Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Hjúkrun 2007

Ráðstefnan Hjúkrun 2007

22. nóvember 2007

Ávarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar,

heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra

 

Ágætu hjúkrunarfræðingar og ráðstefnugestir.

Ég vil byrja á því að þakka ykkur fyrir það tækifæri að fá að ávarpa ykkur hér í upphafi þessarar metnaðarfullu  ráðstefnu sem nú hefur verið sett.

Mig langar til þess að nota þetta tækifæri að segja ykkur í örstuttu máli frá þeirri stefnumótunarvinnu sem undanfarið hefur átt sér stað í heilbrigðisráðuneytinu – og er hvergi nærri lokið. Það sem hefur stýrt þeirri vinnu er sú áhersla sem við viljum leggja á að umræða og áherslur í heilbrigðismálum snúi að því annars vegar að hér sé veitt besta mögulega heilbrigðisþjónusta fyrir þá sem þurfa á henni að halda og hins vegar það sem við höfum lagt ríka áherslu á - að auka vitund almenning og meðferðaraðila á heilbrigði og mikilvægi þess að efla heilbrigði þjóðarinnar til lengri tíma.

Fyrri þátturinn hefur einokað umræðu um heilbrigðismál í gegnum tíðina. Okkur hefur verið tamt að ræða um heilbrigðismál út frá sjúkdómum og við vitum að sú umræða hefur oft á tíðum verið neikvæð, snúist um fjárskort og manneklu svo dæmi sé tekið. Til lengri tíma litið munum við ekki sjá árangur í heilbrigðismálum nema með því að efla heilbrigði þjóðarinnar – við megum ekki alltaf þurfa að vera í þeirri stöðu að bregðast við því neikvæða sem upp kemur, við þurfum að koma okkur í þá aðstöðu að sjá fyrir og vera með útfærðar hugmyndir um hvernig við hyggjumst mæta nýjum áskorunum.

Í þessari vinnu höfum við fundað með fjölda fólks og ég veit að í ykkar hópi hér eru margir sem hafa átt samtöl við mig og samverkafólk mitt í ráðuneytinu, veitt góð ráð og komið fram með  ferska sýn. Fyrir það vil ég þakka, um leið og ég óska eftir áframhaldandi samvinnu.

Góðir gestir

Mikilvægi heilbrigðisþjónustunnar endurspeglast ekki síst í forgangsröðun stjórnvalda. Þetta má sjá af því að til einskis annars málaflokks er varið meiri fjármunum. Miklu máli skiptir að það fé sé notað með þeim hætti að það nýtist sem best til að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur. Íslendingar verja um 10% af vergum þjóðartekjum, eða um 100 milljörðum króna, til heilbrigðismála og eru í hópi þeirra þjóða sem mestu fjármagni veita til málaflokksins

Við lifum í breyttum heimi og stöndum frammi fyrir vandamálum og verkefnum sem ekki voru til staðar fyrir örfáum árum. Það er ekki svo ýkja langt síðan við vorum meðal fátækustu þjóða. Í dag telst Ísland til þeirra landa þar sem þegnarnir búa við hvað best  lífskjör. Nær 70% vinnuafls starfar við þjónustuiðnað í samanburði við tæplega 40% fyrir um þrjátíu árum. Námstækifæri hafa stóraukist. Fjölskyldugerðin hefur að sama skapi tekið stórfelldum breytingum.

Þessum þjóðfélagsbreytingum fylgja ný viðfangsefni en að sama tíma ný vandamál, meðal annars aukin kyrrseta, aukið áreiti, aukinn kvíði og aukin streita. Þá hefur samverustundum barna og foreldra fækkað á undanförnum áratugum.

Á sama tíma og breyttu þjóðfélagi fylgja aukin lífsgæði, fleiri tækifæri og betri lífskjör verðum við jafnframt að horfast í augu við og taka á þeim fylgikvillum sem fylgja þessum breytingum. Ég nefni hreyfingarleysi og offitu ungmenna, er geta skapað stórkostleg heilbrigðisvandamál fyrir einstaklinga síðar á lífsleiðinni. Þannig stefnir í fyrsta skipti í það að kynslóðin sem er að vaxa úr grasi í Bandaríkjunum muni að meðaltali lifa skemur en kynslóðin á undan. Þá birtust fréttir af því í vikunni að Disneyland í Flórída í Bandaríkjunum þurfi að loka sumum leiktækjum  og hugsanlega heilli deild vegna þess að börnin eru orðin svo feit að tækin bera þau ekki.  Litlir skemmtibátar sem hafa dugað litlum börnum síðastliðin 41 ár, kenna nú daglega grunns með börnin innanborðs.

Þá er þunglyndi samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni nú í öðru sæti yfir algengustu ástæður vinnutaps í aldurshópnum 15 til 44 ára á Vesturlöndum. Stofnunin áætlar að árið 2020 muni það sama gilda fyrir alla aldurshópa af báðum kynjum.

Góðir ráðstefnugestir

Við Íslendingar eigum mikinn mannauð í heilbrigðisstarfsfólki. 

Hjúkrunarfræðingar eru fjölmennasta stéttin og þeir starfa á nær öllum starfsstöðvum sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið, en þær eru nú rúmlega 180 talsins.  Það gefur því auga leið að áhrif þeirra eru margvísleg og þeir koma að lífi landsmanna við hin ólíkustu tækifæri, í sorg og gleði.  Jafnframt sinna þeir störfum sem eru allt frá því að veita leiðsögn við lífstílstengdar forvarnir yfir í hátæknimeðferð.  Fagið býr því hjúkrunarfræðinga undir fjölbreytt störf, og meðal annars í því felast margvísleg sóknarfæri.  

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur fjöldi fólks – fjöldi sem skiptir hundruðum – lagt leið sína á minn fund til að kynna nýjar hugmyndir um þætti sem að þess mati mæti betur fara í rekstri okkar ágæta heilbrigðiskerfis. Ég nefni þætti eins og rekstrarform ákveðinna eininga, margvíslegar nýjungar í þjónustu, breytta stjórnunarhætti, menntamál og svona mætti lengi telja.  Í þessum hópi frumkvöðla eru eðlilega  fjölmargir hjúkrunarfræðingar. Það er ánægjulegt að sjá þá miklu grósku sem býr í þessum stóra öfluga hópi og ég bind vonir við að það sé ekki langt í að við sjáum fyrstu hugmyndirnar verða að veruleika í formi nýjunga sem innleiddar verða í heilbrigðisþjónustunni.

Á minn fund hafa einnig komið einstaklingar sem hafa áhuga á útrás í heilbrigðisþjónustunni, og vilja koma á framfæri þeirri skoðun, að við ættum að vera í stakk búin til að nýta sérstöðu okkar í heilbrigðimálum og góðan árangur enn betur en nú.  Það felist tækifæri í árangri okkar á þessu sviði, sem nýta mætti til aukinnar hagsældar fyrir þjóðina. 

En hver er þessi árangur?

Við samanburð á gæðum  heilbrigðisþjónustunnar  við önnur lönd hefur ítrekað komið fram að  Íslendingar búa við hvað mest gæði   á  fjölmörgum sviðum.  Nýjasta dæmið um slíkt birtist í síðustu viku þegar  ritið Health at a Glance 2007 kom út á vegum  Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD. Þar var í fyrsta sinn sérstakur kafli um gæði heilbrigðisþjónustunnar í  32 aðildarlöndum, en valdir höfðu verið  sérstakir  gæðavísar til að bera saman  þjónustuna.

Þar kemur meðal annars fram að árangur af meðferð við kransæðastíflu á Íslandi, mældur sem hlutfall látinna í innlögn innan 30 daga, var í öðru til fjórða sæti ásamt Ástralíu og Danmörku eða 6,4% árið 2005, en lægst var hlutfallið á Nýja Sjálandi 5,4%. Meðaltal OECD ríkja var 10,2%. Hlutfall látinna í innlögn innan 30 daga eftir heilablóðfall var þriðja lægst á Íslandi sama ár, 5,8% næst á eftir Japan og Bretlandi. Meðaltal OECD ríkja var 10,1%.

Ýmis fleiri dæmi mætti nefna  en í  þessum tölum hljóta hjúkrunarfræðingar,  jafnt sem aðrar fagstéttir innan heilbrigðisþjónustunnar,  að sjá árangur starfa sinna og hvatningu til enn meiri framfara.

Ágætu hjúkrunarfræðingar.

Þau tækifæri sem framundan eru á sviði heilbrigðismála eru fjölmörg. Að sama skapi eru þar ákveðin verkefni sem bíða skjótrar úrlausnar og má þar nefna þann skort sem er á hjúkrunarfræðingum til starfa.  Til þess að bæta þar úr þarf samstillt átak.  Ég er reiðubúinn til þess að leggja þar lóð á vogarskálarnar og hef lýst vilja mínum til að ganga til samstarfs við hjúkrunarfræðinga m.a. um bætta ímynd heilbrigðisstétta.

Ég hlakka til frekari samstarfs við ykkur á þessi sviði jafnt sem öðrum og vil að lokum bera fram þær óskir mínar að Hjúkrun 2007 verði þátttakendum til ánægju og fróðleiks, og hvatning til frekari dáða.

 

(Talað orð gildir)Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira