Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Opnun á starfsemi Ljóssins

Hanna Katrín Friðriksson
aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra
flutti ávarpið fyrir hönd ráðherra

Ávarp aðstoðarmanns ráðherra við opnun á starfsemi Ljóssins,

endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra.

 

Ágætu gestir.

Ég ætla að byrja á því að flytja ykkur kveðju ráðherra sem því miður hafði ekki tök á að vera hér í dag. Og svo ætla ég að óska ykkur til hamingju með daginn og þetta nýja húsnæði sem þið eruð að taka hér í notkun.

Ég veit að það var dugur og þrautseigja ýmissa, sem neituðu að gefast upp, sem er ástæðan fyrir því að við erum hér samankomin í dag. Sá frumkvöðlakraftur og sú samheldni sem hefur lagt grunninn að þeirri glæsilegu aðstöðu sem við erum að fagna hér í dag er einkennandi fyrir hina íslensku þjóðarsál.

Þessi starfsemi, rekur í raun upphaf sitt til Landspítalans þar sem Erna Magnúsdóttir, iðjuþjálfi starfaði á göngudeild endurhæfingar fyrir krabbameinssjúka sem var staðsett rétt við voginn í Kópavogi. Erna fann þar fyrir þeirri þörf sem var fyrir þjónustu utan spítala og þegar breyting varð á starfsemi á Landspítala fylgdi hún sannfæringu sinni og fékk gott fólk í lið með sér til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og hér erum við.

Ég held að hægt sé að fullyrða að heilbrigðisþjónusta við fólk sem fær krabbamein er mjög góð hér á landi. Leitarstöðin er öflug í að finna tiltekin krabbamein á frumstigi eða forstigi. Reyndar er það svo að fólk fær greiningu og meðferð fyrr hér á landi en annars staðar,  hvort sem um er að ræða skurðaðgerð eða lyfjameðferð.  Hins vegar var það lengi svo að ekki var hugað að endurhæfingu eftir að meðferð lauk og helgast kannski af því að fólk var upptekið af því að lifa af.  Lífslíkur voru mun verri en nú er og kannski var ekki hugað nægilega að líðan þeirra sem lifðu af. Á undanförnum árum hafa lífslíkur aukist mjög mikið og aftur standa Íslendingar þar framarlega í samfélagi þjóða. Smátt og smátt hefur orðið ljóst að margir eru bæði þreyttir og móðir eftir baráttuna við krabbameinið. Þeir eru rétt sloppnir úr lífsháska og oft gengur meðferðin sjálf mjög nærri fólki. Því hefur fólk þörf fyrir aðstoð til að byggja sig upp og vinna úr þeirri lífsreynslu sem það hefur gengið í gegnum í sambandi við sjúkdóminn. Sú starfsemi sem hér fer fram leggur þar mikilvægt lóð á vogarskálarnar.

Um áramót styrkti heilbrigðisráðuneytið starfsemi Ljóssins um 4 milljónir króna. Við vitum að Ljósið er komið á fullt við að undirbúa námskeið fyrir börn þeirra sem greinast með krabbamein og mun nota hluta af styrknum til að fá inn listmeðferðarfræðing og sálfræðing til verksins.

En ég ætla ekki að orðlengja þetta meira. Enn og aftur óska ég ykkur til hamingju með þetta góða/glæsilega húsnæði og óska ykkur allra heilla í því starfi sem er framundan.

 

Talað orð gildir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum