Hoppa yfir valmynd
3. september 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Búnaður til Seyðisfjarðar vegna mengunar frá El Grillo

Seyðisfjarðarkirkja - myndHugi Ólafsson

Unnið er að aðgerðum til að bregðast við olíumengun frá flaki El Grillo í Seyðisfirði, eftir að leki kom þar upp í ágústmánuði. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið ásamt Umhverfisstofnun hafa mótað viðbrögð í samráði við sveitarstjórn og hafnarstjórn Múlaþings og Landhelgisgæsluna, sem miðast annars vegar við að bregðast við menguninni nú og hins vegar að finna langtímalausn á vandanum.

Mengunarvarnabúnaður hefur verið sendur á Seyðisfjörð til að hreinsa upp olíu sem kann að leka úr El Grillo í haust. Flotgirðing með svokölluðum ísogspylsum verður notuð til að takast á við mengun sem nú er til staðar og kann að verða í haust í Seyðisfirði, en fyrri reynsla bendir til að lekinn stöðvist þegar sjór kólnar.

Samhliða verður hafin skoðun á mögulegum lausnum til lengri tíma, sem miðast við að stöðva lekann til frambúðar og ná þeirri olíu upp sem eftir er í flakinu. Ráðuneytið og Umhverfisstofnun munu móta fyrirkomulag þeirrar skoðunar á næstunni í samráði við heimamenn og Landhelgisgæsluna.  

El Grillo er breskt olíubirgðaskip sem var sökkt árið 1944 eftir árás þýskra flugvéla og liggur á um 40 m dýpi á botni Seyðisfjarðar. Árið 2001 var ráðist í umfangsmiklar hreinsunaraðgerðir og náðust upp rúm 60 tonn af olíu og var þá talið að 10-15 tonn af olíu væru eftir í flakinu, sem erfitt væri að ná til. Síðan hefur olía ítrekað lekið úr flakinu þegar sjór hlýnar á sumrin. Steypt var fyrir leka árið 2020 samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar að tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra. Sú viðgerð hefur haldið, en leki hefur komið upp á nýjum stöðum.

Tilkynnt var um leka frá El Grillo í ágúst 2021. Lekinn reyndist minni en sumarið 2020 og ekki hefur verið vart við fugladauða nú eins og þá. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar að skoða aðstæður og fóru kafarar á vegum hennar í leiðangur í  ágúst. Greinargerð um niðurstöður leiðangursins var unnin í kjölfarið og var hún kynnt á fundi ráðuneytisins með sveitarstjórnarfulltrúum og fleirum. Þar var einnig rætt um möguleg úrræði til að bregðast við olíumengun frá El Grillo til skemmri og lengri tíma.

Í greinargerð Landhelgisgæslunnar kemur m.a. fram að lekinn nú sé lítill en nokkuð stöðugur og komi úr tveimur tönkum undir brú skipsins. Sprengikúlur fundust á lekasvæðinu og kunna að vera þar fleiri ósprungnar sprengjur, sem gerir mögulegar aðgerðir vandasamari en ella.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum