Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Bráðaviðbragð skipulagt í Öræfum til framtíðar

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra - mynd

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að styrkja heilbrigðisþjónustu og bráðaviðbragð í Öræfum árið um kring. Starfshópur verður skipaður um verkefnið til að móta fyrirkomulag þess og á hann að skila tillögum til ráðherra í lok október. Ráðherra hefur jafnframt ákveðið að framlengja núverandi fyrirkomulag bráðaviðbragðs í Öræfum til loka þessa árs. Byggir hún þá ákvörðun m.a. á sameiginlegu mati forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) og sveitarstjórnar Hornafjarðar um nauðsyn þess.

Þótt fjöldi ferðamanna sé mestur yfir sumarmánuðina reynist mesta álagið vegna alvarlegra útkalla á svæðinu vera á tímabilinu desember til mars: „Ég tel einboðið að ráðast í þetta verkefni til að auka öryggi íbúa og þeirra sem leið eiga um þetta strjálbýla en fjölfarna svæði. Ég mun einnig ræða við innviðaráðuneytið um hvernig auka megi umferðaröryggi á svæðinu og að skoðaðir verði möguleikar þess að byggja upp viðurkenndan sjúkraflugvöll á svæðinu“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.

Síðastliðin tvö sumur hefur verið haldið úti bráðaviðbragði í Öræfasveit sem felst í stöðugri viðveru sjúkrabíls og reynds sjúkraflutningamanns sem sinnir bráðaþjónustu í samstarfi við björgunarsveitina Kára. Heilbrigðisstofnun Suðurlands skipulagði í vor að beiðni ráðherra samskonar viðbragð fyrir þetta sumar. Markmiðið er að tryggja skjót viðbrögð, s.s. ef meta þarf áverka eftir slys, bregðast við bráðaveikindum, veita fyrstu hjálp og undirbúa flutning á sjúkrastofnun ef þarf. Þetta hefur verið talið nauðsynlegt vegna öryggis íbúa og ferðamanna á svæðinu þar sem sækja þarf heilbrigðisþjónustu um langan veg. Næstu heilsugæslur eru á Kirkjubæjarklaustri í vestri og Höfn í austri en þar á milli eru um 200 kílómetrar.

Það er samdóma mat heilbrigðisráðuneytisins og HSU að þörf sé á því að styrkja heilbrigðisþjónustu og bráðaviðbragð á þessu dreifbýla svæði. Horft verður til leiða sem styrkja samþætt og staðbundið bráða- og heilsugæsluviðbragð árið um kring sem nýtist íbúum í Öræfum og öðrum sem leið eiga um svæðið. Verkefni starfshóps sem settur verður á fót verður að gera tillögur til ráðherra um fyrirkomulag þjónustunnar.

Fréttin hefur verið uppfærð

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta