Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2015 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drög að breytingu á reglugerð um flug- og vinnutímamörk flugverja til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá ráðuneytinu drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um flug- og vinnutímamörk og hvíldartíma flugverja. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir til og með 19. febrúar næstkomandi á netfangið [email protected].

Markmið reglugerðar nr. 1043/2008 um flug- og vinnutímamörk og hvíldartíma flugverja er að setja flug- og vinnutímamörk og hvíldartíma flugverja í samræmi við ákvæði reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 83/2014 frá 29. janúar 2014 um breytingar á reglugerð (ESB) nr. 965/2012 um tæknikröfur  og stjórnsýslureglur í tengslum við starfrækslu loftfara.

Núgildandi reglur er að finna í Q-kafla III. viðauka við reglugerð ráðsins nr. 3922/91 um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála með síðari breytingum. Þá er lagt til með breytingunni, á grundvelli 1. gr. reglugerðar framkvæmdastjórnar (ESB) nr. 83/2014, að ofangreindar kröfur muni ekki gilda eftir að aðlögunartíma samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar lýkur. Aðlögunartími er fram til 18. febrúar 2016 en þá taka nýjar reglur í gildi. Af þessum sökum þarf að innleiða reglugerð nr. 83/2014 sem ætlað er að taka við af reglugerð 3922/91 hvað varðar flutningaflug flugvéla. Þá er  lagt til að með breytingunni verði 1. mgr. 4. gr., um meðferð undanþágubeiðna, aðlöguð að gildandi reglum. Lagt er til að nýta þá heimild sem kveðið er á um í 2. gr. reglugerðar 83/2014 um að fresta gildistöku ákvæða um hámarks tíma fyrir flugvakt á hverjum degi, þar sem hvíld á sér stað um borð,fram til 17. febrúar 2017. Flugrekendur þurfa að gera tæknilegar breytingar á innri kerfum til þess að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar og gert er ráð fyrir að því ferli verið lokið 17. febrúar 2017.

Með reglugerð þessari eru efnislega útfærðar tvær reglugerðir framkvæmdastjórnar ESB. Annars vegar reglugerð nr. 83/2014 og hins vegar reglugerð nr. 71/2014, en þær varða báðar breytingu á reglugerð (ESB) nr. 965/2012 um tæknilegar kröfur og stjórnsýslumeðferðir er varða flugrekstur samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008. Með reglugerð nr. 83/2014 eru innleiddar kröfur um flug- og vinnutímamörk flugverja og reglur um hvíldartíma. Reglugerðin geymir ákvæði sem eru að hluta sambærileg ákvæðum núgildandi reglugerðar nr. 1043/2008 ásamt viðaukum, en þó eru gerðar breytingar á lykilþáttum varðandi flug- og vinnutímamörk auk hvíldartíma. Kostnaður stjórnvalda er fyrst og fremst fólginn í uppfærslu innri gæðakerfa hjá Samgöngustofu.

Enn fremur eru með breytingunni settar fram kröfur á flugmálayfirvöld um útfærslu á tilteknum þáttum reglugerðarinnar. Kostnaður fyrir atvinnulífið er breytilegur þar sem um er að ræða áhrif á nýtingu áhafna m.t.t. krafna um vinnu- og hvíldartíma sem eru háðar eðli og umfangi rekstrarins.

Þá er með reglugerð nr. 71/2014 er stefnt að því markmiði að lagfæra tilvísanir í gögn um örugga starfsrækslu. Þetta eru gögn um tæknilegar kröfur fyrir gerð grunnlista yfir lágmarksbúnað loftfara, svokallaða MMEL og þjálfun flugverja. Um ítarlegar tæknilegar upplýsingar er að ræða fyrir þá sem hanna og samþykkja grunnlista yfir lágmarksbúnað loftfara, þ.e. MMEL og þjálfun flugverja. Enginn sérstakur kostnaður er fyrirsjáanlegur annar en ofan greinir af breytingunni, hvorki fyrir stjórnvöld né atvinnulífið og ekki er þörf á neinum sérstökum aðgerðum öðrum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira