Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Umferðaröryggi er forvarnamál

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra

Ávarp á morgunverðarfundi Slysavarnarráðs

6. febrúar 2008

Ágætu ráðstefnugestir.

Á ári hverju látast rúmlega milljón manns í heiminum vegna umferðarslysa. Fjöldi þeirra sem slasast er einhvers staðar á milli 20 og 50 milljónir manna árlega. Samfélagslegur kostnaður vegna umferðarslysa er geigvænlegur, og okkur skortir bæði orð og hugtök til að meta hinn óbeina kostnað sem aldrei verður metinn til fjár, þ.e.a.s. tilfinningalegt tjón borgaranna, brostnar vonir þeirra og breyttar framtíðarhorfur.

Og það er umhugsunarefni í þessu sambandi, að dauðaslys í umferðinni í heiminum voru í öðru sæti yfir dánarorsakir fimm til fjörutíu og fjögurra ára fyrir nokkrum árum, svo vitnað sé til David Silcocks, eins fremsta umferðasérfræðings heimsins.

Þetta eru miklar fórnir.

Þegar Alþingi ræddi heilbrigðisáætlun til ársins 2010 var eitt forgangsverkið að draga úr slysum barna og úr kostnaði vegna umferðarslysa. Hagfræðistofnun hafði unnið upp mat á kostnaði vegna umferðarslysa og komst að þeirri niðurstöðu þá, að kostnaðurinn væri að minnsta kosti 14 til 18 milljarðar króna á ári. Og í því reikningsdæmi voru glötuð æviár, örkuml og þjáning ekki metin til fjár.

Umferðarslysin eru ótrúlega kostnaðarsöm, fórnirnar og þjáningar fórnarlamba þeirra ólýsanlegar.

Góðir gestir.

Umferðaröryggi hefur fram til þessa ekki verið flokkað sem viðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar, eða “heilbrigðisvandamál”. Smám saman hefur þetta hins vegar verið að breytast og sést af því til dæmis, að Alþjóðlegi heilbrigðisdagur Sameinuðu þjóðanna árið 2004 var helgaður umferðaröryggi.

Umferðaröryggi og slysavarnir í umferðinni er málaflokur sem hafa ekki verið á dagskrá Sameinuðu þjóðanna en með samstarfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og FÍA, Alþjóðasambands bifreiðaeigenda var málið tekið á dagskrá alheimssamtakanna. Þessu starfi er stjórnað af Lord Robertson, fyrrverandi framkvæmdastjóra NATO og Michael Schumacher margföldum heimsmeistara í Formulu 1 undir kjörorðinu “Make Roads Safe” (Gerum vegina örugga). Þetta leiddi til þess til dæmis að umferðaröryggi er nú komið á dagskrá G8 hópsins og verið er að undirbúa alheimsráðstefnu allra samgönguráðherra heimsins á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Ég nefndi hér að fram dæmi um þau skörð sem umferðarslysin höggva í kynslóðir á besta aldri árlega. Og það eru fleiri viðmið sem ættu að opna augu okkar fyrir mikilvægi umferðaröryggis.

  • Banaslys í umferð eru 9. algengasta ótímabæra dánarorsök í heiminum þegar allir aldurshópar eru teknir með
  • Banaslys í umferðinni verða í 3. sæti árið 2020 ef ekkert verður að gert að mati WHO
  • 75 - 80% alvarlegra umferðarslysa verða í þróunarríkum
  • Tjón þróunarríkjana af völdum umferðarslysa er meira en þróunarhjálpin
  • 1,2 miljónir manna deyja árlega í umferðarslysum í heiminum
  • Það eru yfir 3000 manns á dag, eða svipað og í hryðjuverkaárásinni á Bandaríkin 11. september 2001
  • Á hverri klukkustund deyja 125
  • Eða TVEIR á hverri einustu mínútu, alla daga ársins
  • Þriðju hverju mínútu deyr barn í umferðarslysi í heiminum
  • Bandaríkjamenn missa jafnmarga á hverri klukkustund og fórust með geimskutlunni "Columbiu"

Þetta var alheimurinn. Og þetta eru svo kennitölurnar frá Íslandi:

  • 24 láta lífið í umferðarslysum að meðaltali árlega
  • Hátt í 200 manns eru alvarlega slasaðir árlega
  • Þetta samsvarar einum “Fokker” á tveggja ára fresti af látnum
  • Einni 757 farþega þotu á 7 ára fresti af látnum
  • Heilu sveitarfélögin alvarlega slösuð á nokkra ára fresti
  • Á árunum 1966 til 2004 hafa 956 manns farist í umferðarslysum á Íslandi
  • 185 börn. 231 á aldrinum17-25 ára og 370 á aldrinum 25-64 ára 

 

Þetta eru staðreyndirnar og þetta getum við ekki sætt okkur við.

Hér á árum áður missti íslenska þjóðin heilu skipsáhafnirnar á hverju ári.

Menn sögðu “Sjórinn gaf og sjórinn tók”.  Stórátak var gert í öryggismálum sjómanna með miklum árangri.  Nú heyra slys af þessu tagi nánast sögunni til.

Í dag má líkja ástandinu í umferðinni við sjómennskuna áður. Nú þurfum við að gera stórátak í bættu umferðaröryggi.

Margt hefur áunnist á undanförnum árum. Bílar í dag eru mun öruggari en fyrir nokkrum árum. Sá árangur náðist til dæmis með EuroNCAP verkefninu, sem staðið hefur í rúm 10 ár sem gengur út á það meðal annars að veita bílum stjörnur fyrir öryggi.

Sama þarf að gera hvað varðar öryggi vegakerfisins.

Vinna við það er hafin á vegum samgönguráðuneytisins, Umferðarstofu og Vegagerðarinnar í samvinnu við Félag íslenskra bifreiðaeigenda með staðlaðri evrópskri úttekt á öryggi vega sem nefnist EuroRAP (European Road Assesment Program).

Úrbætur vegna þessa átaks eru þegar farnar að sjá dagsins ljós. Vegirnir eru lykilatriði í bættu umferðaröryggi og það sem við getum helst haft áhrif á, samhliða góðri löggæslu og góðri hegðun ökumanna sjálfra.

Að mínum dómi eru það nokkur áhersluatriði sem okkur ber að leggja áherslu á. Dæmi:

  • Aðskilja gagnstæðar akstursstefnur
  • Verja fjármunum vel að teknu tilliti til umferðarmagns og umferðaröryggis
  • Ná sem flestum km. af öruggum vegum fyrir það fjármagn sem við höfum
  • Bæta sem mest af vegakerfinu á sem styðstum tíma
  • Nota viðurkenndar aðferðir til að ná þessum markmiðum
  • Hafa umferðaröryggi og umferðarflæði að leiðarljósi
  • Nota þá staðla um vegagerð sem við erum aðilar að
  • Taka tillit til aðferða sem þær þjóðir hafa notað sem mestum árangri hafa náð í umferðaröryggi

 

Og mér finnst að við þurfum að taka upp nýja "H" hugsun í umferðarmálum sem felst í:

  • Hreyfanlegri umferð
  • Hagkvæmari umferð
  • Hreinni umferð
  • Hindrunarlausri umferð
  • Hættulausri umferð

Markmiðið er: 5 stjörnu bílar á 5 stjörnu vegum með 5 stjörnu ökumönnum.

Þannig fækkum við umferðarslysum. Þannig drögum við úr kostnaði samfélagsins og hins óbeina, ósýnlega og ólýsanlega kostnaði sem einstaklingurinn verður fyrir.

Góðir gestir.

Umferðaröryggi er heilbrigðismál. Umferðaröryggi er forvarnamál. Mál sem snýst um heilsu þjóðarinnar í bráð og lengd og því er það vel til fundið að Lýðheilsustöð og Slysavarnaráð skuli efna til þessa morgunverðarfundar hér í dag.

Af ráðnum hug eftirlæt ég sérfræðingunum að fjalla um kosti og galla 2+2 og 2+1 vega. Sú umræða er einn þáttur umferðaröryggisins og ekki lítill, en ég hef lagt áherslu á það hér að vekja menn til umhugsunar um afleiðingar umferðarslysa og kostnaðinn sem menn bera. Þær staðreyndir ættu að hvetja menn til dáða – þær ættu að gera okkur meðvituð um það hvert og eitt hve ríka ábyrgð við berum í umferðinni.

Höfum hugfast að þegar við göngum héðan út eftir tveggja tíma umræður hafa 250 manns látist í heiminum vegna umferðarslysa. Um þrjú þúsund manns hafa slasast alvarlega á sama tíma – margir svo illa að við blasir brostin framtíð.  Það hefði mátt koma í veg fyrir mörg þessara slysa, hefðum við bruggðist við fyrr.

Gerum vegina örugga.

 

(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum