Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 477/2019 - Úrskurður

.

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 477/2019

Miðvikudaginn 22. apríl 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. október 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. apríl 2019, var kæranda tilkynnt um að greiðslur uppbótar vegna reksturs bifreiðar yrðu stöðvaðar frá 1. maí 2019. Í bréfinu kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu séu skilyrði reglugerðar nr. 170/2009 ekki lengur uppfyllt vegna þess að ökutæki sé óskoðað. Kærandi sótti um uppbót vegna kaupa á bifreið og uppbót vegna reksturs bifreiðar með umsókn, dags. 20. júlí 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. ágúst 2019, var umsókn kæranda samþykkt og upphafstími greiðslna vegna reksturs bifreiðar var ákvarðaður frá 1. ágúst 2019. Kærandi fór símleiðis fram á frekari rökstuðning fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslu uppbótar vegna reksturs bifreiðar og var hann veittur með bréfi, dags. 22. ágúst 2019. Í bréfinu kemur fram að eingöngu hafi verið greitt frá 1. ágúst 2019 þar sem bifreið, sem ekki hafi verið skoðuð, geti ekki talist hæf til daglegra nota.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. nóvember 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 12. desember 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. desember 2019. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 20. desember 2019, og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2020.

Með bréfi, dags. 23. mars 2020, gaf úrskurðarnefnd velferðarmála kæranda kost á að leggja fram gögn sem sýndu fram á að kærandi hefði notað bifreiðina B maí, júní og júlí 2019. Svar barst frá kæranda með bréfi, dags. 7. apríl 2020, og var það sent Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 8. apríl 2020. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að fella niður uppbót til reksturs bifreiðar fyrir maí, júní og júlí 2019.

Um mánaðamótin júlí og ágúst 2019 hafi kærandi verið staddur hjá Tryggingastofnun vegna umsóknar um uppbót til bifreiðakaupa ásamt áframhaldandi greiðslum uppbótar vegna reksturs bifreiðar vegna þeirra bifreiðar sem hann hafi þá verið að kaupa. Kæranda hafi þá verið bent á að uppbót vegna reksturs fyrri bifreiðar hefði fallið niður í maí, júní og júlí á þeim forsendum að bifreiðin hafi ekki verið færð til skoðunar á réttum tíma. Þetta hafi komið kæranda á óvart, enda hafi hann ekki fengið neina aðvörun eða tilkynningu um þetta. Kæranda hafi yfirsést að komið væri að skoðunartíma fyrir bifreiðina. Kærandi hafi óskað eftir því að fá þetta leiðrétt. Þrátt fyrir þetta hafði hann ekki fengið þessa uppbót vegna þessara þriggja mánaða.

Kærandi hafi farið fram á rökstuðning fyrir ákvörðuninni sem honum hafi verið veittur með bréfi, dags. 22. ágúst 2019, en kærandi hafi hins vegar ekki fengið í hendur bréf sem vísað sé til í rökstuðningi frá 16. apríl 2019.

Röksemdum Tryggingastofnunar sé mótmælt. Umrædd reglugerðarákvæði veiti stofnuninni ekki heimild til að hafa af honum uppbót sem hann hafi áður fengið samþykkta. Til vara sé byggt á að ótækt sé að beita slíku fyrirvaralaust og án viðvörunar.

Eftirfarandi athugasemdir réttlæti það að kærandi haldi uppbótinni umrædda mánuði. Kærandi hafi notað bifreiðina til daglegra nota framangreinda mánuði. Bifreiðin hafi verið í skoðunarhæfu ástandi að mati kæranda. Kærandi hafi greitt daglegan rekstrarkostnað af bifreiðinni umrædda mánuði. Kærandi hafi borið tryggingarkostnað af bifreiðinni umrædda mánuði. Tryggingafélag kæranda hafi ekki gert athugasemd við að bifreiðin væri í notkun þá mánuði sem hér um ræði. Kærandi hafi ekki fengið neina viðvörun um að til stæði að fella niður uppbótina. Kærandi telji afsakanlegt að honum hafi yfirsést að færa bifreiðina til skoðunar. Kærandi hafi ekki haft vitneskju um að hann myndi missa uppbótina ef dráttur yrði á skoðun og það án viðvörunar.

Kærandi mótmæli því að draga megi þá ályktun af 4. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009 að bifreið, sem ekki hafi verið færð til skoðunar á tilsettum degi, geti ekki fallið þar undir og verið brúkleg til daglegra nota. Tryggingastofnun starfi ekki samkvæmt umferðarlögum og geti því ekki vísað til þeirra laga í rökstuðningi og sama sé að segja um tilvísun í rökstuðningi til reglugerðar nr. 8/2009. Það sé ekki í verkahring Tryggingastofnunar að hafa eftirlit með því hvort bifreiðar séu færðar til skoðunar eða beita einstaklinga þvingunarúrræðum, sé það ekki gert á réttum tíma. Öðrum stjórnvöldum sé ætlað að annast slíkt.

Kærandi hafi notað bifreiðina til daglegra nota ofangreinda þrjá mánuði átölulaust. Það sem Tryggingastofnun hefði getað gert hefði verið að kæra hann til lögreglu hefði hann með þessu gerst brotlegur við lög þannig að refsingu varðaði. Stofnunin verði að sýna jafnræði í þessari framkvæmd í einu og öllu.

Í athugasemdum kæranda, dags. 20. desember 2019, kemur fram að kærandi hafi ekki fengið í hendur meint bréf Tryggingastofnunar, dags. 16. apríl 2019, sem fylgt hafi greinargerð stofnunarinnar. Í kæru hafi einnig verið gerð grein fyrir því hvernig kærandi hafi verið upplýstur um niðurfellingu uppbótarinnar. Því verði að gæta varhug við lestur greinargerðarinnar en þar hafi verið látið að því liggja að þetta hafi verið með öðrum hætti.

Tryggingastofnun geti ekki verið viss um eða vitað hvort bifreiðar séu í notkun eða í nothæfu ástandi og skipti þar engu hvort skoðunarskylda hafi verið vanrækt. Skoðun á bifreið tryggi ekki að bifreið verði framvegis ökuhæf, þ.e. að hún bili ekki alvarlega eða eyðileggist eftir að skoðun hafi farið fram.

Ástand viðkomandi bifreiðar í dag varði Tryggingastofnun ekki þar sem stofnunin sé ekki í dag að greiða uppbót vegna hennar og það varði ekki heldur málið hvort bifreiðin sé í dag óskoðuð eða ekki. Það skjóti því skökku við að Tryggingastofnun skuli hafa uppi sérstaka ábendingu til nefndarinnar varðandi skoðunarstöðu þessarar bifreiðar miðað við daginn í dag.

Niðurstaða Tryggingastofnunar sé sú að ekki beri að greiða uppbót þar sem skoðun hafi verið vanrækt en stofnunin hafi ekki vísað til neinna laga- eða reglugerðarheimilda hvað þetta varði en tali um lögreglu- og umferðarlagabrot. Um sé að ræða geðþóttaákvörðun starfsfólks innan stofnunarinnar. Kærandi mótmæli slíku og krefjist þess að fá uppbótina greidda.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun frá 13. ágúst 2019.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt sé að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Í 2. mgr. sömu greinar sé kveðið á um að það sama gildi um rekstur bifreiðar, eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar.

Auk þess sé í gildi reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Þar segi í 1. málsl. 5. mgr. 1. gr. að með bifreið í reglugerðinni sé átt við fólksbifreið eða sendibifreið sem ætluð sé til daglegra nota. Enn fremur komi fram í 3. mgr. 2. gr. að við mat á umsóknum skuli fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfihamlaðra og hvort umsækjandi þurfi bifreið til að komast ferða sinna, svo sem til vinnu, í skóla, reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Í umferðarlögum nr. 50/1987 sé fjallað um skráningu, skoðun og eftirlit með ökutækjum. Nánar sé fjallað um það í reglugerðum nr. 751/2003 um skráningu ökutækja og nr. 8/2009 um skoðun ökutækja.

Í 67. gr. umferðarlaga sé kveðið á um skoðunarskyldu ökutækja og í 69. gr. umferðalaga sé kveðið á um bann við notkun ökutækja sem ekki séu færð til skoðunar þegar krafist sé.

Málavextir séu þeir að þann 16. apríl 2019 hafi Tryggingastofnun sent kæranda bréf þar sem fram hafi komið að greiðslur uppbótar vegna reksturs bifreiðar yrðu stöðvaðar frá og með 1. maí 2019 þar sem skilyrði reglugerðar nr. 170/2009 hafi ekki verið uppfyllt. Ástæðan fyrir stöðvuninni hafi verið sú að bifreið kæranda B hafi verið óskoðuð.

Þann 20. júlí 2019 hafi kærandi sótt um uppbót/styrk til bifreiðakaupa og uppbót vegna reksturs bifreiðar vegna nýrrar bifreiðar C. Umsókn um uppbót til kaupa og reksturs bifreiðar hafi verið samþykkt og uppbót til reksturs bifreiðar hafi verið samþykkt frá 1. ágúst 2019. 

Kærandi hafi haft samband símleiðis og viljað einnig fá uppbót vegna reksturs bifreiðar fyrir tímabilið 1. maí til 31. júlí 2019 sem Tryggingastofnun hafi synjað þann 22. ágúst 2019.

Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu hafi bifreiðin B síðast verið skoðuð þann 31. mars 2017. Á þeim forsendum hafi greiðslur uppbótar vegna reksturs bifreiðar verið stöðvaðar frá og með 1. maí 2019. Rétt sé að taka það fram að sú bifreið sé enn óskoðuð og að þær greiðslur uppbótar vegna reksturs bifreiðar sem kærandi njóti í dag séu á grundvelli bifreiðar sem hann hafi keypti í júlí 2019, þ.e. bifreiðarinnar C.

Ráðherra setji reglur um skoðun skráningarskyldra ökutækja, sbr. 67. gr. umferðarlaga. Þar komi meðal annars fram hverjir annist skoðun þeirra, hve oft, hvar og hvenær almenn skoðun skuli fara fram og að öðru leyti um framkvæmd hennar. Í 69. gr. umferðalaga sé svo fjallað um „bann við notkun ökutækja“ en þar segi að komi í ljós, að skráningarskylt ökutæki sé til hættu fyrir umferðaröryggi eða sé eigi fært til skoðunar þegar krafist sé, geti löggæslumaður tekið af því skráningarmerki.

Í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 8/2009 hefði átt að færa bifreiðina B til skoðunar í október 2018 og í síðasta lagi í desember sama ár. Það hafi kærandi ekki enn gert. Bifreið sem ekki hafi verið færð til skoðunar án gildrar ástæðu sé ekki lögleg í umferðinni, sbr. 69. gr. umferðarlaga. Þegar bifreið sé ekki lögleg í umferðinni verði hún ekki talin hæf til daglegra nota, sbr. 5. mgr. 1. gr. og 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009, svo sem til að komast til vinnu, í skóla, reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Tryggingastofnun sé einungis heimilt að greiða uppbót vegna reksturs bifreiða sem uppfylli skilyrði reglugerðarinnar. Tryggingastofnun geti eðli málsins samkvæmt ekki haft annað eftirlit með því hvort bifreiðar bótaþega uppfylli skilyrði reglugerðarinnar en það sem felist í árlegri skoðun bifreiðarinnar. Í tilfelli kæranda hafi sú bifreið, sem hann geri kröfu um að fá greidda uppbót vegna, ekki verið skoðuð í tvö og hálft ár. Tryggingastofnun hafi því engar upplýsingar um hvert ástand þessarar bifreiðar kæranda sé í dag eða hafi verið á tímabilinu 1. maí til 31. júlí 2019.

Tryggingastofnun telji augljóst að ekki sé hægt að greiða uppbót vegna reksturs bifreiðar á grundvelli bifreiðar sem skoðunarskylda hafi verið vanrækt eins og eigi við í þessu tilfelli. Ómögulegt sé fyrir stofnunina eða aðra utanaðkomandi aðila að segja til um hvert ástand bifreiðarinnar sé í dag. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að samþykkja uppbót vegna reksturs bifreiðar frá 1. ágúst 2019.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar vegna reksturs bifreiðar er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 10. gr. segir:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 2. gr. reglugerðarinnar er fjallað um uppbætur vegna reksturs bifreiða. Í 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar segir að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar ef bótaþega sé nauðsyn á að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar. Þá segir í 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar að við mat á umsóknum skuli fyrst og fremst líta á bifreiðina sem hjálpartæki hreyfihamlaðra og hvort þörf sé á bifreið til að komast ferða sinna, svo sem til vinnu, í skóla, reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð. Samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er það skilyrði að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi bifreiðarinnar eða hafi bifreiðina í rekstrarleigu til langs tíma.

Í þágildandi 69. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er fjallað um bann við notkun ökutækis. Þar segir að komi í ljós að skráningarskylt ökutæki sé til hættu fyrir umferðaröryggi eða ekki fært til skoðunar þegar þess er krafist, geti löggæslumaður tekið af því skráningarmerki. Þá er fjallað um skoðun ökutækja í reglugerð nr. 8/2009. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar skal færa bifreið til aðalskoðunar í fyrsta skipti á fjórða ári eftir að ökutækið var skráð fyrsta sinni, síðan annað hvort ár í tvö næstu skipti og árlega eftir það. Þá hljóðar 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar svo:

„Bifreið og eftirvagn skal færa til aðalskoðunar í þeim mánuði sem síðasti tölustafur á skráningarmerki ökutækis vísar til, sbr. þó 7. gr. Þannig skal t.d. ökutæki með skráningarmerki sem endar á 1 fært til skoðunar í janúar og ökutæki með skráningarmerki sem endar á 0 í október. Heimilt er þó að færa ökutæki til skoðunar allt að 6 mánuðum fyrr á almanaksárinu og 10 mánuðum fyrr, hafi ökutækið gilda skoðun sem fram fór fyrir 1. nóvember liðins árs. Hafi ökutæki einkamerki með tölustaf sem síðasta staf á skráningarmerki, ræðst skoðunarmánuður af honum. Bókstafur sem síðasti stafur á skráningarmerki jafngildir 5 sem síðasta tölustaf á skráningarmerki.“

Fyrir liggur að Tryggingastofnun stöðvaði greiðslur uppbótar vegna reksturs bifreiðar til kæranda 1. maí 2019 á þeim grundvelli að bifreið hans B, árgerð X, væri óskoðuð. Kæranda var tilkynnt um það með bréfi, dags. 16. apríl 2019, sem var bæði sent kæranda í pósti og birt honum rafrænt á „Mínum síðum“ samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun. Í bréfinu var kæranda leiðbeint um að hann gæti haft samband við stofnunina ef hann hefði athugasemdir eða óskaði nánari upplýsinga. Kærandi sótti á ný um greiðslu uppbótar með umsókn, dags. 20. júlí 2019, en þá hafði hann keypt bifreiðina C. Tryggingastofnun samþykkti umsókn kæranda frá 1. ágúst 2019 en synjaði um greiðslur fyrir maí, júní og júlí á þeim grundvelli að bifreið sem ekki hafi verið skoðuð geti ekki talist hæf til daglegra nota. Ágreiningur þessa máls varðar hvort Tryggingastofnun ríkisins beri að greiða kæranda uppbót vegna reksturs bifreiðar vegna framangreinds tímabils.

Kærandi byggir á því að stofnuninni sé ekki heimilt að byggja hina kærðu ákvörðun á umferðarlögum og reglugerð byggðri á þeim lögum þó svo að honum hafi láðst að færa bifreiðina B til skoðunar. Þá segir í kæru að kærandi hafi notað bifreiðina daglega í maí, júní og júlí 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. mars 2020, var kæranda gefinn kostur á að leggja fram gögn sem sýndu fram á að hann hefði notað bifreiðina á framangreindu tímabili. Með bréfi, dags. 7. apríl 2020, greindi kærandi frá því að hann noti ekki greiðslukort til daglegra útgjalda heldur peningaseðla og mynt. Þá kaupi hann eldsneyti á sjálfsafgreiðslustöð og greiði með seðlum. Kærandi byggir jafnframt á því í bréfinu að þeir sem fái greidda uppbót til reksturs bifreiðar þurfi ekki að skila gögnum til Tryggingastofnunar til sönnunar fyrir kostnaði af hlutaðeigandi bifreiðarrekstri. Þá hafi kærandi ekki verið upplýstur um af hálfu Tryggingastofnunar að honum væri skylt að skila nótum eða sönnunargögnum varðandi rekstrarkostnað.

Samkvæmt upplýsingum úr ökutækjaskrá Samgöngustofu var bifreiðina B, árgerð X, síðast skoðuð 31. mars 2017. Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 8/2009 hefði átt að færa bifreið kæranda B til skoðunar í október 2018 og í síðasta lagi í desember sama ár. Fyrir liggur að bifreiðin hefur ekki enn verið færð til skoðunar.

Eins og áður hefur komið fram er það skilyrði samkvæmt 2. málsl. 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009 að hinn hreyfihamlaði eða maki hans sé skráður eigandi bifreiðarinnar eða hafi bifreiðina í rekstrarleigu til langs tíma. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála má einnig leiða af 2. gr. reglugerðarinnar að nauðsynlegt sé að bifreiðin sé hæf til daglegra nota, svo sem til að komast til vinnu, í skóla, reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð, sbr. 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar, enda yrði markmiðum með veitingu uppbótar annars ekki náð. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að upplýsingar um að bifreið hafi ekki verið færð til skoðunar í samræmi við umferðarlög og reglugerð nr. 8/2009 gefi tilefni til að draga í efa að bifreið sé hæf til daglegra nota, enda megi ráða af fyrirsögn þágildandi ákvæðis 69. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 að bannað sé að nota ökutæki sem hefur ekki verið fært til skoðunar þegar þess er krafist. Kærandi brást ekki við bréfi Tryggingastofnunar frá 16. apríl 2019 fyrr en hann sótti um uppbót að nýju með umsókn, dags. 20. júlí 2019, vegna kaupa á nýrri bifreið. Þá hefur kærandi ekki lagt fram nein gögn sem sýna fram á að hann hafi notað bifreiðina B á tímabilinu 1. maí til 31. júlí 2019. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að gögn málsins beri ekki með sér að bifreiðin B hafi verið hæf til daglegra nota á framangreindu tímabili. Að mati úrskurðarnefndar var Tryggingastofnun því heimilt að synja kæranda um greiðslu uppbótar vegna reksturs bifreiðar vegna þess tímabils.

Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót vegna reksturs bifreiðar er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um uppbót vegna reksturs bifreiðar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum