Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Stefnuræða heilbrigðisráðherra

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að á Íslandi sé veitt heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða. Á undanförnum áratugum hefur verið byggð upp heilbrigðisþjónusta sem við getum verið stolt af og stenst samanburð við það besta í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Umræðan um heilbrigðismál einkennist stundum af neikvæðni og gagnrýni en þeir sem hafa þurft að reiða sig á þjónustu íslensku heilbrigðisþjónustunnar vita að hún er traust. Þar starfar einstaklega hæft fólk sem leggur líf sitt og sál í að veita umönnun og bót meina. Við vitum að þegar við stöndum frammi fyrir heilsubresti eða slysförum er líf og heilsa það sem skiptir einstaklinginn mestu máli.

Mikilvægi heilbrigðisþjónustunnar endurspeglast ekki síst í forgangsröðun stjórnvalda. Þetta má sjá af því að til einskis annars málaflokks er varið meiri fjármunum. Miklu máli skiptir að það fé sé notað þannig að það nýtist sem best til að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur.

Við eigum það til að skilgreina heilbrigðismál út frá forsendum heilsubrests. Umræða um heilbrigðisþjónustu snýst gjarnan um hvernig best sé að bregðast við því sem afvega fer. Ég tel mikilvægt að við nálgumst heilbrigðisþjónustu ekki síður út frá forsendum heilbrigðis. Markmið okkar hlýtur að vera að auka heilbrigði þjóðarinnar og draga úr líkum á vanheilsu.

Við lifum í breyttum heimi og stöndum frammi fyrir vandamálum og verkefnum sem ekki voru til staðar fyrir örfáum árum. Það er ekki svo ýkja langt síðan við vorum meðal fátækustu þjóða. Í dag telst Ísland til þeirra landa þar sem þegnarnir búa við hvað best lífskjör. Næstum 70% vinnuafls starfar við þjónustuiðnað í samanburði við tæplega 40% fyrir 30 árum. Námstækifæri hafa stóraukist. Fjölskyldugerðin hefur að sama skapi tekið stórfelldum breytingum.

Þessum þjóðfélagsbreytingum fylgja ný viðfangsefni en á sama tíma ný vandamál, m.a. aukin kyrrseta, aukið áreiti, aukinn kvíði og aukin streita. Þá hefur samverustundum barna og foreldra fækkað á undaförnum áratugum. Á sama tíma og breyttu þjóðfélagi fylgja aukin lífsgæði, fleiri tækifæri og betri lífskjör verðum við jafnframt að horfast í augu við og taka á þeim fylgikvillum sem fylgja breytingunum.

Hreyfingarleysi og offita ungmenna getur skapað stórkostlegt heilbrigðisvandamál fyrir einstaklinga síðar á lífsleiðinni. Ég nefni einnig andlega vanlíðan en samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er þunglyndi í öðru sæti yfir algengustu ástæður vinnutaps í aldurshópnum 15–44 ára á Vesturlöndum. Stofnunin áætlar að árið 2020 muni það sama gilda fyrir alla aldurshópa af báðum kynjum. Ekki þarf að fara í grafgötur með hversu alvarlegur kvilli þunglyndi er. Nauðsynlegt er að efla forvarnir á þessu sviði.

Einn af ömurlegustu vágestum nútímans eru fíkniefnin. Í mörgum nágrannaríkjum okkar hefur neysla fíkniefna farið úr öllum böndum á undanförnum árum. Fíkniefnavandinn er þar orðið eitt stærsta heilbrigðisvandamál í ákveðnum aldursflokkum. Hér á landi hefur verulega dregið úr neyslu fíkniefna meðal ungs fólks. Það er þróun sem er afar jákvæð. Það er ekki þróun sem hefur orðið af sjálfu sér, hún er árangur þrotlauss starfs sem hér hefur verið unnið með víðtæku samstarfi þeirra sem vinna með börnum og ungmennum. Íslendingar hafa verið leiðandi og sýnt að hægt er að ná árangri í forvarnastarfi með markvissri stefnu og þrautseigju. Ég lít svo á að þar hafi náðst stórkostlegur árangur sem hægt verði að draga lærdóm af og yfirfæra á önnur svið.

Ég mun sem ráðherra heilbrigðismála gera það eitt af meginverkefnum mínum að setja forvarnastarf á öllum sviðum í forgrunn. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð aukin áhersla á forvarnir. Við höfum sett okkur það markmið að stuðla að heilbrigðari lífsháttum. Við stefnum að því að bæta hag og heilsu allra Íslendinga.

Við höfum jafnframt ákveðið að setja tvo hópa í forgang, annars vegar börn og ungmenni og hins vegar eldri borgara. Á þessu sumarþingi verður sá tónn sleginn. Mér er mikil ánægja að leggja fram frumvarp sem gerir þeim sem eldri eru kleift að auka atvinnutekjur sínar án þess að bætur skerðist. Það er sannfæring mín að eldri borgarar þessa lands, reynsla þeirra og þekking, séu einhver mikilvægasta auðlind samfélagsins. Þá auðlind verður að virkja og frumvarpið er liður í þeirri viðleitni.

Einnig verður það eitt af verkefnum okkar á haustþingi að ríkissjóður tryggi lífeyrisþegum 25 þúsund krónur á mánuði að lágmarki frá lífeyrissjóði. Undirbúningur að þeirri breytingu er hafinn en ekki tókst að ljúka honum fyrir þetta þing.

Á þessu sumarþingi munum við einnig ræða aðgerðaáætlun vegna málefna barna og ungmenna. Ein af meginstoðum þeirrar áætlunar er að bæta svo um munar stöðu þeirra barna sem eiga við geðraskanir, frávikshegðun og vímuefnavanda að stríða.

Góðir Íslendingar. Breyttir tímar kalla á nýjar lausnir. Við verðum á hverjum tíma að nálgast viðfangsefnin með opnum hug. Við þurfum að hafa að leiðarljósi að finna lausnir sem nýtast best fólkinu í landinu. Ég mun sem ráðherra heilbrigðismála leitast við að ná sem víðtækastri sátt um þennan mikilvæga málaflokk. Við erum í grundvallaratriðum sammála um meginmarkmiðin. Við viljum framsækna heilbrigðisþjónustu sem við getum áfram verið stolt af og getum óhikað treyst fyrir heilsu okkar og velferð þegar mikið liggur við.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira