Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Opnun nýbygginar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi

Guðlaugur Þór Þórðarson

heilbrigðisráðherra

Ávarp við opnun nýbyggingar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi þann 24. janúar 2008.



Góðir gestir.

Ég óska okkur öllum til hamingju með þann merka áfanga í heilbrigðisþjónustunni sem felst í þessari nýbyggingu, ekki síst þeim sem eiga eftir að njóta eða veita þjónustu hér.  Ég vil þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóginn og lagt sig fram um að reisa þessa byggingu og gera hana sem glæsilegasta, byggingaraðilum, arkitekt, þeim sem sáu um framkvæmdina og öllum þeim sem komu að verkinu.

Þetta er enn einn áfanginn í uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar hér á Suðurlandi og þetta er jafnframt framfaraskref í heilbrigðisþjónustu hér á Stór-höfuðborgarsvæðinu, ef þannig má að orði komast.

Byggingin sem við erum nú að taka í notkun er um 5.200 fermetrar á þremur hæðum og er áætlaður kostnaður við hana um einn og hálfur milljarður króna. Á 2. og 3. hæð verða tvær 20 rúma hjúkrunardeildir fyrir aldraða, á 1. hæð verður heilsugæslustöð og í kjallara aðstaða fyrir endurhæfingu, kapellu, fundi og kennslu, tæknirými og geymslur.

Þessi stórbætta aðstaða, sem hér hefur verið útbúin, eflir mjög starfsemi HSu sem er orðin afar umfangsmikil. Ef ég man rétt þá eru fjárveitingar til stofnunarinnar um tveir milljarðar á árinu 2008, að meðtalinni fjárveitingu til Réttargeðdeildarinnar á Sogni. Og enda þótt Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem samanstendur af sjúkrahúsi, hjúkrunardeild fyrir aldraða og einum átta heilsugæslustöðvum sé öflug og góð stofnun, þá hef ég fullan hug á því að efla hana enn frekar til að tryggja að Sunnlendingar eigi þess kost að fá sem besta heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Þess utan hefur stefnan verið sett á að HSU geti þjónað sjúklingum af öðrum svæðum landsins, svo sem af Höfuðborgarsvæðinu.

Í vikunni var undirritað samkomulag Landspítala og Heilbrigðisstofnunarinnar hér um tilflutning verkefna frá Landspítala. Markmiðið með þeim samningi er að gera heilbrigðisþjónustuna á sunnan- og vestanverðu landinu betri og öruggari með víðtæku faglegu samstarfi. Betri samgöngur og bættar samgöngur, í næstu framtíð, hafa með öðru leitt til þess að atvinnusvæðið á suðvesturhorninu hefur stækkað og þetta svæði er orðið eitt atvinnu- og þjónustusvæði.  Það er því bæði sjálfsagt og fullkomlega eðlilegt að líta á sjúkrahúsþjónustuna og þjónustu heilbrigðisstofnananna, sem byggð hefur verið upp á svæðinu, sem eina samhangandi heild. Nýbyggingin sem nú er formlega tekin í notkun er hluti af þessari framtíðarsýn, hluti af þessari hugsun.

Samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir að við eflum bráðaþjónustu HSu með opnun nýrrar slysa- og bráðamóttöku og þá getum við dregið úr flutningum sjúklinga frá Suðurlandi til Landspítala. Einnig er gert ráð fyrir að HSu annist sjúklinga með lögheimili á Suðurlandi, sem þurfa á líknandi meðferð að halda, eða bíða eftir hjúkrunarrými, en þurfa að dvelja á sjúkrahúsi.

Auk þessa gerir samningurinn ráð fyrir að:

  • Heilbrigðisstofnun Suðurlands muni taka við hjarta- og lungnasjúklingum af Suðurlandi, sem liggja á Landspítala og hafa hlotið bráðameðferð þar en eru komnir á stig endurhæfingar
  • að HSu veiti öldruðum sjúklingum af Suðurlandi endurhæfingu eftir að þeir hafa leitað til Landspítala
  • að HSu taki við sjúklingum af Suðurlandi, sem legið hafa á Landspítala vegna ýmissa sjúkdóma sem þurfa langtíma sýklalyfjameðferð eftir að greiningu og bráðameðferð er lokið á LSH og eftir atvikum annars staðar að af landinu
  • að HSu taki við sjúklingum af Suðurlandi með heilabilun sem bíða eftir varanlegri vistun en þurfa ekki frekari greiningu eða sérhæfða meðferð á Landspítala
  • að HSu muni auka þjónustu sína á sviði barna- og unglingageðlækninga þannig að dragi úr innlögnum á BUGL, og að,
  • HSu styrki geðheilbrigðisþjónustu sína síðar á árinu með því að opna móttöku með þjónustu geðlæknis og eða sálfræðings. Samhliða því verður unnið að bættu samstarfi geðsviðs LSH og HSu.

Þetta nefni ég til að taka dæmi um svið þar sem Landspítalinn og HSu geta og eiga að vinna saman á.

Í þessu felst mikil áskorun fyrir þessa stofnun og miklir möguleikar sem ég er sannfærður um að það ágæta heilbrigðisstarfsfólk sem hér starfar tekur fagnandi. Og í þessu felast líka miklir möguleikar á samstarfi fagfólks milli stofnana.

Hér er ég að vísa til þess að við ætlum að vinna markvisst að tengingu HSu við svokallaðan Ljóra, sem er rafrænn gluggi Landspítala, en þetta þýðir að flæði upplýsinga um sjúklinga sem fá þjónustu á HSu og Landspítala einfaldast til muna. Gert er ráð fyrir að læknar og hjúkrunarfræðingar HSu leiti til kollega sinna á LSH og öfugt, hvenær sem er varðandi mál þeirra sjúklinga sem flust hafa milli stofnananna.

Allt á þetta að verða til þess að gera rekstur, en umfram allt þjónustuna við sjúklinga, sveigjanlegri, öruggari og samhæfðari.


Ágætu gestir.

Um leið og ég afhendi ykkur þessa byggingu formlega til afnota vil ég endurtaka þakkir mína til allra þeirra sem hafa lagt hönd á plóginn við bygginguna.

Hér er risin glæsileg bygging, hér verður veitt fyrirtaks þjónusta og ég er sannfærður um að þeir sem starfa hér sjá mikla framtíðarmöguleika í heilbrigðisþjónustunni.

Sunnlendingar eiga að vera stoltir af Heilbrigðisstofnun Suðurlands og það á að verða sjálfsagt mál að geta þjónað hér sjúklingum í heimabyggð.

Sterkari stofnun, fjölbreytilegur rekstur og þjónusta, þýðir að hingað vilja koma sjúklingar að sækja sér þjónustu.

Þetta er sú hugsun og möguleikar sem nú blasa við ykkur.

Til hamingju með þetta fyrst skref í átt að metnaðarfullu markmiði.


Talað orð gildir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum