Hoppa yfir valmynd
8. júní 2016 Innviðaráðuneytið

Breytt fyrirkomulag á húsnæðisstuðningi við leigjendur

Húsin í götunni
Húsin í götunni

Ríki og sveitarfélög hafa gert með sér samkomulag um breytta verka- og kostnaðarskiptingu vegna húsnæðisstuðnings við leigjendur. Samkomulagið tekur gildi þann 1. janúar 2017 samhliða gildistöku nýs húsnæðisbótakerfis.

Meðal nýmæla er að öllum sveitarfélögum verður skylt að veita sérstakan húsnæðisstuðning samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga í samræmi við nánari reglur sem sveitarfélög skulu setja sér. Greiðslur húsnæðisbóta verða á hendi ríkisins en sveitarfélög munu áfram annast framkvæmd sérstaks húsnæðisstuðnings.

Samkomulagið er gert í tengslum við nýsamþykkt lög um húsnæðisbætur sem hafa það að markmiði að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform.

Til þessa hafa sveitarfélögin annast umsýslu húsnæðisstuðnings við leigjendur, þ.e. greiðslu almennra húsaleigubóta og borið um 30-40% kostnaðarins á móti ríkinu. Sum sveitarfélög hafa einnig greitt sérstakan húsnæðisstuðning til viðbótar við almennar húsaleigubætur til leigjenda sem búa við mjög erfiðar félagslegar og fjárhagslegar aðstæður. Ríkið hefur greitt um 60% kostnaðar vegna slíks sérstaks húsnæðisstuðnings á móti 40% hlutdeild sveitarfélaganna. Síðustu ár hefur um þriðjungur sveitarfélaga veitt sérstakan húsnæðisstuðning.

Við gildistöku laga um húsnæðisbætur þann 1. janúar nk. mun ríkið taka að sér alla umsýslu með almennum húsnæðisstuðningi við leigjendur (húsnæðisbótum) og allur kostnaður vegna hans greiðast úr ríkissjóði. Þar með skapast fjárhagslegt svigrúm hjá sveitarfélögunum sem verður m.a. nýtt þannig að sérstakur húsnæðisstuðningur við leigjendur sem búa við erfiðar aðstæður verður áskilinn í öllum sveitarfélögum landsins. Umsýsla með sérstökum húsnæðisstuðningi verður hjá sveitarfélögunum og munu þau greiða kostnað vegna hans. Félags- og húsnæðismálaráðherra mun setja leiðbeinandi reglur um framkvæmd sérstaks húsnæðisstuðnings sveitarfélaga og gefa út viðmiðunarfjárhæðir.

Húsnæðisstuðningur vegna barna yngri en 18 ára á heimavistum eða námsgörðum

Samkvæmt lögum um húsnæðisbætur skulu sveitarfélög meðal annars greiða sérstakan húsnæðisstuðning til foreldra eða forsjáraðila 15-17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum án tillits til tekna og eigna foreldranna eða forsjáraðilanna, ólíkt því sem almennt gildir um sérstakan húsnæðisstuðning. Því til viðbótar er gert ráð fyrir að foreldrar eða forsjáraðilar slíkra barna geti átt rétt til hærri húsnæðisbóta vegna barnanna.

Reglur um úthlutun félagslegs íbúðarhúsnæðis

Samkvæmt samkomulaginu er sveitarfélögum ætlað að setja sér reglur um úthlutun félagslegs íbúðarhúsnæðis í því skyni að tryggja slíkt húsnæði þeim sem á þurfa að halda og lágmarka bið eftir því eins og kostur er. Gert er ráð fyrir að félags- og húsnæðismálaráðherra setji sveitarfélögunum leiðbeinandi reglur hvað þetta varðar.

Samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um húsnæðismál

Sett verður á fót samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga sem mun vakta og greina áhrif samkomulagsins auk þess sem nefndin mun hafa það hlutverk að fylgjast með hvernig markmiðum nýrrar löggjafar á sviði húsnæðismála er náð. Jafnframt skal nefndin fylgjast með útgáfu stjórnvaldsfyrirmæla á því sviði og annarri stjórnsýsluframkvæmd ásamt því að meta fjárhagsleg áhrif þeirra gagnvart sveitarfélögum. Gert er ráð fyrir að samráðsnefndin setji fram ábendingar eða tillögur um úrbætur þegar tilefni er til. Nefndin skal enn fremur fjalla um þróun á sérstökum húsnæðisstuðningi sveitarfélaga og uppbyggingu á félagslegu íbúðarhúsnæði sem og fylgjast með almennu framboði íbúðarhúsnæðis í sveitarfélögum, þ.m.t. skipulagsmálum og framboði á lóðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum