Hoppa yfir valmynd
2. júní 2005 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 13/2004

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 13/2004:

A

gegn

Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins

 

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 2. júní 2005 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

Kærunefnd jafnréttismála barst kæra A, dags. 3. nóvember 2004, þess efnis að Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins forgangsraði í störf eftir kyni. Kærandi kveður málavexti vera þá að hann hafi leitað eftir starfi aðstoðarmanns bakara hjá Myllunni-Brauði hf. á vegum Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins en af ráðningu hafi ekki orðið. Honum hafi skömmu síðar verið boðið starf við þrif hjá fyrirtækinu, og er eftir hafi verið leitað hafi hann fengið þær upplýsingar að umrætt aðstoðarmannsstarf bakara hafi verið ætlað konu.

Kærunefndin óskaði eftir umsögn Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins um kæruefnið. Í svari Vinnumiðlunar, dags. 3. janúar 2005, kemur fram að af gefnu tilefni hafi Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins fyrir u.þ.b. þremur árum breytt eyðublaði því sem atvinnurekandi skrái verkbeiðni sína á og því sé ekki gert ráð fyrir að tilgreint sé kyn væntanlegs umsækjanda um störf hjá þeim aðilum sem leita til Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins.

Í bréfinu segir einnig:

Engu að síður koma stundum fram eindregnar óskir frá atvinnurekendum um annað kynið t.d. í símtölum eða neðanmáls á umsóknareyðublaði. Stundum eru þessar óskir vegna samsetningar hópsins á vinnustaðnum og í þeim tilgangi að jafna hlutfall kynjanna. Tilgangslítið hefur reynst að senda umsækjendur af gagnstæðu kyni í slík viðtöl og hefur það valdið óþægindum og gremju á báða bóga og oft verið sérlega óþægilegt fyrir atvinnuleitendur sem geta upplifað óverðskuldaða vanþóknun og höfnun við slíkar aðstæður. Líklegt er að viðkomandi vinnumiðlari hafi viljað hlífa kæranda við slíkum aðstæðum í þessu tilfelli miðað við þau gögn sem fyrir hendi eru.

Kærunefnd jafnréttismála óskaði sérstaklega eftir afriti af verkbeiðni Myllunnar-Brauðs hf. um útvegun starfsmanns í starf aðstoðarmanns bakara sem auglýst var 21. september 2004 og kæruefnið lýtur að. Einnig var af gefnu tilefni óskað eftir afriti af beiðnum Myllunnar-Brauðs hf. varðandi hreingerningastörf frá sama tíma.

Umrædd gögn hafa borist nefndinni. Af verkbeiðni, dags. 15. september 2004, vegna aðstoðarmanns bakara, verður ekki ráðið að óskað hafi verið eftir starfsmanni af öðru hvoru kyninu. Í verkbeiðni, dags. 10. september 2004, varðandi ræstingarstarf, segir hins vegar í yfirskrift beiðninnar: „Ræstingar 8-16   k.k. 50-60 ára.“ Með bréfi, dags. 11. apríl 2005, greinir Myllan-Brauð hf. frá því að fyrirtækinu sé ekki kunnugt um fyrir hvað „k.k.“ standi og að þessi tilgreining hafi ekki verið sett inn að beiðni þess.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 er hvers kyns mismunun eftir kynferði, hvort heldur bein eða óbein, óheimil. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. sömu laga er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis og samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er óheimilt að auglýsa eða birta auglýsingu um starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað starfsmanns af öðru kyninu en hinu. Þetta gildir þó ekki ef tilgreining kyns er byggð á lögmætum sjónarmiðum sbr. til dæmis 2. mgr. 24. gr. jafnréttislaga in fine.

Við meðferð málsins hjá nefndinni hefur ekki verið að fullu upplýst hvað framangreind tilgreining, „k.k.“ hafi átt að þýða í verkbeiðni vegna ræstingarstarfs. Af þessu gefna tilefni leyfir kærunefnd jafnréttismála sér hins vegar að vekja athygli Vinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins á framangreindum lagaákvæðum um bann við mismunun við ráðningar, þar með talið í auglýsingum um störf.

Með vísan til framangreinds, m.a. með hliðsjón af verkbeiðni Myllunnar-Brauðs hf. dags. 15. september 2004, verður Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins ekki talin hafa brotið gegn ákvæðum 22. gr. sbr. 1. mgr. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 við ráðningu í starf aðstoðarmanns bakara hjá Myllunni-Brauð hf.

 

 

Andri Árnason

Ragna Árnadóttir 

Ása ÓlafsdóttirEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira