þar.

2. gr.

Rétt til að greiða atkvæði utan kjörfundar á stofnunum þessum hafa eingöngu þeir sem dveljast þar og eru þar til meðferðar eða eru vistmenn þar. Aðrir, svo sem starfslið stofnananna, hafa hins vegar ekki rétt til að greiða þar atkvæði.

3. gr.

Kjörstjóri skal ákveða, að höfðu samráði við stjórn hlutaðeigandi stofnunar og að fengnum upplýsingum um þá sem þar eru til meðferðar eða eru þar vistmenn, hvort ástæða sé til að láta atkvæðagreiðslu fara þar fram og á hvenær.
Ákvörðun um þetta efni skal tekin eigi síðar en sjö dögum fyrir kjördag og skal þá birt auglýsingu innan hlutaðeigandi stofnunar um það hvar atkvæðagreiðslan fer fram og á hvaða tíma. Jafnframt skal tilkynna umboðsmönnum framboðslista um atkvæðagreiðsluna fyrirfram.
Að jafnaði myndi nægilegt að atkvæðagreiðsla fari fram einn dag í hverri stofnun, í nokkrar klukkustundir, eftir fjölda þeirra sem rétt mundu eiga á að greiða atkvæði utan kjörfundar á stofnuninni.

4. gr.

Nauðsynlegt er að hlutaðeigandi stofnun láti í té aðstöðu, þ.á m. hentugt húsnæði fyrir kjörstað, svo og eftir atvikum aðstoðarfólk, til þess að atkvæðagreiðsla geti farið fram með fyrirskipuðum hætti. Rétt er að undirstrika að kjósanda ber að koma á fund kjörstjóra þar sem atkvæðagreiðslan fer fram og að atkvæðagreiðsla má eigi fara fram í sjúkrastofum eða herbergjum vistmanna nema verulegir annmarkar séu á að flytja kjósanda á fund kjörstjóra.

II. Um atkvæðagreiðslu í heimahúsum.
5. gr.

Samkvæmt 3. mgr. 63. gr. kosningalaga getur utankjörfundarkjörstjóri innan lands heimilað kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, að greiða atkvæði í heimahúsi.

6. gr.

Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg á þar til gerðu eyðublaði, sem kjörstjóri lætur í té, og studd vottorð læknis. Skal umsóknin hafa borist kjörstjóra eigi síðar en kl. 12 á hádegi þann dag þegar ein vika er til kjördags.

7. gr.

Kjörstjóri getur í sinn stað tilnefnt sem utankjörfundarkjörstjóra tvo trúnaðarmenn til að sjá um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar hjá kjósanda. Um þá framkvæmd fer að öðru leyti eins og kosningu hjá kjörstjóra.

III. Almenn ákvæði.
8. gr.

Atkvæðagreiðsla samkvæmt 2. og 3. mgr. 63. gr. kosningalaga má ekki fara fram fyrr en þremur vikum fyrir kjördag.

9. gr.

Um kosninguna eiga að öðru leyti við ákvæði 62. gr. kosningalaga. Samkvæmt því hefur kjósandi heimild til að greiða atkvæði utan kjörfundar, ef hann gerir ráð fyrir því að hann geti ekki vegna fjarveru eða af öðrum ástæðum sótt kjörfund á kjördegi á þeim stað þar sem hann er á kjörskrá.
Um kosningaathöfnina sjálfa þ.á m. um heimild til að veita kjósanda aðstoð, gilda að öllu leyti sömu reglur og um utankjörfundaratkvæðagreiðslu almennt, sbr., einkum 65. og 66. gr. kosningalaga. Aðstoð má þannig því aðeins veita að kjósandi sé ekki fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að honum sé höndin ónothæf. Óheimilt er með öllu að bjóða þeim aðstoð sem þannig þarfnast hjálpar.

10. gr.

Leiðbeiningar þessar sem settar eru samkvæmt 5. mgr. 63. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 80 16. október 1987, sbr. lög nr. 10 19. mars 1991, öðlast þegar gildi.
Jafnframt falla úr gildi leiðbeiningar um utankjörfundaratkvæðagreiðslu á sjúkrahúsum og dvalarheimilum aldraðra, nr. 121 23. mars 1987.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum