Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 50/2019 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 12. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

 

úrskurður nr. 50/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19010022

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 517/2018, dags. 28. nóvember 2018, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. september 2018, um að taka umsókn einstaklings sem kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Sýrlands (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Fyrir liggur að kærandi nýtur alþjóðlegrar verndar í Þýskalandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 3. desember 2018. Þann 7. desember sl. barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar, dags. 20. desember sl., var þeirri beiðni hafnað. Þann 18. janúar 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt greinargerð og fylgigagni. Viðbótargögn frá kæranda bárust kærunefnd þann 24. janúar sl.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Beiðni kæranda um endurupptöku er sem fyrr segir reist á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þ.e. þar sem atvik í máli hans hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Fer kærandi fram á að málið verði endurupptekið, að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og að stofnuninni verði gert að taka umsókn hans til efnislegrar meðferðar. Í greinargerð kæranda er rakið að hann hafi verið lagður inn á bráðaþjónustudeild geðsviðs á Landspítalanum þann 20. desember 2018. Þar hafi kærandi verið metinn í geðrofi vegna aðsóknarkenndar, með svefntruflanir og breytingum í hegðun.

Fyrir liggi göngudeildarnótur en þar sé einnig greint frá fyrri sjúkrasögu kæranda. Hann hafi áður verið greindur með áráttu og þráhyggjuröskun (e. Obsessive Compulsive Disorder) og áfallastreituröskun (e. Post-Traumatic Stress Disorder). Þá komi fram í göngudeildarnótu, dags. 20. desember sl., sem liggi fyrir í málinu, að kærandi hafi m.a. tjáð aðsóknarlegar hugmyndir og að ekki hafi náðst að meta sjálfsvígshugmyndir þar sem kærandi hafi ekki svarað fyllilega. Að mati kæranda gefi göngudeildarnótan til kynna að málið nái tilteknu alvarleikastigi. Telur kærandi ljóst að heilsu hans hafi hrakað verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður kærunefndar útlendingamála var kveðinn upp og því séu skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga uppfyllt.

Í viðbótargögnum sem kærandi lagði fram þann 24. janúar sl., sem varpa nánara ljósi á heilsufar kæranda og dvöl hans á legudeild móttökugeðdeildar, kemur m.a. fram að kærandi hafi verið útskrifaður þann 21. desember sl. Greining kæranda sé svörun við mikilli streitu og í áliti sérfræðilæknis í geðlækningum kemur fram að líklega sé um að ræða streitutengda svefntruflun. Ekki sé hægt að staðfesta geðrofseinkenni og mögulega geti verið um að ræða áhrif eða afleiðingar neyslu örvandi efna.

III.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 28. nóvember 2018. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki talið eiga við í máli kæranda, þ.e. kærandi hefði ekki slík sérstök tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar nr. 517/2018 frá 28. nóvember sl. og þau fylgigögn sem liggja fyrir í málinu, þ.e. göngudeildarnótur, læknabréf og önnur gögn, dags. 20. til 21. desember 2018. Telur kærunefnd að um sé að ræða nýjar og um sumt ítarlegri upplýsingar um það sem fyrir lá þegar úrskurður í máli kæranda var kveðinn upp. Þessi gögn sem lögð hafa verið fram, varðandi heilsufar kæranda, benda þó ekki til þess að um verulega breyttar aðstæður sé að ræða frá því að úrskurður kærunefndar lá fyrir í máli hans. Við ákvörðunartöku í máli kæranda lá m.a. fyrir að hann hafði glímt við nokkra andlega erfiðleika og haft þörf fyrir notkun tiltekinna lyfja. Var það lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Í máli kæranda var hins vegar jafnframt lagt til grundvallar, með vísan til skýrslna um aðstæður í Þýskalandi, að kærandi gæti leitað sér viðhlítandi heilbrigðiþjónustu þar í landi vegna heilsufarsvandamála sinna.

Í ljósi ofangreinds telur kærunefnd að þegar hafi verið tekin afstaða til málsástæðna og aðstæðna kæranda, sem hann ber fyrir sig í máli þessu, og þá hafi atvik þess ekki breyst verulega frá því úrskurður nefndarinnar frá 28. nóvember sl. var kveðinn upp. Þá ítrekar kærunefnd það sem fram kom í áðurnefndum úrskurði nefndarinnar að kærandi, sem handhafi alþjóðlegrar verndar í Þýskalandi, á rétt á sambærilegri opinberri heilbrigðisþjónustu og þýskir ríkisborgarar. Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins, þ.m.t. framlagðra gagna kæranda, er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 28. nóvember sl. hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.


 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

 

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

                                                                            Árni Helgason                                                                                                     Þorbjörg I. Jónsdóttir

                                                               

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum