Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Samstarf um öflugri þjónustu

Guðlaugur Þór Þórðarson

heilbrigðisráðherra

21. janúar 2008

 

Ávarp heilbrigðisráðherra við undirritun samkomulags
um tilfærslu verkefna milli sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana

 

 

Ágætu gestir.

Undirritun samkomulagsins um tilfærslu verkefna frá Landspítala til Suðurnesja, upp á Skaga, á Selfoss og í Hafnarfjörð eru mikil tímamót.

Markmiðið er að tryggja borgurunum á viðkomandi stöðum betri og samfelldari þjónustu í heimabyggð.

Markmiðið er líka að nýta betur og með skilvirkari hætti þá fagþekkingu sem til er á öllum stofnununum, að auka  rafræn samskipti milli heilbrigðisstofnana og að efla með þessu almennt þá sameiginlegu þjónustu sem íbúum á svæðinu stendur til boða.

Hugsunin sem samkomulagið hvílir á er að gera heilbrigðisþjónustuna sterkari almennt talað og að veita öllum stofnunum aukið svigrúm til að efla sig og skapa þeim möguleika á aukinni sérhæfingu.

Það er ekki langt á milli allra þeirra stofnana sem í hlut eiga og það er af því nokkur reynsla til dæmis að sjúklingar leiti eftir þjónustu þeirra óháð legu.

Með samkomulaginu sem þið hafið undirritað hér í dag er þetta samstarf sett í formlegan búning og það er ykkar að sjá svo til að markmið samkomulagsins náist og að hér á suðvesturhorninu verði

  • heilbrigðisþjónustan betri
  • skilvirkari og að
  • stofnanirnar styrkist.

Það er skylda okkar að efla heilbrigðisþjónustuna með þessum hætti. Í fyrsta lagi fyrir sjúklingana, í öðru lagi vegna skattborgaranna sem standa undir þjónustunni og í þriðja lagi til að efla allar stofnanirnar og það ágæta heilbrigðisstarfsfólk sem við eigum hér á Íslandi.

Við eigum að veita bestu heilbrigðisþjónustu á Íslandi sem völ er á. Við eigum að veita þessa þjónustu eins fljótt og hægt er. Þetta eru hin einföldu markmið sem við eigum að keppast við að ná í sameiningu.

Við viljum einfaldlega tryggja það að sjúklingar fái þjónustuna sem fyrst óháð því hvar stofnunin er staðsett, óháð því hvar viðkomandi einstaklingur býr á svæðinu.

Með þessu er hins vegar alls ekki verið að draga úr því víðtæka og mikilvæga hlutverki sem Landspítalinn hefur í heilbrigðisþjónustunni – síður en svo. Hans hlutverk sem bráðasjúkrahús, sjúkrahús þar sem hægt er að gera flóknar aðgerðir og veita sérhæfðustu þjónustuna verður óbreytt.

Betri samgöngur, og bættar samgöngur í næstu framtíð, hafa með öðru leitt til þess að atvinnusvæðið á Suð -Vesturhorninu hefur stækkað. SV- hornið er orðið eitt atvinnusvæði. Fólk í nágrannasveitarfélögunum sækir margt atvinnu í Reykjavík og fjölmargir Reykvíkingar fara til vinnu sinnar dag hvern í nágrannabæjum Reykjavíkur.

Það er því ekki bara sjálfsagt, heldur fullkomlega eðlilegt, að líta á sjúkrahúsþjónustuna og þjónustu heilbrigðisstofnananna sem byggð hefur verið upp á svæðinu sem eina samhangandi heild og það er einmitt það sem við erum að gera með þessu formlega samkomulagi.

Þess vegna erum við hér að tala um tímamót í heilbrigðisþjónustu í landinu.

Ég ætlast til þess að fagþekking og mannauðurinn sem er á stofnununum nýtist sem best á öllum stofnununum, að heilbrigðisþjónusta verði veitt í ríkari mæli í heimabyggð, og að rafræn samskipti milli heilbrigðisstofnana á svæðinu verði stóraukin. Þetta síðast talda er afar brýnt og ég sé fyrir mér að einmitt á sviði rafrænna samskipta geti samkomulagið skapað nýjar forsendur og þróun á þessu sviði.

Ráðuneytið hefur slegið á að heildarkostnaður við að byggja upp rafræn samskipti gæti verið um 60 millj.kr., en síðar kemur til árlegur rekstrarkostnaður sem skipt verður á milli aðila þegar fram líða stundir eftir ákveðnum reglum. Það er mikilvægt að verja talsverðu fé til verkefnisins í byrjun til þess að tryggja framgang þess og hefur þvi ráðuneytið ákveðið að veita 25 milljónir króna stofnframlagi til verkefnisins sem þó dreifist á ákveðinn tíma eftir framgangi þess.

Þessir fjármunir eru þegar til á fjárlagalið um upplýsingatækni. Mikilvægt er þó að gerður sé sérstakur samingur milli aðila um þennan þátt í flutningi verkefna til stofnananna svo tryggt sé að þessi uppbygging tengist upplýsingavæðingu heilbrigðiskerfisins að öðru leyti. Sömuleiðis mun stýrihópur verkefnisins tengjast ráðuneytinu og verkefnisstjórn heilbrigðisnetsins.

Annar en afar mikilvægur þáttur í þessu samkomulagi er áætlun um að skipuleggja ár hvert og samræma sumarstarfsemi allra stofnananna eins og kostur er. Það er mjög mikilvægt að samræma starfsemina að þessu leyti til að geta veitt heilbrigðisþjónustuna sem jafnast alla daga ársins. Sumarleyfi starfsmanna setja skiljanlega strik í reikninginn að minnsta kosti þrjá sumarmánuðina og því er afar mikilvægt fyrir starfsemi allra stofnananna að skipuleggja sumarstarfið nákvæmlega. Þetta ætla menn að gera  með  samráðsfundum framkvæmdastjóra lækninga og hjúkrunar allra stofnana með það að markmiði að nýta sjúkrarými þeirra sem best og þetta á að liggja fyrir eigi síðar en í aprílbyrjun.

Góðir gestir.

Ég legg mikla áherslu á að samkomulagið sem hér hefur verið undirritað verði ekki bara orð á blaði. Ykkar er að láta hugsunina verða að veruleika og til þess hafið þið fengið aukið svigrúm af hálfu fjárveitingavaldsins.

Fyrir mína parta sé ég möguleikana sem stofnununum eru hér skapaðir til að vaxa og dafna og ég er sannfærður um að þið sjáið það líka. Bæði þið, starfsfólkið og íbúarnir í heimabyggð eigið að vera stolt af ykkar stofnunum. Þið eigið að leggja ykkur fram um að upplýsa um þá miklu og góðu þjónustu sem þar er veitt og ég ætlast til að þið gerið það.

Ég veit að þið hafið sama metnað og ég til að nýta tækifæri sem hér gefast til að gera góða heilbrigðisþjónustu enn betri.

 

(Talað orð gildir)

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum