Hoppa yfir valmynd
23. september 2016 Dómsmálaráðuneytið

Árétting frá innanríkisráðuneytinu

Vegna umræðu um afstöðu innanríkisráðuneytisins til tillagna nefndar um dómarastörf um birtingu upplýsinga um aukastörf dómara og eignarhluti dómara í félögum vill ráðuneytið árétta að ekki var lagst gegn tillögum nefndar um dómarastörf við gerð nýrra dómstólalaga og bendir á eftirfarandi:

Nefnd um dómarastörf sendi ráðuneytinu tillögur sínar að breytingum á lögum um dómstóla og reglum um aukastörf dómara og eignarhluti í félögum og atvinnufyrirtækjum í maí 2014. Tillögur nefndarinnar lutu að breytingu á 26. gr. laga um dómstóla og var þar eingöngu lagt til að kveðið yrði á um í lögum að nefndin héldi skrá um aukastörf dómara. Í skránni skyldu koma fram almennar upplýsingar um aukastörf sem dómari gegndi áður en hann tók við embætti dómara og að nefndin setti reglur um hvaða upplýsingar um aukastörf dómara skyldu birtar og með hvaða hætti.

Jafnframt lagði nefndin til breytingar á reglum um aukastörf dómara og eignarhluti í félögum og atvinnufyrirtækjum. Þar var lagt til að nefndin héldi skrá á grundvelli reglnanna. Í skránni skyldu koma fram upplýsingar m.a. um aukastörf dómara og eignarhald dómara í félagi eða atvinnufyrirtæki. Þá var lagt til að nefndin tæki ákvörðun um hvort skráin skyldi birt í heild sinni eða að hluta.

Í nýjum dómstólalögum voru framangreindar tillögur nefndarinnar að lagabreytingum, um að halda skyldi skrá um aukastörf dómara og þau störf sem hann gegndi áður en hann tók við embætti, lagðar til grundvallar en að auki skýrt kveðið á um að slík skrá skyldi vera opinber. Jafnframt var lagt til að nefnd um dómarastörf setti reglur um hvers konar aukastörf og eignarhald á hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki eða þátttöku og störf í þágu annarra félaga og samtaka geti samrýmst embættisstörfum dómara. Þá var hert á heimildum dómara til að taka að sér aukastörf og rétti þeirra til að eiga hlut í félagi þar sem meginreglan samkvæmt hinum nýju lögum er að dómarar mega ekki taka að sér aukastörf eða eiga hlut í félagi. Það sé eingöngu á færi nefndar um dómarastörf að gera þar undanþágu á í samræmi við reglur sem nefndin setur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum