Hoppa yfir valmynd
21. júlí 2009 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Drögum að nýjum umferðarlögum fylgt úr hlaði

Drög að frumvarpi til nýrra umferðarlaga eru nú til umsagnar á vef samgönguráðuneytisins. Nefnd sem ég skipaði í nóvember 2007 hefur skilað góðu starfi og næsta skref er að óska eftir umsögnum frá almenningi og hagsmunaaðilum sem umferðarlögin varða.

Með því að kynna frumvarpsdrögin hér gefst almenningi kostur á að hafa áhrif á endanlega gerð lagafrumvarps sem lagt verður fyrir ríkisstjórn og síðar Alþingi. Mun ég hafa hliðsjón af þeim umsögnum og athugasemdum sem berast.

Umferðarlög varða okkur öll. Við erum öll þátttakendur í umferðinni á einhvern hátt. Því er eðlilegt að við höfum öll skoðanir á því hvers konar umferðarlög við viljum hafa. Lögin eru rammi um hegðun okkar og hátterni í umferðinni og megin tilgangur þeirra er sá að setja öryggið ofar öllu. Lagaramminn tekur þannig bæði til stjórnvalda og hins almenna borgara. Þar eru okkur öllum lagðar skyldur á herðar og aðeins með því að uppfylla þær náum við því markmiði sem við hljótum alltaf að stefna að: Slysalausri umferð.

Heildarendurskoðun umferðarlaga er viðamikið verkefni. Í nefndinni, sem Róbert Spanó lagaprófessor stýrði, sátu sérfræðingar á ýmsum sviðum umferðarmála og lagasetningar. Einnig leitaði nefndin ráðgjafar og viðaði að sér gögnum frá innlendum og erlendum sérfræðingum.

Næstu vikurnar gefst almenningi tími til að fara yfir frumvarpsdrögin og leggja orð í belg. Nýmælin eru fjölmörg og helstu stefnumiðin eru listuð upp í samantekt nefndarinnar um frumvarpsdrögin. Ég vil biðja landsmenn að kynna sér efnið og senda samgönguráðuneytinu ábendingar sínar. Þannig er hægt að hafa áhrif á framgang málsins. Að loknum fresti til athugasemda, 15. september næstkomandi, mun ég fara yfir þær ásamt sérfræðingum ráðuneytisins og hafa þær til hliðsjónar við gerð endanlegs texta frumvarpsins.

Kristján L. Möller samgönguráðherraEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira