Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2007 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Vegur um Tröllatunguheiði boðinn út

Vegagerðin hefur auglýst eftir tilboðum í gerð nýs Trollatunguvegar sem verður alls 24,5 km langur. Verkinu á að vera lokið fyrir 1. september 2009.

Vegurinn er nr. 605 og liggur milli Vestfjarðavegar nr. 60 í Geiradal ekki langt frá Króksfjarðarnesi og Djúpvegar nr. 61 í Steingrímsfirði. Liggur vegurinn um Geiradal, Gautsdal, Tröllatunguheiði og Arnkötludal, að sjó skammt innan við bæinn Hrófá um 6 km frá Hólmavík. Með þessum vegi styttist leiðin milli Reykjavíkur og Hólmavíkur svo og Ísafjarðardjúps verulega.

Breidd vegarins verður 7,5 metrar og hann verður lagður bundnu slitlagi. Vegurinn fer í 380 m hæð yfir sjó þar sem hann er hæstur. Innifalið í verkinu er meðal annars gerð fimm víðra stálplöturæsa í Gautsdalsá og Arnkötludalsá. Heildarefnismagn í veginn er áætlað um 940 þúsund rúmmetrar.

Í ár eru 200 milljónir króna áætlaðar til framkvæmdanna og samkvæmt samgönguáætlun áranna 2007 til 2010 sem nú liggur fyrir Alþingi eru 700 milljónir áætlaðar í verkefnið á næsta ári og síðan að lokaframlög komi árið 2009.

Útboðsgagna má vitja hjá Vegagerðinni á Dagverðardal á Ísafirði eða í Borgartúni 7 í Reykjavík frá þriðjudegi 20. febrúar. Verð útboðsgagna er 8.000 krónur og skal skila tilboðum á sömu stöðum fyrir kl. 14 þriðjudaginn 20. mars. Þau verða opnuð þar kl. 14.15 sama dag.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira