Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Verkefnisstjórn um uppbyggingu í þágu geðfatlaðra


Félagsmálaráðherra hefur skipað verkefnisstjórn sem falið er að hafa umsjón með uppbyggingu búsetuúrræða og þjónustu við geðfatlaða í samræmi við ákvæði 7. gr. laga nr. 133/2005 um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

Með lögum nr. 133/2005 var ákveðið að ráðast í stórátak í uppbyggingu búsetuúrræða og þjónustu við geðfatlaða með því að ráðstafa til þess málaflokks 1.000 milljónum króna af söluandvirði Landssíma Íslands hf. Með fjáraukalögum ársins 2005 hefur 200 milljónum króna af þessu fé verkið ráðstafað í þágu þessa verkefnisisins. Lög nr. 133/2005 kveða á um að árið 2007 verði 200 milljónir króna til viðbótar til ráðstöfunar en 300 milljónir króna hvort áranna 2008 og 2009. Að auki er gert ráð fyrir að Framkvæmdasjóður fatlaðra verji 500 milljónum króna til verkefnisins, þannig að alls verði 1.500 milljónum króna varið til uppbyggingar í þágu geðfatlaðra á tímabilinu.

Markmið þessa átaks er að á árunum 2006–2010 verði í áföngum dregið svo úr biðtíma eftir þjónustuúrræðum fyrir geðfatlað fólk utan hefðbundinna geðheilbrigðisstofnana að hann verði viðunandi í lok tímabilsins. Það gildi jafnt um búsetuúrræði sem stoðþjónustu sem lýtur að atvinnu, hæfingu, attvinnuendurhæfingu eða annarri dagþjónustu. Þessi þjónusta verði á forræði félagasmálaráðuneytisins í náinni samvinnu við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Leiðarljós verkefnisins verður að styðja við virka þátttöku geðfatlaðs fólks í samfélaginu og auka lífsgæði þess sem verða má. Jafnframt að stuðla að eflingu faglegrar þekkingar á málefnum geðfatlaðs fólks innan félagslega þjónustukerfisins og heilsugæslunnar.

Verkefnisstjórnin, sem ráðherra hefur skipað, mun hafa yfirumsjón með verkefninu og taka ákvarðanir um inntak þess og framvindu, áherslur og forgangsröðun verkefna. Fyrir nóvember ár hvert skal skila áætlun fyrir næsta ár og greinargerð um framvindu á yfirstandandi ári. Áætlanir skal endurskoða á sex mánaða fresti. Verkefnisstjórnin hefur einnig með höndum samskipti við ráðuneyti og ráðherra félagsmála og heilbrigðismála. Þá annast hún samskipti við þá embættismenn, sem starfa að framkvæmd verkefnisins, svo og sérstakan ráðgjafahóp fulltrúa notenda, aðstandenda og fagaðila.

Verkefnisstjórnina skipa:

Dagný Jónsdóttir, alþingismaður, formaður,
Sigurjón Örn Þórsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra,
Þór G. Þórarinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu,
Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra,
Guðrún Sigurjónsdóttir, verkefnisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.

Af hálfu félagsmálaráðuneytisins er lögð áhersla á að nýta við framkvæmd verkefnisins þá þekkingu og reynslu, sem fyrir hendi er hjá geðfötluðum og aðstandendum þeirra og einnig fagaðilum sem unnið hafa að málefnum geðfatlaðra. Til þess að tryggja aðkomu notenda, aðstandenda og fagaðila að ákvörðunum sem teknar verða um uppbyggingu búsetuúrræða og þjónustu við geðfatlaða á næstu árum óskaði félagsmálaráðherra eftir tilnefningum hagsmunaaðilum í sérstakan ráðgjafahóp. Tilnefningar liggja nú fyrir og hefur ráðgjafahópurinn verið skipaður. Í honum eiga sæti:

Ragnhildur Bragadóttir, tilnefnd af Hugarafli,
Sveinn Magnússon, tilnefndur af Geðhjálp,
Pétur Hauksson, tilnefndur af Geðverndarfélagi Íslands,
Gunnhildur Bragadóttir, tilnefnd af Aðstandendahópi Geðhjálpar,
Héðinn Unnsteinsson, sérfræðingur hjá Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, skipaður af ráðherra án tilnefningar.

Ráðgjafahópnum er ætlað að vera verkefnisstjórn og embættismönnum til ráðgjafar varðandi verkefnið og annast tengsl og samráð við samtök notenda og aðstandenda. Gert er ráð fyrir að leitað verði samráðs við fleiri aðila úr hópi notenda, aðstandenda og fagfólks við undirbúning ákvarðana sem snerta einstaka notendahópa og hagsmuni þeirra aðila sem veita geðfötluðum þjónustu í dag.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum