Hoppa yfir valmynd
16. mars 2017 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 156/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 16. mars 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 156/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17020006

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, sem barst kærunefnd útlendingamála þann 6. febrúar 2017, kærði [...] hdl., f.h. […], kt. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. janúar 2017, um að synja kæranda um ótímabundið dvalarleyfi.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda og sonum hans áframhaldandi búsetuleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests samkvæmt ákvæðinu.

 

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi fyrir maka Íslendings hinn 3. júlí 2013 og var það endurnýjað tvívegis þar til kærandi fékk heimild til dvalar án dvalarleyfis vegna hjúskapar hinn 7. janúar 2016. Sá réttur féll niður þegar kærandi og maki hans skildu að lögum hinn 19. október 2016. Kærandi sótti um ótímabundið dvalarleyfi hinn 1. september 2016 og synjaði Útlendingastofnun þeirri umsókn þann 20. janúar 2017. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála og barst kæran nefndinni 6. febrúar 2017. Með tölvupósti sama dag var óskað eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Beiðni þessi var ítrekuð tvívegis, þann 20. febrúar og 1. mars 2017. Umbeðin gögn bárust kærunefnd þann 2. og 6. mars 2017, en stofnunin gerði ekki athugasemdir við kæruna. Greinargerð og gögn frá kæranda bárust kærunefnd þann 6. mars 2017. Frekari gögn bárust frá kæranda þann 13. mars 2017.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi uppfylli ekki skilyrði laga um útlendinga um ótímabundið dvalarleyfi þar sem hann sé með [...], sbr. e-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Þar af leiðandi var umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi synjað.

 

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kveðst kærandi […]. Kærandi kveðst frá upphafi hafa [...]. Kærandi kveðst hafa starfað sem húsamálari hjá sama fyrirtækinu í u.þ.b. fjögur ár. Hann kveðst vera dugnaðarforkur og fagmaður og eigendur fyrirtækisins gefi honum góða einkunn og það væri að þeirra mati mikill missir fyrir fyrirtækið að missa hann úr vinnu. Kærandi greinir frá því að hann eigi tvo syni sem dvelji hjá honum sem séu báðir námsmenn og efnilegir knattspyrnumenn. Kærandi kveðst eiga dóttur hér á landi með fyrrverandi eiginkonu sinni og að hann þrái að fylgjast með uppvexti hennar. Kærandi heldur því fram að verði honum og sonum hans vísað úr landi verði framtíð þeirra lögð í rúst. Þeirra bíði engin framtíð í heimalandi. Þá yrði það mikið áfall fyrir kæranda að fá ekki að umgangast dóttur sína. Á grundvelli meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og af mannúðarástæðum óskar kærandi eftir því að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda og sonum hans áframhaldandi búsetuleyfi.

 

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um ótímabundið dvalarleyfi samkvæmt 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laganna er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Frekari skilyrði koma fram í a-e lið ákvæðisins. Nánar tiltekið kemur fram í e-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga að skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis sé að útlendingur eigi ekki ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.

Útlendingastofnun synjaði umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi í ljósi þess að til meðferðar [...] og uppfyllti kærandi því ekki e-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. [...]. Í 2. og 3. mgr. 58. gr. laganna er að finna undantekningar frá skilyrðum 1. mgr. 58. gr. Þær undantekningar eiga hins vegar ekki við um e-lið 1. mgr. 58. gr. laganna sem fjallað er um í máli þessu. Er þar með ljóst að ekki eru uppfyllt skilyrði e-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, en ekki er gert ráð fyrir því að unnt sé að víkja frá ákvæðinu af ástæðum líkt og þeim sem kærandi hefur tilgreint máli sínu til stuðnings, svo sem vegna mannúðarástæðna.

Kærandi krefst þess að beitt sé meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga í máli hans. Í meðalhófsreglunni felst að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Jafnframt skal gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Ákvæði e-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er fastmótað og veitir ekki svigrúm til mats í þessu tilfelli. Ljóst er að kærandi uppfyllir ekki skilyrði ákvæðisins. Kærunefnd fellst ekki á að synjun umsóknar um ótímabundið dvalarleyfi á þessum grundvelli feli í sér brot á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Með vísan til framangreinds verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                  Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum