Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 49/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 49/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU18110035 og KNU18110036

Kæra [...],

[...]

og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. nóvember 2018 kærðu [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir M) og [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir K) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 8. nóvember 2018 um að synja kærendum og börnum þeirra, [...] fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir A), og [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir B) um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kærendum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefjast kærendur þess að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 13. september 2017. Með ákvörðun dags. 1. desember 2017 komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærendur skyldu send til Þýskalands á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 9. janúar 2018, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kærenda til meðferðar á ný. Með ákvörðun dags. 19. janúar 2018 komst Útlendingastofnun aftur að þeirri niðurstöðu að kærendur skyldu send til Þýskalands á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 10. apríl 2018, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir aðila þann 16. apríl 2018 og þann 23. apríl 2018 barst kærunefnd beiðni aðila um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Beiðni kærenda var synjað af kærunefnd þann 26. maí 2018. Þann 13. júní 2018 barst kærunefnd beiðni kærenda um að nefndin endurskoðaði úrskurði þeirra. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 28. júní 2018, féllst kærunefnd á beiðni kærenda um endurupptöku á máli þeirra og lagði nefndin fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kærenda til efnismeðferðar. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 9. og 10. október 2018 og 7. nóvember 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 8. nóvember 2018, synjaði Útlendingastofnun kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 26. nóvember 2018. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 10. desember 2018. Þá bárust kærunefnd fylgigögn frá kærendum dagana 11., 13., 18. og 21. desember 2018 og 2., 8., 10., 18. og 22. janúar 2019. M og K komu í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála ásamt talsmanni sínum og túlki þann 10. janúar 2019. Þann 25. janúar sl. fór kærunefnd þess á leit við vegabréfarannsóknarstofu flugstöðvardeildar Lögreglustjórans á Suðurnesjum að gerð yrði áreiðanleikakönnun á [...] kennivottorðum kærenda. Þann 11. febrúar 2019 barst svar frá embættinu um niðurstöðu könnunarinnar.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau geti ekki búið í [...] sökum almenns ástands þar. Þá geti kærendur ekki flutt til [...] sökum frænda M sem vilji honum illt sem og fyrri aðildar M að [...] flokknum.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli A, kom fram að viðtal hafi verið tekið við hana þann 7. nóvember 2018 ásamt talsmanni hennar. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli B kom fram að hún væri svo ung að árum að ekki yrði talið tilefni til að taka viðtal við hana. Fram kom að umsóknir barna kærenda væru grundvallaðar á framburði foreldra þess auk framburðar A og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þess, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að börnum kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis. börnum kærenda var vísað frá landinu.

Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur fram að M sé fæddur og uppalinn í [...] en hafi flust til [...]. Þar hafi hann búið ásamt fjölskyldu sinni þar til þau hafi yfirgefið heimaríki að undanskildum þremur árum þegar hann hafi dvalið í [...]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi M frá því að hann tilheyri þjóðarbroti [...]. Þá hafi hann greint frá því að hafa verið virkur í [...] stjórnmálaflokknum í [...] allt þar til flokkurinn hafi verið leystur upp árið [...] eftir fall [...] en þá hafi hann flutt til [...] þar sem meðlimir flokksins hafi átt undir högg að sækja í [...]. M hafi snúið til baka til [...] árið [...] þegar hann hafi talið það öruggt. M og K hafi gengið í hjúskap í [...] í lok árs [...] en búið í [...] þar sem M hafi rekið skóverslun á markaði í borginni. Þar hafi hann verið í samskiptum við mann sem hafi verið nágranni hans á markaðnum og einnig rekið skóverslun. Þegar [...] hafi tekið yfir [...] hafi samtökin í fyrstu [...]. M kvað [...] nágranna sinn á markaðnum hafa snúist gegn sér og hafi hann hótað fjölskyldu kæranda auk þess að siga [...] liðum á þau uppruna þeirra vegna. Þá greindi M frá atviki á markaðnum þar sem [...] hópurinn hafi ætlað að handtaka hann og hafi M þurft að þola barsmíðar þegar hann hafi streist á móti. M hafi náð að hlaupa í burtu en [...]. Þá hafi kærendur ákveðið að yfirgefa [...] og hafi þau farið til [...]. Við komuna til [...] hafi M verið settur í fangelsi í viku en systir hans sem sé búsett í borginni hafi fengið hann leystan úr varðhaldi gegn greiðslu og með því að ábyrgjast hann. M kveður að hann hafi verið handtekinn þar sem hann sé eftirlýstur á svæðinu vegna þátttöku hans í [...] flokknum. Hafi hann á árunum [...] m.a. tekið þátt í verkefnum á vegum leyniþjónustu flokksins á því svæði er nú sé kennt við [...]. Verkefni M hafi m.a. falist í öflun upplýsinga um vopnaflutning meðlima flokksins [...] sem hafi leitt til handtöku þeirra. M hafi komist í tæri við hópinn í gegnum frænda sinn og hafi þeir í kjölfarið orðið óvinir. Frændi M hafi komið upp um aðild M að [...] flokknum. Þá hafi frændi M orðið [...] og hafi hann tekið jörð móður M eignarnámi. M geti sökum deilna við frænda sinn ekki búið í [...] en hann telji frænda sinn enn vera á eftir honum. Þá kvaðst M hafa verið handtekinn í [...] árið [...] af öryggissveitum og haldið í varðhaldi í tvo mánuði. Handtakan hafi átt sér stað þegar M hafi verið á leið að heimsækja mág sinn í [...] en honum hafi verið brottvísað frá [...] af dómara og ákvarðað endurkomubann vegna þátttöku sinnar í [...] flokknum. Fyrir þetta atvik hafi fjölskyldu K verið ókunnugt um bakgrunn M og hafi í kjölfarið viljað að hún færi frá M. K hafi þá verið barnshafandi og því ekki viljað fara frá M en fjölskylda hennar, utan einnar systur hennar, hafi slitið öllu sambandi við K og M í kjölfarið. Þá hafi bróðir M orðið fyrir áreiti vegna þátttöku M í [...] flokknum og vilji ekkert með M hafa í dag. M kveðst aðallega hræðast hefndaraðgerðir frænda síns og [...] öryggissveita. Þá hafi hann orðið fyrir pyndingum árin [...] og [...] og óttist að verða aftur fyrir slíkum pyndingum eða settur í ævilangt fangelsi snúi hann til baka. Þá kvaðst M ekki geta búið í [...] þar sem ásigkomulag borgarinnar sé slæmt og innviðir óvirkir eftir veru [...] liða þar. Ekki sé hægt að fá rafmagn, vatn eða aðra þjónustu.

Þá kemur fram í greinargerð að M hafi verið boðaður í tungumála- og staðháttarpróf hjá Útlendingastofnun þann 18. október 2018 sem hafi átt að fara fram með spyrjanda af þjóðarbrotinu [...]. Við upphaf prófsins hafi komið fram að spyrjandinn tilheyrði ekki [...] þjóðarbrotinu og síðar að slíkur spyrjandi sé ekki tiltækur. Því hafi prófið ekki farið fram.

Í greinargerð kemur fram að K sé fædd og uppalin í [...] en hafi flutt til [...] í kjölfar þess að hún hafi gifst M. Í greinargerð kemur fram að K taki undir frásögn M varðandi ofsóknir [...] liða og staðfesti að frændi M sé háttsettur í [...]. Þá greindi K frá því að þau hafi verið einangruð í [...] þar sem íbúar þar hafi ekki verið hrifnir af [...], t.a.m. hafi foreldrar bannað börnum sínum að leika við börn kærenda. K hafi því mest verið heima með börnin og hafi frelsi þeirra verið heft í kjölfar komu [...] til [...]. Það hafi verið settar strangar reglur um [...]. K eigi fjölskyldu í [...] sem hafi snúið baki við henni, utan einnar systur hennar, eftir að upp hafi komist um þátttöku M í [...] flokknum. K kvað kærendur vera í hættu í heimaríki en þau hafi nú þegar misst [...] vegna ofsókna og geti ekki snúið aftur. Þá hafi kærendur ekkert bakland í heimaríki og óttist um börn sín auk þess að M verði handtekinn og settur í fangelsi. Þá geti þau ekki leitað til lögreglu.

Kærendur beri þess merki að hafa gengið í gegnum erfiðleika og vísa þau til heilsufarsgagna því til stuðnings. Eftir komuna til Íslands hafi kærendum verið hótað af smyglara sem hafi komið þeim til landsins. Dætur kærenda hafi orðið vitni að hótununum sem hafi valdið þeim ótta. Málið hafi verið kært til lögreglu og hafi M og K verið vitni í málinu hér á landi og fengið hótanir vegna þess. Þá hafi þeim borist fregnir þess efnis að leitað hafi verið að þeim í húsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í Þýskalandi þar sem þau hafi dvalið áður. Dætur kærenda hafi fengið sálræna aðstoð vegna þeirra áfalla sem fjölskyldan hafi orðið fyrir, m.a. [...], handtöku föður og áreiti. Dætur kærenda hafi glímt við vanlíðan en andleg heilsa þeirra sé betri eftir komuna hingað til lands.

Kærendur fjalla í greinargerð sinni um ástand mannréttindamála í [...], þ. á m. almennt öryggisástand og aðstæður á yfirráðasvæði [...] í [...]. Kærendur vísa m.a. til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings.

Kærendur krefjast þess aðallega að þeim verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamenn hér á landi þar sem þau séu ofsótt í skilningi 1. mgr. 37. gr. og 38. gr. laga um útlendinga. Þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna þjóðernis þeirra, trúarskoðana og stjórnmálaskoðana M, sbr. b-, c- og e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærendur vísa máli sínu til stuðnings m.a. til þess að [...], M hafi verið fangelsaður og pyndaður vegna ætlaðrar stjórnmálaþátttöku og þess að þau hafi verið hrakin frá heimili sínu af [...] sem hafi talið þau trúleysingja þar sem þau séu ekki [...]. Þá byggja kærendur á því að yfirvöld í [...] hafi hvorki vilja né getu til að vernda þau fyrir ofsóknum. Ástandið í heimaríki þeirra sé enn ótryggt og þau geti ekki flúið innanlands. Kærendur geti ekki dvalið í [...] eða annarsstaðar í [...] þar sem M hafi verið handtekinn við komur sínar á svæðið.

Kærendur fjalla í greinargerð um hagsmuni barna sinna en þau eigi tvær dætur sem hafi átt erfitt vegna þeirra áfalla sem þær hafi orðið fyrir og séu nú farnar að festa rætur á Íslandi. Þær aðstæður sem bíði barnanna í heimaríki gangi gegn hagsmunum þeirra. Börn teljist ávallt til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd og sé íslenskum stjórnvöldum skylt að hafa ávallt það sem barni sé fyrir bestu í forgangi þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess. Kærendur vísa til ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, barnalaga nr. 76/2003, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, laga um útlendinga og tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2011/95/ESB. Þá vitna kærendur til þess að í fjölda alþjóðlegra sáttmála sé kveðið á um vernd fjölskyldunnar og rétt barna til að vera með foreldrum sínum. Mikilvægt sé að búa kærendum aðstæður sem geri þeim kleift að veita börnum sínu þá umönnun og það öryggi sem þau þarfnist og eigi rétt á. Brýnt sé fyrir andlega og líkamlega heilsu þeirra sem og framtíð að þau alist upp í öruggu umhverfi.

Til vara krefjast kærendur þess að þeim verði veitt vernd samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Það komi fram í nýlegum heimildum að öryggisástand í heimaríki kærenda sé tvísýnt og erfitt hafi reynst að byggja upp innviði eftir veru [...] í ríkinu, m.a. í heimaborg kærenda. Kærendur vísa til lögskýringargagna að baki 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, tilskipunar nr. 2011/95/ESB og annarra gagna til stuðnings kröfu sinni. Í ljósi framangreinds sé ljóst að kærendur uppfylli skilyrði þess að hljóta viðbótarvernd þar sem þau séu í raunverulegri hættu á að verða fyrir pyndingum og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá sé áréttað að endursending kærenda brjóti gegn meginreglu þjóðarréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamningsins.

Til þrautavara krefjast kærendur þess að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis ef útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna heilbrigðisástæðna, erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða félagslegra aðstæðna viðkomandi í heimaríki. Kærendur vísa til þeirra sjónarmiða sem fram komi í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga nr. 80/2016 um 74. gr. laganna. Með hliðsjón af því sem að framan sé rakið sé ljóst að kærendur uppfylli skilyrði 74. gr. laganna. Kærendur gera athugasemd við hina kærðu ákvörðun í greinargerð og gagnrýna m.a. mat Útlendingastofnunar á trúverðugleika frásagnar kærenda og auðkenni og uppruna M. Þá gera kærendur einnig athugasemd við mat Útlendingastofnunar á möguleikum þeirra á að setjast að í [...]. Telji kærendur að Útlendingastofnun hafi ekki með fullnægjandi hætti skoðað aðstæður kærenda með tilliti til þess ástands sem ríki í [...], sérstaklega með hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Fjöldi einstaklinga sé á vergangi innanlands í ríkinu eða hafist við í slæmum aðstæðum í flóttamannabúðum. Þá barst viðbótargreinargerð í máli kærenda þar sem tíunduð eru fylgigögn í máli kærenda og innihald þeirra. Þá eru ástæður þess að kærendur geti ekki búið í [...] eða [...] áréttaðar. Einnig barst kærunefnd ljósrit af vegabréfum kærenda þann 18. janúar 2019.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi M framvísað aðildarskírteini að [...] flokknum og afrit skírteinis sem hann kvað vera kennivottorð. K hafi ekki framvísað neinu fyrir sig og börn þeirra sem hafi sannað á þeim deili. Það var mat Útlendingastofnunar að kærendur hefðu ekki sannað á sér deili með fullnægjandi hætti og var því leyst úr auðkenni þeirra á grundvelli trúverðugleikamats. Var það mat Útlendingastofnunar að kærendur væru [...] ríkisborgarar. Hjá kærunefnd útlendingamála hafa kærendur lagt fram [...] kennivottorð. Vegna máls kærenda óskaði kærunefnd eftir áreiðanleikakönnun á kennivottorðunum hjá vegabréfarannsóknarstofu flugstöðvardeildar Lögreglustjórans á Suðurnesjum. Í svari rannsóknarstofunnar kemur fram að ítarleg rannsókn á kennivottorðum bendi til þess að um ófölsuð skilríki sé að ræða. Þá hafa kærendur lagt fram myndir sem bera með sér að vera af auðkennissíðum vegabréfa þeirra. Í ljósi framangreinds hefur kærunefnd ekki forsendur til annars en að taka undir mat Útlendingastofnunar. Verður því talið að kærendur séu [...] ríkisborgarar.

Réttarstaða barna kærenda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd með foreldrum sínum og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

• […]

[...]

Ráða má að spilling sé mikið vandamál í [...], þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Á tímabilinu 2005 til 2014 hafi [...] stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist [...] og hafi m.a. [...] lögreglumenn og [...] dómarar undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd. [...]

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Krafa kærenda er byggð á því að þau hafi verið búsett í borginni [...] og þurft að flýja þaðan eftir innrás [...]. Þau séu bæði upprunalega frá borginni [...] og eigi ættingja þar en sökum deilna M við frænda sinn sem sé áhrifamikill á svæðinu sé þeim ómögulegt að setjast þar að. Kærendur óttist að frændi M muni hefna sín á honum, m.a. með því að stuðla að því að M verði handtekinn og settur í fangelsi. Þá hafi M tilheyrt [...] stjórnmálaflokknum til ársins [...] og sé af þjóðabroti [...].

Í viðtali hjá kærunefnd þann 10. janúar sl. staðfestu M og K að þau séu bæði frá [...] og að þau eigi ættingja þar en kváðust hafa verið búsett í [...] fyrir flótta þeirra frá heimaríki. Kærendur hafa greint frá því að M hafi átt í útistöðum við frænda sinn frá árinu [...] eða frá því að M hafi neitað að aðstoða frændann við að koma á fót nýjum stjórnmálaflokki sökum þess að honum hugnuðust hvorki hugsjónir né aðferðir flokksins. M hafi tilkynnt frænda sinn og fyrirætlanir hans um árásir af stjórnmálalegum toga til þáverandi yfirvalda í [...] sem hafi leitt til handtöku frænda hans. Frændinn hafi látið handtaka M árið [...] þar sem hann hafi verið í haldi í tvo mánuði. Þá hafi M flust ásamt K til [...] til að forðast frænda sinn. M og K greindu frá því að hafa áfram heimsótt [...] eftir flutninginn m.a. hafi K farið til borgarinnar til að fæða börn þeirra og M í heimsóknir til ættingja á hátíðisdögum. M kvaðst hafa þurft að hafa varann á við þessar heimsóknir til [...]. Þá hafi kærendur flúið til [...] árið [...] í kjölfar þess að [...] hafi tekið yfir [...]. M hafi verið handtekinn í [...] og kvað hann það hafa verið vegna fyrri handtöku hans sem hafi verið, líkt og áður segir, að tilstuðlan frænda hans. Kærendur telji af þessum sökum að þau geti ekki búið í [...] og verið örugg.

Varðandi búsetu kærenda fyrir flótta þeirra frá [...] þá hafa þau ekki lagt fram gögn sem styðja við þá frásögn þeirra að þau hafi verið búsett í [...]. Aftur á móti hafa kærendur lagt fram ýmis gögn sem sýna fram á tengsl þeirra við [...]. Kærendur lögðu t.d. fram gögn þar sem skráð heimilisfang þeirra er í [...] en aðspurður kvað M að um væri að ræða heimilisfang móður hans. Einnig hafi kærendur lagt fram persónuskilríki M og K sem útgefin eru af stjórnvöldum í [...]. Þá hafa þau staðfest að þau séu bæði fædd og uppalin í borginni. Þá kvað K að kærendur A og B séu báðar fæddar í [...] og renna framlögð persónuskilríki jafnframt stoðum undir þá frásögn en þar er fæðingarstaður þeirra skráður í borginni. Þá kom fram í viðtali við M og K hjá kærunefnd að kærendur séu í sambandi við ættingja í [...] og hafi haft reglulega viðveru í borginni. Þrátt fyrir að af hálfu kærunefndar sé ekki útilokað að kærendur hafi verið búsett í [...] á einhverju tímabili benda gögn og frásögn kærenda til þess að [...] sé heimaborg kærenda.

Eins og að framan greinir byggir frásögn kæranda M á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu frænda síns sem hafi m.a. láti handtaka M í hefndarskyni. M kvað frænda sinn hafa áhrif þar sem hann hafi verið [...]. Rannsókn kærunefndar hefur ekki leitt í ljós upplýsingar um þennan mann eða nokkuð sem bendi til þess að frændi M hafi verið starfandi [...]. Kærendur lögðu fram myndir af manni sem þau kváðu vera umræddan frænda en þrátt fyrir áskoranir kærunefndar hafa þau ekki lagt fram frekari gögn máli sínu til stuðnings. Í því ljósi er það mat kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að frændi kæranda sé áhrifamikill innan stjórnvalda í [...].

Varðandi handtökur M lagði hann m.a. fram við meðferð málsins skýrslu sem hann hafi gefið hjá stjórnvöldum í [...] vegna ætlaðra vandamála hans við frænda sinn. Í gögnunum kemur fram að M hafi verið látinn laus gegn greiðslu tryggingar þegar hann hafi verið handtekinn árið [...]. Þá liggur ekki fyrir í gögnum málsins vegna hvers M hafi verið handtekinn. M lagði fram skýrslu þar sem kemur fram kvörtun hans yfir ofangreindum handtökum sem hafi verið ólögmætar og að tilstuðlan frænda hans. Í skýrslunni kemur fram að óskað hafi verið frekari gagna frá M og að nafngreindur maður, sem M kvað vera frænda sinn, yrði boðaður til skýrslutöku.

Samkvæmt framansögðu telur kærunefnd ekki tilefni til að draga í efa að kærandi M hafi eitt sinn verið handtekinn og látinn laus gegn greiðslu tryggingar. Aftur á móti telur kærunefnd að gögn málsins, að teknu tilliti til trúverðugleikamats á framburði M um stöðu frænda hans innan stjórnkerfisins í [...], bendi ekki til þess að ástæða handtökunnar tengist deilum M og frænda hans. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að kærendur eigi ekki á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda í [...]. Þótt litið yrði svo á að kærandi hafi orðið fyrir áreiti af hálfu fjölskyldumeðlima hans er það jafnframt niðurstaða kærunefndar, m.a. með vísan til gagna sem kærandi hefur lagt fram varðandi kvörtun til yfirvalda í [...], að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í [...] geti ekki eða vilji ekki veita kærendum vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, litið sérstaklega til hagsmuna barna kærenda, öryggis þeirra, velferðar og félagslegs þroska.Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. jafnframt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Eins og að framan greinir benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir eindregið til þess að almennir borgarar í [...] eigi ekki á hættu að verða fyrir alvarlegum skaða vegna vopnaðra átaka. Þá séu lögregla og öryggissveitir [...] öflugar og vel búnar. Heimaborg kærenda, [...], sé á svæði [...] þar sem lögregla og öryggissveitir hafi stjórn á aðstæðum. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærendur séu í raunverulegri hættu, á heimsvæði sínu í [...], á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði þau send aftur þangað eða að þau verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Jafnframt er það mat kærunefndar, með vísan til skýrslna um aðstæður í heimaríki kærenda, að þeim standi til boða vernd og aðstoð lögreglu í [...] telji þau sig þurfa á slíkri aðstoð að halda.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður kærenda og barna þeirra þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga.

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi en ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða skuli veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá segir í ákvæðinu að því verði ekki beitt nema skorið hafi verið úr því að útlendingur uppfylli ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a-d lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Með lögum um breytingu á lögum um útlendinga nr. 81/2017, sem tóku gildi þann 29. september 2017, hefur til bráðabirgða verið bætt tveimur nýjum ákvæðum við lög um útlendinga nr. 80/2016.

Í ákvæði II til bráðabirgða við lögin segir m.a.:

Þrátt fyrir 1. málsl. 2. mgr. 74. gr. skal miða við 15 mánuði í stað 18 mánaða ef um barn er að ræða og umsókn þess um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum fyrir gildistöku laga þessara, enda hafi umsækjandi ekki þegar yfirgefið landið.

Kærendur lögðu fram umsóknir sínar um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 13. september 2017 ásamt börnum sínum. Kærendur og börn þeirra hafa ekki enn þá fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærendur og börn þeirra sóttu fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 31. janúar 2018, eru liðnir rúmir 16 mánuðir. Börn kærenda teljast því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sbr. ákvæði II til bráðabirgða við lögin.

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verður dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum sem koma fram í a- til d-lið málsgreinarinnar. Dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu verður því ekki veitt nema skýrsla hafi verið tekin af umsækjanda um alþjóðlega vernd. Hvað varðar dætur kærenda þá telur nefndin að rétt sé að túlka skilyrði a-liðar 2. mgr. 74. gr. í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga sem mælir fyrir um að barni sem myndað getur eigin skoðanir skal tryggður réttur til að tjá sig í máli sem það varðar og að tillit skuli tekið til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli A kom fram að viðtal var tekið við hana þann 7. nóvember 2018 ásamt talsmanni hennar. Að mati kærunefndar er B aftur á móti það ung að árum að ekki sé raunhæft að ætla að hún hafi myndað sér skoðun sem þýðingu gæti haft í þessu máli. Af þeim sökum er óraunhæft að ætlast til að tekin hafi verið skýrsla af henni. Kærendur hafa ekki framvísað frumriti vegabréfa sinna við meðferð málsins en samkvæmt 2. mgr. b-lið 74. gr. laga um útlendinga verður dvalarleyfi samkvæmt greininni ekki veitt leiki vafi á því hver umsækjandi sé. Við meðferð málsins greindu kærendur frá því að þau hefðu ekki frumrit vegabréfa sinna og barna sinna undir höndum. Kærendur hafa lagt fram ljósrit af einni síðu í vegabréfum sínum og barna sinna þar sem kemur m.a. fram nafn, fæðingardagur, gildistími og útgáfustaður bréfanna auk þess sem myndir eru af kærendum. Þá lögðu kærendur fram frumrit af [...] kennivottorðum fjölskyldunnar. Líkt og áður segir er það niðurstaða áreiðanleikakönnunar að kennivottorðin séu ófölsuð. Þá liggur fyrir afrit af hjúskaparvottorði M og K auk her- og nemandaskilríkis M. Í ljósi heildstæðs mats á framangreindum gögnum er það mat kærunefndar að ekki leiki vafi á auðkenni kærenda. Þegar litið er til gagna málsins er það því mat kærunefndar að kærendur og dætur þeirra uppfylli skilyrði a- til d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Það er enn fremur mat kærunefndar að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga gildi ekki um börn kærenda af ástæðum sem raktar eru í a. – d. lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar og með vísan til athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 81/2018 um breytingu á lögum um útlendinga verður kærendum einnig veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kærendum og börnum þeirra dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kærenda og barna þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kærendum og börnum þeirra dvalarleyfi skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sbr. ákvæði II til bráðabirgða við lögin.

 

Úrskurðarorð

Lagt er fyrir stofnunina að veita kærenda og börnum þeirra dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Ákvarðanir Útlendingastofnunar í máli kærenda og barna þeirra varðandi umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd eru staðfestar.

The Directorate is instructed to issue residence permits for the appellants and their child based on Article 74 of the Act on Foreigners. The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their child related to their applications for international protection are affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                                   Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum