Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2013 Félagsmálaráðuneytið

Stígur; nýtt samstarfsverkefni um starfsráðgjöf og atvinnuleit

Samkomulag um verkefnið handsalað
Samkomulag um verkefnið handsalað

Vinnumálastofnun hefur ýtt úr vör samstarfsverkefni með sveitarfélögum í landinu um þjónustu við atvinnuleitendur sem eru án bótaréttar í atvinnuleysis-tryggingakerfinu og njóta fjárhagsaðstoðar frá félagsþjónustu sveitarfélaga. Verkefnið hefur fengið nafnið Stígur og markmið þess að styrkja viðkomandi einstaklinga í leit sinni að atvinnu og fækka þannig í hópi þeirra sem þurfa á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga að halda.

Aðalsteinn Sigfússon sviðsstjóri velferðarsviðs Kópavogsbæjar, Gyða Hjartardóttir félagsþjónustufulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunar handsöluðu samkomulag um verkefnið Stíg í gær, 19. nóvember.

Sá hópur sem verkefnið tekur til er fólk sem hefur ýmist tæmt rétt sinn til atvinnuleysisbóta á liðnum árum eða hefur af einhverjum ástæðum ekki náð að skapa sér þann rétt. Félagsþjónustur sveitarfélaga munu vísa þeim sem í hlut eiga í starfsráðgjöf og vinnumiðlun hjá Vinnumálastofnun samkvæmt sérstöku verklagi. Áætlað er að þjónusta Vinnumálastofnunar taki til um 1500 einstaklinga á landinu öllu sem eru í þessari stöðu. Þjónustan mun fyrst og fremst felast í starfsráðgjöf og vinnumiðlun en einnig verður fólki í þessum hópi boðið að taka þátt þeim vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun skipuleggur fyrir atvinnuleitendur til að örva leit þeirra að starfi og auka starfshæfni. Að baki ákvörðun um slíka þjálfun liggur mat ráðgjafa og fjárhagslegt svigrúm stofnunarinnar á hverjum tíma.

Í frétt um verkefnið á vef Vinnumálastofnunar segir að mikilvægur þáttur í verkefninu felist í því að ávallt séu fyrir hendi nægilega mörg starfs-þjálfunartækifæri fyrir atvinnuleitendur hjá fyrirtækjum og stofnunum ríkis og sveitarfélaga en slík þjálfun hefur reynst árangursríkasta aðferðin til að tryggja fast starf í kjölfarið. „Vinnumálastofnun mun nú samhliða treysta samstarf sitt við atvinnulífið í þessum efnum og kynna ávinning þess að bjóða atvinnuleitendum starfsþjálfun, fyrirtækjunum og einstaklingunum sem um ræðir og samfélaginu, öllum til hagsbóta.“

Verkefnisstjóri Stígs af hálfu Vinnumálastofnunar er Ragnheiður Hergeirsdóttir forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurlandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira