Hoppa yfir valmynd
21. maí 2016 Dómsmálaráðuneytið

Tíu skiluðu framboðum til kjörs forseta Íslands 25. júní 2016

Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri stýrði fundinum og fór hún yfir næstu skref og var fundarmönnum einnig gefinn kostur á að kynna sér gögn sem lágu frammi.

Ráðuneytisstjóri tilkynnti hver hefðu skilað framboðum fyrir lok framboðsfrests en þau eru:

  • Andri Snær Magnason 

  • Ástþór Magnússon Wium 

  • Davíð Oddsson 

  • Elísabet Kristín Jökulsdóttir

  • Guðni Th. Jóhannesson 

  • Guðrún Margrét Pálsdóttir

  • Halla Tómasdóttir 

  • Hildur Þórðardóttir 

  • Magnús Ingberg Jónsson

  • Sturla Jónsson

Fram kom að Magnús Ingberg Jónsson hefði lýst því yfir að hann hefði ekki náð að skila til ráðuneytisins nægjanlegum fjölda meðmælenda. Hefði hann óskað eftir fresti fram á mánudagskvöld til að afla fullnægjandi gagna en upplýst var á fundinum að ekki væru lagaheimildir til að verða við því.

Í 4. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945, segir að framboðum til forsetakjörs skuli skila eigi síðar en 5 vikum fyrir kjördag til ráðuneytisins ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningabærir. Einnig segir í lögunum að ráðuneytið skuli auglýsa í útvarpi og Lögbirtingablaðinu innan viku hver séu í kjöri til forsetaembættisins.

Ráðuneytið mun á næstu dögum fara yfir það hvort ofangreindum framboðum fylgi tilskilin gögn og auglýsa í kjölfarið hver séu formlega í kjöri til forsetaembættisins 25. júní 2016 eins og kveðið er á um í áðurnefndri 4. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands. Sú auglýsing verður birt í síðasta lagi næstkomandi föstudag, 27. maí 2016 og afgreiðir ráðuneytið þá jafnframt öll framkomin skjöl til Hæstaréttar Íslands eins og lög kveða á um.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum