Hoppa yfir valmynd
10. september 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Minning Jóns Árnasonar heiðruð

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Helgi Gíslason myndhöggvari, höfundur lágmyndarinnar.  - mynd
Lágmynd af Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara og landsbókaverði var afhjúpuð í Þjóðarbókhlöðunni um helgina þar sem haldin var hátíðardagskrá honum til heiðurs. 200 ár eru nú liðin frá fæðingu Jóns.

„Þjóðsögurnar og ævintýrin sem Jón Árnason safnaði eru einstök og ríkuleg arfleifð. Þær eiga mikilvægan þátt í upplifun okkar af landinu og mótun sjálfsmyndar íslensku þjóðarinnar. Án þeirra hefði íslensk menning þróast á annan veg og jafnvel orðið bragðdaufari fyrir vikið og því eigum við Jóni margt að þakka,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sem flutti ávarp af þessu tilefni og afhjúpaði listaverkið.

Jón hóf starf sitt sem þjóðsagnasafnari árið 1845 með Magnúsi Grímssyni og árið 1852 kom út safn þeirra Íslenzk ævintýri. Þjóðsagnasafnið sem kennt er við Jón kom síðan fyrst út í tveimur bindum árin 1862 og 1864. Jón gegndi ennfremur fjölmörgum störfum og var meðal annars biskupsritari, umsjónarmaður í Lærða skólanum, meðumsjónarmaður með Forngripasafninu (síðar Þjóðminjasafn Íslands) og landsbókavörður frá 1848 til 1887.

Af sama tilefni var um helgina opnuð sýning í Þjóðarbókhlöðunni um ævi og störf Jóns en þar er meðal annars að finna handrit, bréf og prentaðar bækur. Þá mun Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum einnig halda ráðstefnu um Jón og störf hans þann 17. október nk.

Viðburðir þessir og aðrir sem haldnir voru fyrr í sumar eru skipulagðir í kjölfar ályktunar Alþingis frá árinu 2015 um mikilvægi þess að minnast þessara tímamóta.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum