Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Lyfjafræðingafélagið 75 ára

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar,

heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra,

á 75 ára afmæli Lyfjafræðingafélags Íslands

 

Ágætu lyfjafræðingar og aðrir gestir,

Ég vil byrja á að óska ykkur hjartanlega til hamingju með 75 ára afmæli Lyfjafræðingafélags Íslands.

Á þessum 75 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar og miklar breytingar hafa orðið í heilbrigðismálum á þeim tíma. Þetta á ekki hvað síst við um störf lyfjafræðinga. Lyfjafræðingum hefur fjölgað og atvinnutækifærum þeirra sömuleiðis.

Þegar Lyfjafræðingatalinu er flett má sjá að meðal lyfjafræðinga er finna ýmsa þekkta menn eins og Danann Jens Gunnar Hald, sem var einn af stofnendum Lyfjafræðingafélagsins. Hann var giftur íslenskri konu Hildi Grímsdóttur og varð seinna frægur fyrir að finna upp hið þekkta lyf Antabus.

Þá sá ég nýlega Egil Helgason fjalla um bókmenntaafrek Helga Hálfdánarsonar lyfjafræðings í þætti sínum Kiljunni. Afköst hans við þýðingar á verkum Shakespeare, kínverskum og japönskum ljóðum og öðrum stórverkum bókmenntanna hafa verið með ólíkindum og benda til þess að lyfjafræðingar geta fjallað með góðum árangri um ýmislegt annað en lyf.

Þegar Lyfjafræðingafélagið var stofnað munu hafa verið um 10 starfandi lyfjafræðingar í Reykjavík í fjórum apótekum, Iðunni, Ingólfs, Laugavegs- og Reykjavíkur Apóteki. Síðan hafa bæði apótekum og lyfjafræðingum fjölgað verulega en samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Lyfjastofnunar starfa nú 75 árum síðar um 144 lyfjafræðingar í um 55 apótekum landsins.

Það fer ekki á milli mála að lyfjafræðingar hafa haft veruleg áhrif á sögu heilbrigðismála hér á landi. Apótekin voru nánast eini starfsvettvangur lyfjafræðinga fram á seinni hluta síðustu aldar, en þá tók framleiðsla lyfja að flytjast úr apótekum yfir í sérhæfð lyfjaframleiðslufyrirtæki. Mér skilst að nú starfi meirihluti lyfjafræðinga utan apóteka og þar vegi lyfjaiðnaður þyngst og er þá væntanlega sérstaklega átt við lyfjafyrirtækið Actavis sem nú er talið fjórða stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims. Actavis er með starfsemi í um 40 löndum í fimm heimsálfum og hjá því starfa rúmlega 11.000 starfsmenn þar af rúmlega 500 hér á landi í höfuðstöðvum þess. Það er nokkuð ljóst að í okkar fámenna samfélagi þá munar um minna.

Hjá hinu opinbera starfa fjölmargir lyfjafræðingar að lyfjamálum, við stjórnun, upplýsingaöflun, rannsóknir og eftirlit. 

Á þeim stutta tíma sem ég hef gegnt stöðu heilbrigðisráðherra hef ég komist að því að lyfjamálin eru margslungin og flókin. Margt er vel gert en ég tel að ýmislegt megi betur fara. 

Það er ljóst að íslenskur lyfjamarkaður virkar ekki sem skyldi. Lyfjaverð er hærra á Íslandi en gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum og að auki er það langt yfir meðalverði lyfja í ríkjum Evrópubandalagsins. Þá er lyfjaframboð hér á landi með öðrum hætti en í stærri ríkjum markaðssvæðisins.

Á undanförnum mánuðum hef ég ítrekað lýst því yfir að markmið mitt varðandi lyfjamarkaðinn á Íslandi er í grófum dráttum tvíþætt: Annars vegar að lækka lyfjakostnað ríkisins og hins vegar að lækka lyfjaverð til almennings. 

Á málþingi sem haldið var á vegum Rannsóknarstofnunar um lyfjamál og Lyfjafræðingafélags Íslands þann 10 október s.l. greindi ég frá því sjónarmiði mínu að lítil markaðssvæði hafi ekki notið, hvorki í verði né framboði lyfja, þess frelsis sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið ætti að tryggja þeim. Einnig greindi ég á málþinginu frá hinum ýmsu aðgerðum sem nú eru í undirbúningi í þeim tilgangi að opna lyfjamarkaðinn og ná fram lægra lyfjaverði með aukinni samkeppni á markaðinum.

Til að fylgja þessum málum eftir átti ég frumkvæði að því að boðað var til sérstaks fundar norrænu heilbrigðisráðherrana um lyfjamál í tengslum við Þing Norðurlandaráðs í Ósló þann 1. nóvember  s.l. Fundarefnið var sameiginlegur markaður lyfja og annarar heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum.

Á fundinum greindi ég frá hugmyndum mínum og lagði til að Norðurlöndin samþykktu að setja á stofn sérfræðinganefnd með fulltrúa frá hverju landi sem fengi það hlutverk að kanna möguleika á nánara samstarfi um markaðsleyfi og opnun lyfjamarkaðs landana. Markmið er meðal annars að freista þess að auka viðskipti með lyf landa á milli með sérstakri áherslu á að styrkja minnstu markaðssvæði EES, þ.e. Norðurlöndin, Möltu og Kýpur og fjölga þar lyfjum á markaði sérstaklega ódýrari samheitalyfjum.

Viðbrögð norrænu samráðherranna við þessari umræðu og tillögu minni voru mjög jákvæð og var samþykkt að setja umrædda nefnd á laggirnar nú í lok mánaðarins og er henni ætlað að skila áliti fyrir sumarbyrjun.

Ég geri mér það fyllilega ljóst að lyfjamál eins og önnur heilbrigðismál eru viðkvæm og því sé nauðsynlegt að vanda til þeirra breytinga sem boðaðar eru. Með breytingum er oft hróflað við hagsmunum manna og fyrirtækja auk þess sem alltaf eru einhverjir sem einfaldlega hræðast breytingar og eru þess vegna mótfallnir þeim.

Við þessa aðila vil ég segja, að við þær breytingar, sem ég vill ráðast í, legg ég áherslu á að virða þær öryggisreglur, sem gilda innan EES um lyf og lyfjaþjónustu.

Ég hef einnig lagt áherslu á samráð við lyfjafræðinga og Lyfjafræðingafélag Íslands um fyrirhugaðar breytingar t.d. með því að taka þátt í málþingi þeirra þann 10 október s.l.

Þá hef ég skipað fulltrúa LFÍ í nefnd til að fylgja eftir lyfjastefnu ráðuneytisins og einnig í svo kallaða Péturs nefnd sem fær það hlutverk að semja tillögur að nýju greiðsluþátttökukerfi lyfja og annarar heilbrigðisþjónustu.

Ég vil að lokum við þetta tækifæri minna lyfjafræðinga á sögu sína og hve auðvelt þeim hefur reynst á undanförnum 75 árum að aðlaga sig breytum aðstæðum og nýta tækninýjungar og ný tækifæri sjálfum sér, sjúklingum og þjóðinni allri til heilla. Engin ástæða er til annars en það sama muni gilda um þær breytingar sem ég hef boðað.

Lyf eru nauðsynleg og lyfjafræðingar eru nauðsynlegir fyrir heilbrigðisþjónustuna.

Það mun ekki breytast.

Að lokum vil ég enn og aftur óska Lyfjafræðingafélagi Íslands til hamingju með afmælið og þakka kærlega fyrir mig.

 

(Talað orð gildir)

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum