Hoppa yfir valmynd
5. mars 2014 Utanríkisráðuneytið

Málefni Úkraínu rædd við utanríkisráðherra Eistlands

Gunnar Bragi Sveinsson og Urmas Paet

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með Urmas Paet, utanríkisráðherra Eistlands, í Tallinn. Ísland var fyrsta ríkið sem viðurkenndi endurnýjað fullveldi Eistlands árið 1991 og á fundinum kom enn og aftur fram mikið vinarþel íbúa Eistlands í garð Íslendinga vegna þess frumkvæðis. Innan tíðar verður stigið sögulegt skref í samskiptum Íslands og Eistlands þegar sendiráð ríkjanna munu samnýta húsnæði í nýrri sendiráðsbyggingu í Peking sem byggð er af eistneskum stjórnvöldum.

Meginefni fundarins var umfjöllun um þá alvarlegu stöðu sem nú ríkir í Úkraínu. Ráðherrarnir ræddu framvindu mála síðustu daga og með hvaða hætti alþjóðasamfélagið geti brugðist við hernaðaraðgerðum Rússa á Krímskaga. Utanríkisráðherra ítrekaði fordæmingu Íslands á framferði Rússa, sagði aðgerðir þeirra á Krímskaga brot á alþjóðalögum og undirstrikaði að rússneskur liðsafli verði að hverfa aftur til bækistöðva sinna svo hægt verði að leita sátta með friðsamlegum hætti.

Þá ræddu ráðherrarnir málefni norðurslóða og hlutverk Norðurskautsráðsins en eistnesk stjórnvöld efla nú þennan þátt í utanríkisstefnu sinni. Gunnar Bragi kynnti ákvörðun stjórnvalda um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og rætt var um öryggis- og varnarmál og samstarf Íslands og Eistlands á því sviði m.a. á vettvangi
Atlantshafsbandalagsins.

Gunnar Bragi mun á morgun taka þátt í sameiginlegum fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Visegradríkjanna, Póllands,
Slóvakíu, Tékklands og Ungverjalands, sem haldinn verður í borginni Narva.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira