Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2007 Innviðaráðuneytið

Yfirlýsing vegna umræðu um takmörkun á siglingum flutningaskipa

Vegna umræðu síðustu daga og vikur um siglingar flutningaskipa við landið og hugsanlega takmörkun á siglingaleiðum vill samgönguráðuneytið taka fram eftirfarandi:

  1. Athuganir og undirbúningsvinna vegna hugsanlegrar takmörkunar á siglingaleiðum skipa að og frá landinu hefur staðið lengi í samgönguráðuneytinu og viðeigandi undirstofnunum. Nefnd sem skipuð var til að móta reglur um tilkynningarskyldu og afmörkun siglingaleiða olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning inn í íslenska efnahagslögsögu skilaði tillögum til ráðuneytisins í árslok 2000. Nefndin var sammála um nauðsyn þess að auka verndun umhverfisins og öryggis skipa með því að huga að takmörkum skipaumferðar innan svæðis frá Dyrhólaey, suður fyrir Vestmannaeyjar að Fuglaskerjum og þaðan vestur að Garðskaga. Huga yrði að öryggi og því væru rannsóknir á öldufari og straumum á þessu hafsvæði nauðsynlegar áður en unnt væri að takmarka siglingaleiðir. Forsendur þess að unnt verði að setja reglur um siglingaleiðir er viðurkenning Alþjóða siglingamálastofnunarinnar, IMO. Ráðuneytið bendir á að skiptar skoðanir eru um nauðsyn þess að setja reglur sem þessar.
  1. Margháttaðar rannsóknir hafa farið fram allt frá árinu 2000 og hefur verið gerð grein fyrir þeim eftir því sem úrvinnslu hefur miðað í skýrslu samgönguráðherra um framkvæmd samgönguáætlunar fyrir árin 2003, 2004 og 2005. Vegna stóraukinna siglinga olíuflutningaskipa í íslenskri efnahagslögsögu hefur Siglingastofnun einnig stöðugt unnið að uppbyggingu á upplýsingakerfi um veður og sjólag. Einnig vinnur stofnunin ölduspá í samvinnu við Evrópsku veðurmiðstöðina og Veðurstofu Íslands.
  1. Í nóvember síðastliðnum var skipuð nefnd til að leggja fram tillögur um hvernig stuðla megi að því að fyrirbyggja slys og mengun á sjó og draga úr áhrifum þeirra á umhverfi sjávar og stranda, efnahagslífið og heilbrigði íbúa. Er það gert í framhaldi af samþykki Íslands á skuldbindingum vegna tilskipunar Evrópuþingsins og Evrópuráðsins vegna neyðarhafna. Í byrjun febrúar var nefndinni einnig falið að leggja fram tillögur um afmörkun öruggra siglingaleiða skipa/og eða takmörkun á siglingum skipa. Í fyrsta áfanga á hafsvæðinu suðvestur af landinu og í síðari áfanga að huga að slíkri afmörkun umhverfis landið allt. Nefndinni er einnig falið að hlutast til um að fá alþjóðlega viðurkenningu á siglingaleiðum sem afmarkaðar kunna að verða. Miðað er við að tillögurnar verði kynntar ráðuneytinu eigi síðar en 1. apríl næstkomandi.
  1. Einnig má benda á að forstjóri Landhelgisgæslunnar hefur vakið athygli dómsmálaráðuneytisins á varasamri siglingu skipa fyrir Reykjanes um og eftir áramót. Segir í bréfinu, sem einnig hefur verið kynnt samgönguráðuneytinu, að afar brýnt sé að unnið verði hratt og örugglega að skipulagningu siglinga á þessari leið og víðar. Fulltrúi Landhelgisgæslunnar á sæti í framangreindri nefnd.
  1. Af þessu má sjá að vegna umfangsmikilla rannsókna á hafsvæðinu suður af landinu og úrvinnslu þeirra hefur reynst tímafrekara en áætlað var að móta ákveðnar tillögur sem lagðar yrðu fyrir Alþjóða siglingamálastofnunina. Stefnt er að því að leggja tillögurnar fyrir undirnefnd IMO á fundi hennar í apríl. Nú er þess vænst að tillögurnar fái afgreiðslu á fundi nefndarinnar í júlí. Í framhaldi af því gætu þær tekið gildi eftir tilskilinn aðlögunartíma.
  2. Vaktstöð siglinga gegnir lykilhlutverki í siglingaöryggi landsmanna. Samgönguráðherra hafði forgöngu um að Vaktstöð siglinga yrði komið á og voru lög um hana samþykkt á Alþingi 2003. Vaktstöðinni er falið að fylgjast með allri skipaumferð á sjó í efnahagslögsögu Íslands og vera miðstöð upplýsinga fyrir innlenda og erlenda skipaumferð. Vaktstöðin hefur einnig það hlutverk að reka siglingaöryggisþjónustu við skip. Þá skulu erlend skip sem sigla inn í íslenska efnahagslögsögu tilkynna sig og skal koma fram nafn og heimahöfn skips, þjóðerni, eigandi, útgerðaraðili sé hann ekki eigandi, skipstjóri og umboðsmaður útgerðar hérlendis. Íslensk skip tilkynna staðsetningu sína um sjálfvirkt tilkynningarkerfi eins og kveðið er á um í reglugerð. Siglingastofnun Íslands var falin yfirstjórn stöðvarinnar og var gerður þjónustusamningur við Landhelgisgæslu Íslands, Neyðarlínuna og Slysavarnafélagið Landsbjörgu um að annast sameiginlegan rekstur stöðvarinnar. Landhelgisgæslan fer með faglega forystu í vaktstöðinni og hefur með höndum daglegan almennan rekstur.

Lög um Vaktstöð siglinga nr. 41/2003 er að finna hér.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum