Hoppa yfir valmynd
21. mars 2012 Dómsmálaráðuneytið

Um 2,5% þjóðarinnar eiga við spilavanda að etja

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði á fundi þar sem kynnt var niðurstaða rannsóknar um spilavanda meðal Íslendinga að herða verði róðurinn þeim hópi til varnar sem glímir við slíkan vanda. Hann sagði unnið að endurskoðun laga og reglugerða um spilastarfsemi og kvaðst vona að með haustinu sæi til lands í því verki.

Rætt var um spilavanda á fundi á vegum innanríkisráðuneytisins í dag.
Rætt var um spilavanda á fundi á vegum innanríkisráðuneytisins í dag.

Rætt var um spilavanda á fundi á vegum innanríkisráðuneytisins í dag.Á fundinum kynnti dr. Daníel Þór Ólason, dósent við sálfræðideild Háskóla Íslands, niðurstöðu rannsóknar sem hann vann fyrir innanríkisráðuneytið en hann vann einnig sams konar rannsóknir árin 2005 og 2007. Könnunin nú var gerð í síma og byggðist á tilviljunarúrtaki 3.227 einstaklinga, á aldrinum 18–70 ára, úr þjóðskrá. Svör fengust frá 1.887 þátttakendum, 888 körlum og 999 konum. Nettósvarhlutfall var 61,8%.

Meðal niðurstaða meðal fullorðinna Íslendinga árið 2011 er að um 2,5% þjóðarinnar teljist eiga við spilavanda að etja og að gera megi ráð fyrir að um 4-7 þúsund Íslendingar á aldrinum 18 ára til sjötugs eigi í verulegum vanda. Er það aukning frá fyrri könnunum árin 2005 og 2007.

Rætt var um spilavanda á fundi á vegum innanríkisráðuneytisins í dag.

Niðurstöður sýna að um 76% fullorðinna Íslendinga spiluðu peningaspil a.m.k. einu sinni á síðustu 12 mánuðum fyrir könnun. Vinsælustu peningaspilin voru Lottó, flokkahappdrætti, skafmiðar, póker og spilakassar. Karlar spila frekar en konur peningaspil þar sem þekking á reglum og spilaumhverfi skiptir máli (t.d. íþróttagetraunir og póker) en flokkahappdrætti eru vinsælli meðal kvenna. Þá eru karlar líklegri til að spila peningaspil á erlendum vefsíðum en enginn munur er á spilamennsku kynjanna á innlendum vefsíðum.

Herða þarf róðurinn þeim til varnar

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagðist lengi hafa haft áhyggjur af því hversu margir yrðu spilafíkn að bráð hér á landi. Sagði hann það hafa verið eitt fyrsta verk sitt þegar hann kom í ráðuneytið haustið 2010 að fá yfirlit yfir stöðu happdrætta og fjárhættuspila sem hann sagði spanna allvítt svið.

Ögmundur ritar formála í skýrslu um könnunina sem kom út í dag og segir hann þar meðal annars:

Rætt var um spilavanda á fundi á vegum innanríkisráðuneytisins í dag.,,Hér er birt könnun sem gerð var á vegum innanríkisráðuneytisins. Niðurstöður hennar eru um margt athyglisverðar. Þar staðnæmist ég einkum við aukið umfang fjárhættuspils á Netinu og einnig við þann mikla fjölda fólks sem haldinn er spilafíkn. Sjálfur hef ég alltaf haft efasemdir um að kannanir af þessu tagi fái greint alla raunverulega spilafíkla, einfaldlega vegna þess að þeir bera böl sitt í hljóði. Tölurnar kunna því af þessum sökum að vera lægri eins og þær birtast okkur í könnunum en þær eru í sjálfum veruleikanum.”

Ráðherra segir að séu fjögur til sjö þúsund manns annaðhvort háð spilafíkn eða á mörkum þess, þá séu fórnarlömbin of mörg til að við herðum ekki róðurinn þeim til varnar. Hann segir einnig að ekki megi setja undir sama hatt happdrætti, spilakassa, Lottó og spilavíti á Netinu, þarna sé um að ræða gerólík form og hvert spilaform um sig sé auk þess hægt að starfrækja samkvæmt mismunandi reglum. Þá segir hann einnig í formálanum: ,,Okkur er ekki sæmandi annað en að gera hagsmuni þess fólks, sem orðið hefur spilafíkn að bráð, að leiðarljósi við endurskoðun á lögum og reglugerðum sem gilda um þessa starfsemi. Hún er nú í fullum gangi og vonast ég til að með haustinu sjáum við til lands hvað hana snertir.”

Rætt var um spilavanda á fundi á vegum innanríkisráðuneytisins í dag.Á fundinum kynnti Kristófer Már Kristinsson forsendur hugsanlegra aðgerða sem hann hefur kannað fyrir hönd ráðuneytisins. Sagði hann forgangsverkefni að skipuleggja ólík meðferðarúrræði þannig að þau standi fíklum til boða og séu sýnileg, koma á virku eftirliti með peningaspilum og gagnaöflun og setja lög eða reglur sem tryggi ábyrga spilun á vegum þjóðþrifafyrirtækja.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum